Samkaup
Samkaup

Fréttir

Börnin að borðinu hlýtur Hönnunarverðlaun Íslands 2024
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 8. nóvember 2024 kl. 09:56

Börnin að borðinu hlýtur Hönnunarverðlaun Íslands 2024

 „Börnin að borðinu“ hlaut Hönnunarverðlaun Íslands fyrir verk ársins 2024. Verkefnið var unnið af aðilum í Reykjanesbæ og nemendum Háaleitisskóla.Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í gær, 7. nóvember, í Grósku, þar sem fulltrúar frá Reykjanesbæ, Háaleitisskóla og Kadeco voru viðstaddir.

Í mars á þessu ári fengu nemendur í Háaleitisskóla einstakt tækifæri til að taka þátt í þróunarverkefninu Skapaðu morgundaginn, nú undir nafninu Börnin að borðinu, sem að Reykjanesbær og Kadeco unnu í samstarfi með frábæra hönnunarteyminu ÞYKJÓ á þemadögum skólans. Börnin að borðinu leggur áherslu á að gefa börnum rödd í skipulags- og hönnunarferlum. Verkefnið hefur sýnt hvernig sjónarmið barna geta auðgað samfélagið og skapað líflegra og fjölbreyttara umhverfi þar sem óskir allra aldurshópa eru virtar.  Hægt er að lesa meira um verkefnið hér.

Hönnunarverðlaun Íslands hafa þann tilgang að varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar og arkitektúrs. Verðlaunahafar eru valdir úr hópi verkefna sem skara fram úr og endurspegla það besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs, með áherslu á frjóa hugsun, snjallar lausnir, vandaða útfærslu og fagurfræði. Verkefnin þurfa að vera notendavæn, nýskapandi og stuðla að jákvæðum áhrifum á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni.

„Þessi viðurkenning er mikilvægur áfangi í áformum Reykjanesbæjar um að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þvert á alla stjórnsýsluna í gegnum verkefnið Barnvænt sveitarfélag í samstarfi við UNICEF. Hún undirstrikar einnig þann árangur sem næst þegar hlustað er á raddir barna og samfélagið þróast með skapandi og framsæknum hætti. Reykjanesbær vill þakka öllum sem komu að þessu verkefni og lögðu sitt af mörkum til að tryggja þennan frábæra árangur,“ segir á heimsíðu Reykjanesbæjar.