Samkaup
Samkaup

Fréttir

Fréttaannáll Víkurfrétta 2024 // Janúar, febrúar og mars
Fimmtudagur 2. janúar 2025 kl. 13:18

Fréttaannáll Víkurfrétta 2024 // Janúar, febrúar og mars

Víkurfréttir birta fréttaannál ársins 2024 í fjórum hlutum hér á vf.is. Hér er brot af því helsta úr umfjöllun blaðsins á fyrsta fjórðungi nýliðins árs.

Víkurfréttir 4. janúar 2024:

Mikilvægt að Grindavík rísi upp að nýju

„Það er mjög mikilvægt að flýta vinnu við áhættumat þannig að við getum farið að hefja starfsemi á einn eða annan hátt og það er í raun hvimleitt að því sé ekki lokið. Við höfum haft lokað í tvo mánuði en stefnum að því að opna aftur í einhverri mynd í lok vikunnar,“ sagði Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Bláa lónsins, eftir fund fyrirtækja í ferðaþjónustu í Grindavík með Lilju Alfreðsdóttur, ráðherra ferðamála, í gær, 3. janúar. Eigendur ferðaþjónustuaðila og margra fyrirtækja í Grindavík lýstu yfir miklum áhyggjum með stöðu mála en þau hafa langflest verið með lokað eða mjög skerta starfsemi undanfarnar vikur vegna jarðhræringa og eldgoss. Sum hafa áhyggjur af því að þurfa að færa starfsemina eða jafnvel loka. Lilja Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra kallaði fyrirtækjaeigendur til fundar á Sjómannastofunni Vör þar sem hún vildi heyra beint frá þeim hvernig staðan væri. Ásrún Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, sagðist ánægð með upplýsingarnar sem komu fram á fundinum en ljóst væri að það yrði að fara að taka næstu skref með meiri opnun í bæinn. „Við erum að setja saman starfshóp í samvinnu við ferðamálaráðherra og vonumst til að málin fari að skýrast á næstu dögum og vikum.“ 

Víkurfréttir 4. janúar 2024:

Atvinnulífið í Grindavík fer rólega af stað

Ekki verður sagt að mikill kraftur hafi verið í atvinnulífinu í Grindavík á öðrum virka degi á nýju ári, en bæði fer fiskvinnsla að venju rólega af stað eftir áramót því bátarnir eru nýfarnir á sjó, og aðrar atvinnugreinar eru ekki komnar í full afköst eftir hamfarnirnar í nóvember. Vinna við varnargarða fyrir utan Grindavík er hafin í kappi við tímann. Jarðskjálfti að stærð 4,5 reið yfir á miðvikudagsmorgun og er margt líkt með hegðun jarðarinnar núna eins og um daginn þegar eldgos kom upp við Sundhnúka.

Ólafur Már Guðmundson er verkstjóri á smíðaverkstæði Grindarinnar. „Ætli við séum ekki að starfa á u.þ.b. 50% afköstum í dag. Það eru nokkrir starfsmenn ennþá erlendis í fríi svo við hefðum hvort sem er ekki verið komnir á fullt. Við hófum starfsemi um leið og það var leyft en þetta var frekar erfitt til að byrja með fyrst við gátum ekki farið um Grindavíkurveginn. Einn daginn þurfti ég að fara fjórar ferðir Nesveginn og eina ferð á Suðurstrandarveginum, þetta tafði auðvitað. Við byrjum klukkan sjö á morgnana en þeir sem búa lengra frá byrja seinna en eru þá líka eitthvað lengur á daginn. Það verður mjög gott þegar lífið kemst aftur í eðlilegar skorður,“ sagði Óli Már. Vélsmiðja Grindavíkur var með þeim fyrstu sem opnuðu eftir hamfarirnar og voru félagarnir Bjarki Simarsson og Sigurbjörn Elvarsson að sjálfsögðu mættir snemma á miðvikudagsmorgun og buðu upp á rjúkandi kaffi. Kjartan Viðarsson, útgerðarstjóri hjá Vísi var mættur til að sækja nauðsynjar og sagði að engin vinnsla væri komin af stað.

„Bátarnir fóru nú bara á sjóinn í gær [þriðjudag] svo það hefði hvort sem er engin vinnsla verið komin í gang. Þetta er búið að vera flókið, þetta er erfitt á meðan fólkið býr ekki á staðnum. Það er erfitt að fá útlendingana til að flytja til Grindavíkur á meðan lögreglustjórinn mælist gegn því að flutt sé til Grindavíkur. Ég var með þeim fyrstu sem flutti heim fyrir jólin, ég sé ekkert því til fyrirstöðu að flytja aftur heim. Það hefur aldrei verið eldgos undir Grindavík og ég hef engar áhyggjur af því. Eflaust kemur eldgos en þá að öllum líkindum á svipuðum slóðum og um daginn og nú er bygging varnargarða hafin svo það er bara bjart framundan hjá okkur Grindvíkingum. Ég tel mjög mikilvægt að Grindvíkingar flytji heim sem fyrst, þeim mun lengur sem fólk býr annars staðar, þeim mun meiri líkur eru á því að þau skjóti rótum þar, það viljum við ekki að gerist,“ sagði Kjartan.

Að lokum var komið við í Stakkavík og var reynt að ná tali af Hermanni Ólafssyni, framkvæmdastjóra en hann mátti ekkert vera að því að tala við blaðamann og sat sem fastastur inn í lyftaranum og mokaði upp steypu sem hefur verið brotin að undanförnu en miklar skemmdir urðu á húsnæði Stakkavíkur í jarðhræringunum.

Víkurfréttir 10. janúar 2024:

Algjör forsendubrestur hjá Grindavíkurbæ

„Ljóst er að forsendubrestur fjárhagsáætlunarvinnunnar er algjör og allar fjárhagslegar forsendur eru nú breyttar í rekstri Grindavíkurbæjar. Fjárhagsáætlun bæjarfélagsins og stofnana fyrir árin 2024–2027 er því sett fram með mikilli óvissu. Fyrir liggur að tekjur Grindavíkurbæjar muni dragast saman á árinu 2024 en kostnaður mun ekki dragast saman samhliða tekjutapinu,“ segir í afgreiðslu bæjarstjórnar Grindavíkur á þriðjudaginn. Þetta er fyrsti fundur bæjarstjórnarinnar í heimabænum síðan í október á síðasta ári en stjórnkerfi Grindavíkurbæjar hefur haft aðsetur í ráðhúsi Reykjavíkur frá því að Grindavík var rýmd 10. nóvember í fyrra.


Víkurfréttir 10. janúar 2024:

Húsnæði Keilis á Ásbrú auglýst til sölu

„Núverandi húsnæði Keilis að Grænásbraut 910 er talsvert of stórt fyrir námsbrautirnar okkar enda fer stór hluti þeirra fram í fjarnámi, einhver hluti í atvinnulífinu og jafnframt í húsakynnum samstarfsaðila. Það er því hluti af endurskipulagningu í rekstri að leigja frekar hluta af núverandi húsnæði í stað þess að vera sjálf í hlutverki útleigjanda líkt og Keilir hefur verið í áraraðir,“ segir Nanna Kristjana Traustadóttir, framkvæmdastjóri Keilis á Ásbrú en um síðustu helgi var allt húsnæði skólans auglýst til sölu, alls 5.500 m2 bygging á 22.500 fm lóð. Dótturfélag Keilis, Fasteignafélagið Keilir ehf. er eigandi húsnæðisins.


Víkurfréttir 17. janúar 2024:

Ríkið kaupi upp Grindavík

Grindvíkingar kalla eftir langtímaúrræðum og vilja að ríkisvaldið kaupi upp eignir í Grindavík í kjölfar þeirra náttúruhamfara sem hafa gengið yfir bæjarfélagið á síðustu dögum, vikum og mánuðum. Þetta er það sem liggur fjölmörgum Grindvíkingum á hjarta og kom skýrt fram á íbúafundi sem Grindavíkurbær stóð fyrir síðdegis í gær, þriðjudag. „Ef að húsið mitt væri brunnið hefði ég fengið fjárhagslegt sjálfstæði,“ sagði Bryndís Gunnlaugsdóttir, íbúi í Grindavík á fundinum. Páll Valur Björnsson, íbúi í Grindavík, hélt mikla eldmessu og sagði að þeir 115 milljarðar króna sem myndi kosta ríkisvaldið að kaupa upp allar fasteignir í bæjarfélaginu væru smáaurar miðað við hvað Grindavík hefur fært íslensku þjóðarbúi. Húsfyllir var á íbúafundinum. Settir voru upp stólar fyrir 500 manns og var salurinn þéttsetinn og komust ekki allir að sem vildu. Þá fylgdust þúsundir með fundinum í streymi á netinu.


Víkurfréttir 17. janúar 2024:

Hraun eyddi húsum í Grindavík

Rétt fyrir kl. 03 aðfaranótt sunnudagsins 14. janúar hófst áköf smáskjálftahrina við Sundhnúksgíga. Á fyrstu tveimur klukkustundunum eftir að hrinan hófst mældust hátt í 200 jarðskjálftar á svæðinu og virknin færðist í átt að Grindavík. Stærsti skjálftinn var um 3,5 að stærð. Mæld­ist hann klukk­an 04:07 við Hagafell. Rétt fyrir klukkan fimm um nóttina var ráðist í skyndirýmingu á Grindavík. Lögreglu- og björgunarsveitabílum var ekið um Grindavík með sírenur til að vekja íbúa, en sofið var í rúmlega 100 íbúðum í Grindavík um nóttina. Bæði borholuþrýstingsmælingar frá HS Orku og rauntíma GPS stöðvar á svæðinu sýndu einnig breytingar og því líklegt að kvikuhlaup hafi átt sér stað. Túlkun á þessum gögnum benti til þess að eldgos væri yfirvofandi og hraungos var líklegasta sviðsmyndin, sagði í samantekt frá Veðurstofu Íslands klukkan fimm um nóttina.

Skjálftar undir byggðinni í Grindavík Klukkustund síðar, klukkan sex, var greint frá því að skjálftavirknin héldi áfram að færast suður og fleiri skjálftar hafi mælst undir miðri byggðinni í Grindavík. Skjálftavirknin og þær breytingar sem sjást á GPS stöðvum eru sambærilegar við það sem sást í aðdraganda eldgossins 18. desember. Helsti munurinn nú og þá er sá að skjálftavirknin er talsvert sunnar. Miðað við þróun skjálftavirkninnar var ekki hægt á þessari stundu að útiloka þá sviðsmynd að kvika komi upp innan bæjarmarkanna í Grindavík.

Veðurstofan uppfærði hættumatskort kl. 07:50 í ljósi túlkunar nýjustu gagna. Hætta hafði aukist á öllum svæðum kortsins. Eldgos hófst kl. 07:57 og fyrsta mat á staðsetningu var SSA við Hagafell. Af fyrstu myndum úr eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar hefur sprunga opnast beggja vegna varnargarðanna sem byrjað vara að reisa norðan Grindavíkur. Sprungan sem myndast hefur er 900 til 1.000 metra löng. Hraun rann í átt að Grindavík. Þegar klukkuna vantaði um stundarfjórðung í níu um morguninn var hraunjaðarinn sagður í um 450 metra fjarlægð frá nyrstu húsum í bænum.

Þegar klukkan var 12:10 opnaðist ný gossprunga sunnan við fyrstu sprunguna. Nýja sprungan er rétt utan bæjarmarkanna. Í hádeginu á sunnudeginum sagði Veðurstofan frá því að eldgosið við Hagafell hefur haldið sama styrk síðustu klukkustundina eða svo. Greining á jarðskjálftamælingum sýndi að í upphafi umbrotanna á sunnudagsmorgun leitaði kvikan til suðvesturs frá svæðinu norðan Sundhnúks og náði suður fyrir Hagafell. Sprungur gliðna Jarðskjálftavirknin var hins vegar stöðug á sunnudagsmorgninum sem bendir til þess að framrás kvikugangsins hafi stöðvast, en að hann hafi náð að bæjarmörkum Grindavíkur og jafnvel undir bæinn.

Víkurfréttir 17. janúar 2024:

Mathöll í gamla Toppinn

Mathöllin Völlum mun opna á vormánuðum 2024 á Ásbrú í húsnæði sem á tímum varnarliðsins var veitinga og skemmtistaðurinn „Top of the Rock“.
Að sögn Kjartans Eiríkssonar sem er í forsvari fyrir félaginu ToRo sem stendur að verkefninu er búið er að ganga frá samningum við sex af átta veitingaaðilum og verða þeir tilkynntir á næstunni. Má þar m.a. nefna aðila sem bjóða upp á japanskan, indverskan og ítalskan mat. „Enn eru tveir staðir lausir og því er tækifæri fyrir áhugasama aðila að koma og ræða við okkur. Við höfum mikinn áhuga á að ræða við aðila sem hafa metnaðarfullar hugmyndir að slíkum rekstri, t.d. varðandi vandaða hamborgara, heilsurétti o.fl. Markmið er að gæðalega verði mathöllin á pari við það sem best þekkist hér á landi og taki einnig mið af þeirri þróun sem á sér stað í slíkum rekstri í heiminum,“ segir Kjartan.
Húsnæðinu verður skipt upp í þrjá hluta undir mathöll, framleiðslueldhús og annan rekstur. Búið er að hanna endurbætur hússins og framkvæma stóran hluta þeirra.
„Þá er gert ráð fyrir afþreyingarrekstri í öðrum hluta hússins sem styður við og styrkir rekstur mathallarinnar. Hvað þennan þátt varðar þá eru spennandi viðræður í gangi við reynslumikla aðila,“ segir Kjartan en meðeigendur hans í ToRo eru bræðurnir Sverrir og Sævar Sverrissynir.

Víkurfréttir 24. janúar 2024:

Skálað í vatni fyrir nýju varavatnsbóli

„Þetta gekk alveg ótrúlega vel með sameiginlegu átaki margra aðila. Ljóst er að verði neysluvatnslaust vegna náttúruhamfara yrðu afleiðingarnar neyðarástand þar sem neysluvatn er grunn forsenda þess að hægt sé að halda uppi búsetu og atvinnustarfsemi á svæðinu. Því er mikilvægt að tryggja svæðinu öruggt aðgengi að neysluvatni,“ sagði Páll Erland, forstjóri HS Veitna en varavatnsból fyrir neysluvatn við Árnarétt í Garði í Suðurnesjabæ er nú tilbúið.

Í tengslum við jarðhræringar og eldgos á Reykjanesi og möguleg áhrif þeirra á vatnsbólið að Lágum við Svartsengi, sem sér bæði Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ fyrir neysluvatni, hafa HS Veitur unnið að því í samvinnu við Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og stjórnvöld að gera ráðstafanir til þess að koma upp varavatnsbóli við Árnarétt í Garði sem nýst getur þeim 25 þúsund íbúum og fyrirtækjum sem þar eru.
Mætti fyrirtækið góðum skilningi frá stjórnsýslunni um flýtimeðferð á tilskyldum leyfum til að hefja borun og uppsetningu varavatnsbóls og hófust framkvæmdir þann 20. nóvember sl. og hafa fjölmargir verktakar unnið stanslaust að verkinu síðan þá. Áætlað er að kostnaður við varavatnsbólið nemi um 140 milljónum króna.

Víkurfréttir 24. janúar 2024:

Njarðvíkuræðin að hluta í jörð til að verjast hraunrennsli

Framkvæmdir við að grafa hluta af svokallaðri Njarðvíkuræð í jörð ganga vel, en Njarðvíkuræðin er heitavatnslögnin sem liggur frá orkuverinu í Svartsengi til Reykjanesbæjar. Lögnin fæðir stærstan hluta byggðar á Suðurnesjum með heitu vatni. Verkið er liður í vörnum mikilvægra innviða gegn yfirvofandi náttúruvá á Reykjanesi og hófust framkvæmdir skömmu fyrir áramót. Reynslan af hraunrennsli við Grindavík sýnir að neðanjarðarlagnir geta þolað álagið af heitu hrauni.

Víkurfréttir 24. janúar 2024:

Aðgerðir til að tryggja örugga framtíð Grindvíkinga

Ríkisstjórnin hefur kynnt áform um aðgerðir sem miða að því að skapa forsendur fyrir öruggari framtíð fyrir Grindvíkinga og eyða þeirri óvissu sem hefur verið vegna fordæmalausra aðstæðna. Aðgerðirnar snúa að því að gera Grindvíkingum kleift að koma sér upp öruggu heimili, tryggja örugga afkomu og aðstoð við að bjarga verðmætum.

Frá því að atburðarásin sem enn er í gangi í Grindavík hófst þann 10. nóvember sl. hefur ríkisstjórnin fylgst grannt með stöðu mála. Í ljósi umfangs verkefnisins og áhrifa þess á hagkerfið, hefur ríkisstjórnin fundað með fjölmörgum aðilum í aðdraganda ákvörðunar sinnar. Auk þess að funda með íbúum bæjarins og bæjarstjórn hefur ríkisstjórnin fundað með Veðurstofu Íslands, Náttúruhamfaratryggingu Íslands, Seðlabanka Íslands, almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun auk fjölda jarðvísindafólks og sérfræðinga innan og utan Stjórnarráðsins. Fyrr í dag funduðu forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og innviðaráðherra með bæjarstjórn Grindavíkur um þá ákvörðun sem nú er greint frá. Þá funduðu þau einnig með forystufólki allra flokka á Alþingi.

Víkurfréttir 24. janúar 2024:

Kafbátur við Keflavíkurhöfn

Bandaríski kjarnorkukafbáturinn USS California var á ytri höfninni í Keflavík á mánudaginn þar sem hann fékk þjónustu. Varðskipið Þór og hafnsögubáturinn Auðunn frá Reykjaneshöfn þjónustuðu kafbátinn, auk nokkurra léttabáta, m.a. frá Köfunarþjónustu Sigurðar Stefánssonar. Verið var að skipta út hluta áhafnar kafbátsins. Þá var tekið sorp úr bátnum til eyðingar í Kölku og flytja nýjar vistir um borð. USS California er af Virginia-gerð en nýverið voru kynntir samningar um að kjarnorkuknúnir kafbátar Bandaríkjahers á norðurslóðum fái þjónustu frá Reykjanesbæ við það sem talið er upp hér að framan. Meðfylgjandi mynd var tekin þegar kafbáturinn kom á Stakksfjörðinn og ytri höfnina í Keflavík. Ljósmynd: Sigurður Stefánsson

Víkurfréttir 24. janúar 2024:

Samkaup, Heimkaup og Orkan taka upp könnunarviðræður

Könnunarviðræður um mögulegt samstarf eða samruna Samkaupa, Heimkaupa og Orkunnar ásamt dótturfélögum eru hafnar að beiðni SKEL fjárfestingafélags hf. Viðræðurnar byggja á yfirlýsingu Samkaupa hf. og SKEL fjárfestingarfélags hf., sem er aðaleigandi Heimkaupa og Orkunnar.
Það er mat stjórnar Samkaupa að með mögulegu samstarfi eða samruna eins eða fleiri félaga felist möguleikar sem geti stutt við framtíðaráætlanir félagsins. Samkaup hefur áður upplýst um áform sín um skráningu á markað. Bæði félög hafa ráðið utanaðkomandi ráðgjafa sem munu leiða öflun gagna á meðan viðræðum stendur og tryggja að unnið sé samkvæmt ákvæðum samkeppnislaga.

Víkurfréttir 24. janúar 2024:

Yfir 300 störf á flugvellinum í sumar

Alls verða yfir 300 fjölbreytt og skemmtileg sumarstörf í boði í ár á Keflavíkurflugvelli (KEF). Spáð er miklum umsvifum í KEF í sumar en farþegaspá flugvallarins gerir ráð fyrir tæplega 5,8 milljónum farþega yfir sumarmánuðina, apríl til október, sem er 7,2% aukning frá fyrra sumri.
Alls gerir spáin ráð fyrir 8,5 milljónum farþega á árinu, þar af tæplega 2,4 milljónum erlendra ferðamanna. Gangi spáin eftir verður árið 2024 það þriðja stærsta í sögu KEF og það stærsta í komu erlendra ferðamanna til Íslands. Á síðari hluta ársins verður austurálma, ný viðbygging við flugstöðina, tekin að fullu í notkun en framkvæmdir hófust þar árið 2021. Bætast við nýir landgangar og rúmbetra setusvæði fyrir verslanir og veitingastaði, auk þess sem nýr töskusalur var opnaður þar á síðasta ári. KEF er í stöðugri þróun sem miðar að því að bæta aðstöðu á flugvellinum til að tryggja betri þjónustu og upplifun fyrir gesti.

Víkurfréttir 31. janúar 2024:

Hefja framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2 á þessu ári

Framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2 hefjast síðla sumars og gætu tekið um það bil ár gangi allt eftir. Jarðvinna verður boðin út í vor vegna lagningu línunnar en 25. janúar sl. staðfesti úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála ákvörðun bæjarstjórnar um að veita Landsneti framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2.

Suðurnesjalína verður um 20 km löng en að sögn forstjóra Landsnets á að reyna að stytta framkvæmdatímann eins og hægt er svo hægt verði að leggja línuna á rúmu ári. Öflun aðfanga gæti þó tafið framkvæmdir.

Hraunavinir, Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands og Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands kærðu þá ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga frá 30. júní 2023 að veita Landsneti hf. framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2. Var þess krafist að hin kærða ákvörðun yrði felld úr gildi og jafnframt var gerð krafa um stöðvun framkvæmda meðan málið væri til meðferðar. Kröfunni um stöðvun framkvæmda var hafnað með úrskurði uppkveðnum 28. september 2023.

Í úrskurði nefndarinnar frá 25. janúar sl. kemur fram að nefndin telji ekki þá form- eða efnisannmarka á undirbúningi eða meðferð hinnar kærðu ákvörðunar að ógildingu varði og var kröfu kærenda því hafnað.


Víkurfréttir 31. janúar 2024:

Fríhöfnin í hendur einkaaðila innan tveggja ára

Nýr rekstraraðili mun að öllum líkindum taka við rekstri Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli innan tveggja ára. Guðmundur Daði Rúnarsson, fram­kvæmda­astjóri við­skipta og þróunar hjá Isavia segir í viðtali við Viðskiptablaðið að fé­lagið sé að stíga sitt fyrsta á­kveðna skref í átt að því að bjóða út Frí­höfnina. Guðmundur Daði segir að Isavia hafi ráðist í forathugun til að sjá hvort ávinningur yrði af því að bjóða verslunarreksturinn út. Í framhaldi hafi verið gerð markaðskönnun síðasta haust sem hafi leitt í ljós að fjárhagslegur ávinningur gæti verið af útboði.
„Við sáum að það er mikill áhugi meðal aðila á markaðnum að koma að rekstri fríhafnar á Íslandi. Núna erum við að stíga næsta skrefið með forvali til að kanna hvort þessir aðilar uppfylli það hæfi sem við teljum nauðsynlegt og hvort þeir séu tilbúnir að skuldbinda sig til þátttöku í útboðinu,“ segir Guðmundur Daði í Viðskiptablaðinu og telur að niðurstaða útboðs myndi liggja fyrir eftir 12 til 18 mánuði.
Í Fríhöfninni starfa nú 125 manns, meðal starfsaldur er rúm sex ár, nær allt fólk sem búsett er á Suðurnesjum. Í sumar er gert ráð fyrir að ráða um 70 manns.

Víkurfréttir 31. janúar 2024:

Vegurinn að heiman er vegurinn heim

„Það eru mörg tækifæri á Ásbrú og nágrenni og við erum að mæta með nýjungar sem ég er bjartsýnn á að fái góðar viðtökur,“ segir Kristinn Skúlason en hann og Drífa Dan kona hans munu opna 1. febrúar nýjan veitingastað og verslun sem ber nafnið public deli, á kunnuglegum stað eða þar sem veitingastaðurinn Langbest var síðast til húsa. public deli er hugmynd sem hefur blundað í þeim hjónum í mörg ár og láta nú drauminn rætast. Kristinn segir þessa hugmyndafræði hafa verið að ryðja sér til rúms á Norðurlöndum og í Evrópu þar sem þjónusta á sviði veitingareksturs og matvöru er sameinuð á einum stað. Stefna public deli sé að létta viðskiptavinum lífið með einföldum lausnum og bragðgóðum mat.

„Við getum sagt að þetta sé númtíma hverfisverslun en hún hefur verið að þróast á undanförnum árum. Við munum opna verslunina klukkan átta á morgnana en veitingastaðurinn opnar kl. 11 og svo er opið á báðum stöðum til kl. 21 á kvöldin. Við bjóðum uppá einfaldar og fljótlegar lausnir fyrir alla okkar viðskiptavini til að auðvelda þeim lífið. Þá verður einnig hægt að grípa með sér matvöru, bæði úr verslun og af veitingastað í „grab&go“. Sérstaða veitingarstaðarins er hinn víðfrægi bjórkjúklingur sem er eldaður á grind og er tilvalinn fyrir nokkra að borða saman. Hægt verður að kaupa hann af matseðli og í „grab&go“. Þá verða í boði ljúffengar hollustuvefjur, salöt og aðrir réttir eins og pítsur, hamborgarar, fiskur og franskar og fleira. Um helgar er hugmyndin að bjóða upp á bröns, þannig að þetta verður fjölbreytt og gott.“

Víkurfréttir 7. febrúar 2024:

Nýr varnargarður rís

Framkvæmdir eru hafnar við nýjan 800 metra langan varnar- og leiðigarð við Grindavík. Garðurinn er austan við varnargarðinn sem byggður var í byrjun árs. Vinna við hann hófst um helgina en garðinum verður að mestu rutt upp með jarðýtum. „Framkvæmdir hófust á sunnudagsmorgun. Þær snúa að því að lengja garðinn austan megin og búa til nýjan legg þar sem verður ýtt upp. Þá erum við einnig að hækka núverandi varnargarð sem búið var að setja upp og hraunið rann eftir,“ segir Ari Guðmundsson, sviðsstjóri hjá VERKÍS sem hefur umsjón með verkefninu.

Garðurinn sem verið er að ryðja upp að austanverðu er um 800 metra langur og mun liggja í boga í átt til sjávar. Þá er verið að hækka garðinn norðan við bæinn en hraunið rann með honum þann 14. janúar. Sá garður var fimm til sex metra hár að jafnaði en það liggur ekki fyrir hversu hár hann verður í þessum áfanga sem nú er verið að vinna. Á vefmyndavélum við Grindavík má sjá að vinnuvélar eru að aka yfir hraunið á móts við gróðurhús ORF líftækni. Þetta staðfestir Ari og segir að hraunið hafi verið mjög þunnt þar og þar hafi því hentað að leggja vinnuslóða yfir hraunið. Það auðveldar alla vinnu á svæðinu.
Ari segir að ekki sé að fullu ljóst hvað vinnan við nýja austurgarðinn taki langan tíma. Áætlun gerir ráð fyrir tveggja til þriggja vikna framkvæmdatíma. Frá og með síðasta mánudegi er sólarhringsvakt við framkvæmdina og tækjum fjölgað. Framkvæmdin hófst á sunnudag með fjórum jarðýtum og beltagröfum en á mánudaginn bættust við nokkrar búkollur í efnisflutninga, þannig að vinna er hafin af fullum krafti við áframhaldandi varnar- og leiðigarða.

Víkurfréttir 7. febrúar 2024:

Hvíta gullinu mokað í burtu!

Talsvert hefur fallið af snjó á Suðurnesjum undanfarna daga og hafa verktakar á vegum sveitarfélaganna haft í nógu að snúast að hreinsa snjó af götum og bílastæðum. Alltaf eru þó einhverjir sem vilja að betur sé mokað á meðan aðrir vilja hafa allt á kafi og kolófært. Meðfylgjandi mynd var tekin við Hringbrautina í Keflavík þar sem Helgi Guðmundsson, vörubílstjóri, beið eftir því að bíllinn hjá honum yrði fylltur af snjó sem síðan var ekið út fyrir byggðina. VF/Hilmar Bragi

Víkurfréttir 7. febrúar 2024:

Reykjanesapótek nýtir íslenskt hugvit í persónusniðna þjónustu

Reykjanesapótek hefur hafið samstarf við íslenska sprotafyrirtækið Prescriby þar sem skjólstæðingum er boðin persónusniðin þjónusta til að minnka eða hætta notkun sterkra verkjalyfja, róandi og svefnlyfja. „Við erum svo spennt fyrir því að vera byrjuð að bjóða upp á þessa þjónustu og höfum fengið gríðarlega miklar viðtökur frá samfélaginu,“ segir Sigríður Pálína Arnardóttir, lyfjafræðingur og einn eigenda Reykjanesapóteks. Magdalena Margrét Jóhannsdóttir, lyfjafræðingur og meðeigandi Reykjanesapóteks, tekur einnig fram að þau eru með hóp af menntuðum lyfjafræðingum sem vilja fá að leggja sitt af mörkum í veitingu heilbrigðisþjónustu og stuðla að heilbrigðara samfélagi. „Við brennum fyrir það að stuðla að öryggi og heilsu allra. Í apótekið kemur gjarnan fólk sem notast hefur við svefnlyf, róandi eða verkjalyf til langs tíma og vill hætta notkun þeirra, enda farið að hafa veruleg áhrif á þeirra lífsgæði. Það er virkilega góð tilfinning að geta hjálpað okkar skjólstæðingum á þessari vegferð og það er svo gefandi að sjá fólk öðlast næstum því nýtt líf eftir að það hættir eða minnkar notkun á þessum lyfjum,“ segir Magdalena. „Við stöndum sjálf í ákveðnu frumkvöðlastarfi með því að taka þátt sem apótek í að styrkja heilbrigðiskerfið og veita heilbrigðisþjónustu. Þess vegna var það svo kærkomið þegar við kynntumst Kjartani og þeim hjá Prescriby sem hafa þróað kerfi til að gera okkur kleift að geta veitt þá gæða þjónustu sem við vitum að við getum skilað til okkar skjólstæðinga,“ segir Sigríður Pálína.

Víkurfréttir 14. febrúar 2024:

Gríðarlegt eignatjón í eldgosi

Gríðarlegt eignatjón varð þegar hraun rann yfir Grindavíkurveg og í framhaldinu á heitavatnslögnina sem liggur frá Svartsengi og til Fitja í eldgosi sem hófst snemma morguns síðasta fimmtudag. Hraunið rann með miklum hraða og það var mikið sjónarspil þegar það náði Grindavíkurvegi og malbikið fór að brenna. Hraunið var örfáar mínútur að renna yfir Grindavíkurveginn og á um klukkustund náði það til hitaveitulagnarinnar og rauf hana þannig að Reykjanesbær, Suðurnesjabær og Sveitarfélagið Vogar urðu án hitaveitu. Nánar í blaði vikunnar.

Víkurfréttir 14. febrúar 2024:

Ný hitaveita og raforka frá nýrri sorpbrennslustöð?

Ný sorpbrennslustöð fyrir allt landið sem staðsett yrði á Suðurnesjum gæti einnig nýst til að framleiða raforku og heitt vatn. Staðsetning í Helguvík hefur verið í umræðunni. Forsætisráðherra staðfesti þetta í viðtali við Víkurfréttir þegar hún var spurð um fleiri möguleika á nýrri hitaveitu vegna afleiðinga eldgosa við Grindavík. „Það hafa verið uppi hugmyndir hér um sorpbrennslustöð og mögulega nýtingu hennar en það er eitthvað sem á eftir að skoða til fulls. Það eru dæmi um vel heppnuð slík verkefni t.d. á Norðurlöndum. Ég heyri það að sveitarstjórnarfólk og þau sem eru hér í hringiðunni eru að velta fyrir sér þessum ólíku leiðum. Við erum sammála um að dreifstýrðari leiðir dreifa áhættunni.“

Forsætisráðherra nefndi einnig fleiri möguleika í hitaveitugerð. „Við erum þegar lögð af stað með að fara í boranir til að kanna lághitasvæði á Njarðvíkurheiði. Þannig að það er verið að skoða ýmsa möguleika,“ sagði Katrín Jakobsdóttir þegar hún heimsótti Suðurnesin í upphafi vikunnar.

Víkurfréttir 14. febrúar 2024:

Rafbílarnir hafa engin áhrif á starfsemi smurstöðva

Fjölgun rafbíla hefur engin áhrif á starfsemi smurstöðva. „Það er nóg að gera hjá okkur og frekar aukning ef eitthvað er,“ segir Aðalbjörn Kristinsson, sem rekur Smurstöðina KEF við Vatnsnesveg í Keflavík. Aukninguna má eflaust rekja til þess að íbúum Suðurnesja hefur fjölgað umtalsvert á síðustu árum. Það er mesti misskilningur að smurstöðin við Vatnsnesveg hafi lokað þegar Olís lokaði versluninni Básnum. „Við erum ekkert að fara neitt eins og er og verðum hérna næstu árin. Fólk getur því alveg kíkt í kaffi til okkar á meðan það lætur smyrja bílinn.“

Smurstöðin KEF gefur sig út fyrir almenna smurþjónustu og smáviðgerðir. Í þeirri þjónustu felast bremsuskipti og að skipta um ballansstangarenda og stýrisenda, svo eitthvað sé nefnt og er vinna sem tekur ekki langan tíma. „Þá erum við farnir að taka að okkur að skola út sjálfskiptingar og það er orðið meira um það í dag,“ segir Aðalbjörn. Hann segir að það þurfi að hugsa vel um skiptingarnar eins og vélarnar. Með því að skola út sjálfskiptingar sé öll olía tekin af þeim en þegar tappað er af þeim á hefðbundinn máta fer jafnvel ekki nema helmingur af gömlu olíunni út af skiptingunni. Þegar sjálfskiptingin hefur verið skoluð út þá er sett alveg ný olía inn í staðinn.

Víkurfréttir 21. febrúar 2024:

Kemur allt með kalda vatninu

Unnið hefur verið af kappi síðustu daga við að tengja nýja kaldavatnslögn til Grindavíkur. Lögnin liggur í hrauninu sem rann yfir Grindavíkurveg þann 14. janúar. Gamla lögnin gaf sig í kjölfar eldgossins í janúar og hefur Grindavíkurbær því verið án vatns.

Byrjað verður að hleypa köldu vatni á hafnarsvæðið í Grindavík í áföngum á fimmtudag í þessari viku. Atli Geir Júlíusson, sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs Grindavíkurbæjar, sagði á íbúafundi með Grindvíkingum á mánudagskvöld að vatninu verði hleypt á bæinn í ákveðnum skrefum. Það sé m.a. vegna þess að ekkert vatn hafi verið um tíma á dreifikerfinu og ekki sé vitað um ástand þess.

Í framhaldi af því að kalt vatn kemst á dreifikerfið mun ástand á fráveitukerfinu koma í ljós. Grindvíkingum hefur verið ráðið frá því að nota salerni vegna vatnsleysis. Fram kom í máli Atla Geirs á íbúafundinum að hann væri bjartsýnn með að fráveitan í vesturhluta bæjarins og við hafnarsvæðið væri í lagi en hafði meiri áhyggjur af austari hluta bæjarins, þar sem nýr sigdalur myndaðist í eldsumbrotunum 14. janúar. Það má því segja að þetta komi allt með kalda vatninu.


Víkurfréttir 21. febrúar 2024:

„Ömurleg heimkoma“

Lögreglan á Suðurnesjum hefur að undanförnu rannsakað þrjú innbrot í hús á Suðurnesjum. Sameiginlegt er með öllum innbrotunum að þjófarnir fóru mikinn á heimilunum, rótuðu í öllu þar sem möguleiki var að finna peninga eða dýrari skargripi. Þeim varð vel ágengt í öllum innbrotunum, tóku skartgripi og peninga og í einu tilfellinu numu þeir á brott peningaskáp með fjármunum og verðmætum.
Að sögn Jóns Halldórs Sigurðssonar, lögreglufulltrúa í rannsóknardeild er unnið hörðum höndum að rannsókn málanna. Ekki liggur fyrir heildarverðmæti sem stolið var.
Í öllum þremur innbrotunum létu innbrotsþjófarnir aðra hluti vera eins og fartölvur og önnur tæki. Í fyrsta innbrotinu sem var aðra helgina í janúar var farið inn í fyrsta húsið af þremur en það er í Garði. Þremur vikum síðar var farið í tvö hús í Reykjanesbæ, það seinna þegar húseigendur höfðu farið annað til að gista á meðan ekki var heitt vatn í Reykjanesbæ.
Jón Halldór segir mikilvægt að nágrannar láti lögreglu vita eða hringi í 112 ef þeir sjái grunsamlegar mannaferðir. Skrifi hjá sér bílnúmer eða lýsingar á fólki ef eitthvað óvanalegt á sér stað.

„Þetta var ömurleg heimkoma eftir þorrablót. Þegar við komum heim um klukkan hálf þrjú á laugardagskvöldi var allt á rúi og stúi inni hjá okkur. Þeir tættu og grömsuðu í skúffum og skápum í svefnherbergjum og í eldhúsinu og því miður varð þeim ágengt. Þeir tóku skartgripi sem ég átti talsvert af en við höfðum einnig geymt peninga sem þeir fundu,“ segir kona í einu af einbýlishúsunum sem innbrotsþjófar brutust inn í nýlega.


Víkurfréttir 21. febrúar 2024:

Eigendur Skólamatar keyrðu til Hafnarfjarðar til að vaska upp

„Jú, þetta heitir líklega að hlaupa í öll störf. Við áttum góða stundir saman fjölskyldan í uppvaskinu,“ segir Fanný Axelsdóttir en eigendur Skólamatar keyrðu til Hafnarfjarðar á sunnudaginn, settu á sig svuntuna og vöskuðu upp óhrein mataráhöld og leirtau svo hægt væri að halda starfsemini gangandi í komandi viku.
Á fimmtudaginn í síðustu viku þegar eldgos blossaði við Sundhnúk og flæddi yfir heitavatnslögn sem leiddi af sér heitavatnsleysi á Suðurnesjum varð fjölskyldan í Skólamat að hugsa út fyrir kassann og finna leiðir til að halda starfseminni áfram svo hægt væri að afgreiða skólamáltíðir í leik-og grunnskólum sem fyrirtækið þjónustar. Uppvöskunnarvélar og önnur tæki nýta heitt vatn ásamt rafmagni og virkuðu því ekki í heitavatnsleysinu.
„Þegar ljóst var að hitaveitan kæmist ekki í gang um helgina var brugðið á það ráð að flytja óhrein mataráhöld og leirtau í annað eldhús á höfuðborgarsvæðinu. „Vinir okkar í Hvaleyrarskóla í Hafnarfirði buðust til að lána okkur uppvöskunaraðstöðu og þar var vaskað upp allan sunnudaginn svo framleiðsla og starfsemin gæti haldið áfram í vikunni,“ segir Fanný. Eigendur Skólamatar þau Axel, Jón og Fanný fengu því nokkra starfsmenn með sér í verkið og allt gekk að óskum.
Hrein áhöld og leirtau voru flutt aftur til Reykjanesbæjar og starfsemin gekk snurðulaust fyrir sig á mánudeginum þrátt fyrir erfiðar aðstæður, heitavatnsleysi, ekkert rafmagn og kulda í öllum húsum á svæðinu. Það er óhætt að segja að starfsfólk Skólamatar hafi sýnt útsjónarsemi og lausnamiðaða hugsun svo þetta væri framkvæmanlegt. Börn á Suðurnesjum fengu því hollan mat í skólum og leikskólum strax á mánudag en skólahald hófst þá á lang flestum stöðum á Suðurnesjum.
„Á sunnudeginum leituðu svo til okkar leiksskólastjórar í Reykjanesbæ sem alla jafna elda matinn sjálf í sínum leikskóla. Vegna skorts á rafmagni útvegaði Skólamatur þeim tilbúnar heimalagaðar fiskibollur á bolludaginn og var mikil gleði og ánægja með bollurnar og skjót viðbrögð Skólamatar,“ segir Fanný Axelsdóttir, mannauðsstjóri hjá Skólamat en fyrirtækið framleiðir um 15 þúsund máltíðir alla virka daga.

Víkurfréttir 28. febrúar 2024:

Forstjórinn á fullu með snyrtihnífinn

„Mér finnst gott að grípa stundum í hnífinn, ég er vanur þessum vinnubrögðum síðan ég vann á frystitogurum hér áður fyrr. Það er nauðsynlegt að fara stundum í grunninn, ég mér finnst þetta gaman og svona tengist ég starfsfólkinu betur,“ segir Stefán Kristjánsson, forstjóri Einhamars Seafood, sem var á fullu með snyrtihnífinn á vinnslulínunni í fyrirtækinu á þriðjudagsmorgun. Þar var verið að forsnyrta þorskflök áður en þau fóru í beinskurð. Fiskinn kom áhöfnin á Vésteini GK með að landi á sunnudaginn. Mokveiði hefur verið hjá körlunum um borð og aðeins um 20 mínútur á miðin frá Grindavík.
„Það er gott að þetta sé komið af stað aftur, ég var búinn að bíða eftir þessu. Ég vil trúa að aðilar séu búnir að læra af þessum eldgosum til þessa, það þarf ekki að setja allt í lás svo vikum skiptir þegar eldgos er búið, það er nánast hægt að hefja störf daginn eftir. Við tókum viðbragðsæfingu og gekk hún mjög vel. Á fáeinum mínútum vorum við komin upp á Nesveg. Nú vinnum við þetta með yfirvöldum og byggjum bæinn upp hægt og örugglega. Jæja, hættu nú að trufla mig,“ sagði Stefán og hélt snyrtingunni áfram.

Víkurfréttir 28. febrúar 2024:

Milljarðaframkvæmdir í skólum Reykjanesbæjar í fullum gangi

Milljarðaframkvæmdir eru í fullum gangi í þremur skólum Reykjanesbæjar. Framkvæmdir hafa gengið ágætlega í eldri skólunum, Myllubakka- og Holtaskóla, en tafir hafa orðið á byggingu íþróttahúss og sundlaugar ásamt búningsklefum í Stapaskóla að sögn Guðlaugs H. Sigurjónssonar, sviðsstjóra umhverfissviðs Reykjanesbæjar. Í fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar frá 23. febrúar er greint frá því að Holtaskóli muni stækka um 1.760 fermetra og nemendafjöldi skólans muni aukast um 168 en nemendur voru 420. Í Myllubakkaskóla er framkvæmdum lokið í bili í svokallaðri D-álmu sem var nýjasta bygging skólans. Þar hófst kennsla á nýjan leik í upphafi vikunnar. Eftir skóla í vor munu framkvæmdir halda áfram en ekki var lokið við að setja gólfefni og loftaefni. Framkvæmdir eru að hefjast við elsta hluta Myllubakkaskóla, A-álmuna, og í framhaldi verður íþróttasalurinn rifinn og nýr byggður. Nýlega var greint frá framkvæmdum við Myllubakkaskóla og ríkir ánægja með framtíðarútlit skólans.

Víkurfréttir 6. mars 2024:

Njóta heitra lauga í ljósaskiptunum

Suðurnesjafólk komst að því á dögunum að heitt vatn er ekki eins sjálfsagður hlutur og margir halda. Þegar svokölluð Njarðvíkuræð, sem flytur heitt vatn frá Svartsengi og að Fitjum í Reykjanesbæ, rofnaði undan hraunrennsli frá eldgosi við Sundhnúka voru sundlaugarnar á svæðinu eitt af því fyrsta sem lokaði og voru síðastar til að opna að nýju. Meðfylgjandi mynd var tekin við Sundmiðstöð Reykjanesbæjar, Vatnaveröld, í ljósaskiptunum á mánudagskvöld. VF/Hilmar Bragi

Víkurfréttir 6. mars 2024:

Bókasafn Reykjanesbæjar flytur í Hljómahöll um áramót

Flutningur bókasafns Reykjanesbæjar í Hljómahöll var samþykktur á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar á þriðjudag, 5. mars. Sjálfstæðismenn greiddu atkvæði á móti og sögðust í bókun leggjast alfarið gegn því að bókasafnið verði flutt í Hljómahöll og á sama tíma verði Rokksafni Íslands lokað, í ljósi þeirra vinnubragða sem meirihlutinn hefur viðhaft í aðdraganda ákvörðunar sinnar.

Þá segir í bókun Sjálfstæðisflokks: „Menningarráð hefur þegar boðað að farið verði í stefnumótun menningarhúsa í Reykjanesbæ með það að markmiði að nýta betur húsnæði sveitarfélagsins og efla menningarlíf í bænum. Við teljum með öllu óábyrgt að ákvörðun sem þessi sé tekin áður en slík vinna hefur farið fram og hvetjum meirihlutann til að draga ákvörðun sína til baka,“ segir í bókuninni sem Helga Jóhanna Oddsdóttir, Margrét Sanders og Birgitta Rún Birgisdóttir, bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, skrifa undir.

Gert er ráð fyrir að flutningur bókasafnsins eigi sér stað um næstu áramót. Í upphafi voru lagðir til þrír valmöguleikar; að hafa bókasafnið á núverandi stað, að byggja nýtt 2.000 m² húsnæði fyrir bókasafnið eða flytja bókasafnið í Hljómahöll. Möguleikinn sem þykir bestur út frá þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu er að flytja bókasafnið í Hljómahöll og hefur meirihluti bæjarstjórnar auk flokks Umbótar því tekið þá ákvörðun.


Víkurfréttir 13. mars 2024:

Ósáttir við stjórnvöld

„Atvinnurekendur í Grindavík eru mjög óánægðir og finnst mörgum atriðum sem snúa að því að við getum verið með starfsemi í bæjarfélaginu, ósvarað eða þau óafgreidd. Það er mikilvægt að stjórnvöld klári endurskipulagningu og kynni aðgerðir sem komi til móts við fyrirtækin,“ segir Pétur Pálsson, framkvæmdastjóri sjávarútvegsfyrirtækisins Vísis hf. í Grindavík.

Eitt af þeim atriðum sem eru óafgreidd er tryggingavernd á því sem framleitt er í Grindavík. Dags­framleiðsla getur verið nokkurra tuga milljóna virði. Pétur segir að aðgangsstýring um verðmætabjörgun sé vel raunhæf. Þannig væri hægt að bjarga verðmætum á tveimur til fimm klukkustundum þegar til goss kæmi. Ljóst sé að læra þurfi að lifa með jarðhræringum og eldgosum og það sé vel hægt.

Forstjóri Síldarvinnslunnar hf., en Vísir hf. er í eigu SVN, sagði á fundi fyrir helgi að verið væri að fara yfir hvort raunhæft sé að vera með starfsemi af einhverju tagi í Grindavík næstu misseri og nefndi fyrrgreind atriði eins og tryggingavernd, áskoranir í öryggi starfsfólks og aðgerðir stjórnvalda til fyrirtækja. Á miðvikudaginn 13. mars stóð til að fagna þúsundasta tonninu sem hefur verið unnið í nýrri saltfiskvinnslu Vísis hf. í Helguvík.

Víkurfréttir 13. mars 2024:

Lét handarmissi ekki stöðva sig

Ingibjörg Þórdísar- og Ólafsdóttir missti hönd í vinnuslysi í frystihúsi í Sandgerði aðeins sextán ára gömul. Hefur ekki látið það stöðva sig, tók stúdentspróf og lauk síðan meistaranámi í háskóla. Fékk taugaáfall mörgum árum eftir slysið og enga félagslega aðstoð. Nú nýtur hún lífsins á golfvellinum og elskar félagsskapinn!

Ingibjörg Þórdísar- og Ólafsdóttir er mögnuð kona með mikla og sterka tengingu við Suðurnesin og sérstaklega Sandgerði. Hún bjó þar sextán ára gömul þegar hún lenti í hræðilegu slysi og þurfti í kjölfarið að taka af henni nánast alla hægri höndina. Strax eftir slysið var ekki í boði að væla og hún hefur heldur betur staðið sína plikt og vel það en vissulega gaf stundum á bátinn hjá henni en þá fór hún í mikla sjálfsvinnu. Í dag er hún í frábærri stöðu hjá Landspítalanum og spilar golf og ekki nóg með það, hún er ansi góð í íþróttinni. Ingibjörg var til í að mæla sér mót við blaðamann í Sandgerði, n.t. fyrir utan húsnæði Miðness eins og það heitir núna en það er í eigu Nesfisks í dag en árið 1977 þegar slysið átti sér stað og hún var ennþá sextán ára, hét fyrirtækið Miðnes.
„Já, ég mun líklega alltaf muna þennan dag eins og hann hafi gerst í gær, þetta var mánudagur og ég byrjaði að vinna á þessari marningsvél á hádegi. Ég var farin að leiða hugann að því að hætta hjá fyrirtækinu, það var stutt í páska man ég og ég vildi fara breyta til. Ég var fjórtán ára þegar ég byrjaði að vinna hjá fyrirtækinu, fékk að vinna hálft sumar eftir að hafa verið í unglingavinnunni í Garðahreppi. Þetta tíðkaðist í þá daga, flestir ef ekki allir krakkar voru byrjaðir að vinna í fiski þetta ungir. Við krakkarnir vorum settir á þessa marningsvél, það þótti afskaplega leiðinlegt að lenda á henni og hún var auðvitað kolólögleg, hvað þá fyrir börn að vera vinna á henni og ég má þakka fyrir að hafa ekki misst lífið þennan dag. Einhver öryggishlíf átti að vera á henni en hún tafði svo mikið fyrir vinnunni svo hún var aldrei notuð, ég geri mér ekki grein fyrir hvort ég hafði verið tæp að lenda í slysi á vélinni, við vorum bara sett á hana og unnum, ég hafði verið að vinna á henni alveg frá því að ég byrjaði að vinna þarna fjórtán ára gömul. Ég ætla rétt að vona að þetta sé ekki leyft í dag, ég myndi ekki leyfa afkomendum mínum að fara inn á svona vinnustað í dag ef hlutirnir væru eins og þeir voru þegar ég lenti í þessu hræðilega slysi.“

Víkurfréttir 20. mars 2024:

Enn gýs við Grindavík

Landris heldur áfram í Svartsengi sem bendir til þess að enn streymi kvika af dýpi inn í kvikusöfnunarsvæðið undir Svartsengi ásamt því að fæða eldgosið. Eldgos hófst við Sundhnúk á laugardagskvöld kl. 20:23. Gosið er það lengsta af þeim fjórum eldgosum sem komið hafa upp í nágrenni Grindavíkur frá því í desember sl. Á þriðjudagskvöld hafði gosið staðið yfir í þrjá sólarhringa en þá gaus syðst á gossprungunni og gígbarmar voru að byggjast upp. Þó nokkur kvikustrókavirkni var í gosinu og gosórói hefur verið stöðugur sem er vísbending um að ekki hafi dregið úr krafti gossins.
Aðgengi að Grindavík var lokað á mánudag en lögreglustjóri ákvað að opna fyrir starfsemi í Grindavík á þriðjudag. Lítil sem engin hreyfing er nú á hraunrennsli að Svartsengi og eins fyrir ofan Suðurstrandarveg. Það er mat lögreglustjóra að ekki stafi ógn af hraunrennsli inni í Grindavík við núverandi aðstæður. Þá er fylgst vel með hraunrennsli fyrir ofan Suðurstrandarveg. Þá er einnig fylgst vel með mengun inni á merktu hættusvæði. Ef og þegar hætta er talin á að loftmengun ógni heilsu manna getur komið til þess að aðgengi inn í Grindavík verði takmarkað.

Víkurfréttir 20. mars 2024:

Tvö þúsund nýjar íbúðir í Reykjanesbæ

Unnið hefur verið að þéttingu byggðar í Reykjanesbæ og nú liggur nú til samþykktar hjá bæjaryfirvöldum umfjöllun um fjölgun lóða fyrir um tvö þúsund íbúðir, aðallega í Keflavík. Fyrir liggja afgreiðslur hjá umhverfis- og skipulagsráði Reykjanesbæjar breytingar á skipulagi sem leyfa byggingu á allt að 1250 íbúðum á Vatnsnesi en á svæðinu hefur verið atvinnustarfsemi, mest megnis fiskvinnsla á árum áður en einnig önnur fyrirtæki. Þá er í vinnslu breyting á Aðalskipulagi Reykjanesbæjar sem snýr að byggingarsvæði norðan við Aðaltorg í Keflavík. Þar er gert ráð fyrir byggingu 450 íbúða, þar af 138 þjónustu- og öryggisíbúðum fyrir eldri borgara. Fyrirhuguð breyting er í takti við K64 þróunaráætlun svæðisins. K64 þróunaráætlun er ný framtíðarsýn fyrir Suðurnesin. Íslenska ríkið, Isavia ohf., Reykjanesbær og Suðurnesjabær hafa unnið saman að heildstæðri stefnu og framtíðarsýn fyrir umhverfi Keflavíkurflugvallar.
Þá hefur verið samþykkt bygging á 27 raðhúsum við Bolafót í Njarðvík. Áður höfum við greint frá fjölgun íbúða í nágrenni Hafnargötu í Keflavík.

Víkurfréttir 27. mars 2024:

Fróðleiksfúsi sýnir að spjaldtölva getur vel verið kennslutæki

Fróðleiksfúsi er heitið á verkefni sem á ættir sínar að rekja til Suðurnesjabæjar, nánar tiltekið til Þekkingarseturs Suðurnesja í Sandgerði en þar hefur staðið yfir náttúrugripasýning allt frá árinu 1995. Daníel Hjálmtýsson er verkefnastjóri fræðslu og miðlunar og þegar hann tók við starfi árið 2022, fæddist hugmynd hjá honum þegar Hrafn sonur hans, sem þá var sex ára gamall, var að spyrja út í þau fjölmörgu dýr sem eru til sýnis í setrinu.
Kviknaði ljós
Það kviknaði ljós hjá Daníel eftir spurningaflóðið frá syninum. „Hrafn spurði mig spjörunum úr og þegar ég hafði lokið þeim verkefnum sem ég þurfti að klára, fæddist hugmynd hjá mér og úr varð saga um dýrin sem hann vildi fræðast um. Hægt og rólega varð til ákveðinn hugarheimur, persónur og pæling að búa til einhvers konar fræðsluleik um náttúruna og þá kannski aðallega um dýrin og vistkerfin sem eru hér á Suðurnesjum og við erum að rannsaka á hverjum degi.
Fyrsta skrefið var að festa hugmyndina og skissurnar á blað og sækja um styrk til Uppbyggingarsjóðs Suðurnesja, mér var vel tekið og fékk styrk til að hrinda verkefninu í framkvæmd. Ég var búinn að skissa upp helstu karakterana, gera handrit og strúktúra hvað ég vildi gera og vegna styrksins gat ég fengið grafískt hönnunarfyrirtæki, Jökulá, til að hanna allt sem sést í leiknum í dag. Jökulá bjó sömuleiðis til viðmótið sem þurfti til að hægt yrði að forrita leikinn og við í sameiningu, höfðum samband við útskriftarárganginn í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík. Okkur var mjög vel tekið og mjög öflugur hópur útskriftarnema tók verkefnið að sér og úr varð samvinnuverkefni Þekkingarsetursins, Jökulár og Háskólans í Reykjavík. Þó svo að verkefnið sé tilbúið, þá mun það verða í sífelldri þróun og við vorum að fá nýjan styrk í síðustu viku. Hann mun fara í að þýða verkefnið, bæði yfir á ensku og pólsku. Fróðleiksfúsi virkar þá ekki einungis sem náttúrufræðsla heldur einnig sem gott tæki til tungumálakennslu.“

---