Áframhald á uppbyggingu nýrra íbúðahverfa í báðum byggðakjörnum
Á fundi bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar þann 11. desember var fjárhagsáætlun 2025 og þriggja ára áætlun fyrir árin 2026-2028 afgreidd eftir síðari umræðu. Helstu fjárfestingar á árinu 2025 eru áframhald á uppbyggingu nýrra íbúðahverfa í báðum byggðakjörnum, með tilheyrandi uppbyggingu innviða. Á árinu 2024 hefur íbúum Suðurnesjabæjar fjölgað um 183, eða 4,5%. Í byrjun desember 2024 eru íbúarnir alls 4.227 samkvæmt bráðabirgðatölum Þjóðskrár. Í forsendum fjárhagsáætlunar er gert ráð fyrir að íbúum fjölgi um 3,0% á ári næstu árin, samkvæmt miðspá í húsnæðisáætlun sveitarfélagsins. Þetta kemur m.a. fram í fjárhagsáætlun Suðurnesjabæjar.
Í forsendum fjárhagsáætlunar ársins 2025 er álagningarhlutfall útsvars óbreytt frá fyrra ári, eða 14,97%, álagningarhlutfall fasteignaskatta verður óbreytt frá fyrra ári og almenn þjónustugjaldskrá er uppfærð miðað við verðlagsþróun. Álagningarstuðull vatnsgjalds er lækkaður um 5,8% frá fyrra ári.
Gjaldskrá sorpgjalda og sorphirðu er óbreytt frá fyrra ári, en góður árangur íbúa við flokkun á sorpi skilar sér í það miklum tekjum frá Úrvinnslusjóði að ekki er ástæða til að hækka gjöld á íbúa vegna sorpmála. Fyrir það eiga íbúar Suðurnesjabæjar þakkir skildar. Ýmsir útgjaldaliðir eru uppfærðir út frá verðlagsþróun og áætlun um launakostnað byggir á kjarasamningum.
Í rekstraráætlun A og B hluta eru heildartekjur áætlaðar 7.361 mkr. og framlegð rekstrar fyrir afskriftir og fjármagnsliði er 813 mkr., eða 11,0%. Að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsliða er rekstrarniðurstaða A og B hluta áætluð jákvæð að fjárhæð 222 mkr.
Í sjóðstreymisyfirliti kemur m.a. fram að veltufé frá rekstri er 842 mkr. og handbært fé frá rekstri 791. Fjárfestingaáætlun er alls 920 mkr. og er áætlað að tekin verði ný lán allt að fjárhæð 250 mkr. en afborganir langtímaskulda eru áætlaðar 361 mkr. Áætlað er að handbært fé í árslok 2025 verði 601 mkr.
Helstu fjárfestingar á árinu 2025 eru áframhald á uppbyggingu nýrra íbúðahverfa í báðum byggðakjörnum, með tilheyrandi uppbyggingu innviða. Áætlað er að kostnaður við þau verkefni verði um 265 mkr. Mikil eftirspurn er eftir íbúðalóðum í Suðurnesjabæ og er áætlað að uppbygging íbúðarhúsnæðis haldi áfram á fullum krafti næstu misserin. Gert er ráð fyrir að hafnar verði framkvæmdir við gervigrasvöll og er fjárheimild til þess verkefnis 300 mkr. á árinu 2025. Þessu til viðbótar eru ýmis minni verkefni á framkvæmdaáætlun ársins 2025.
Efnahagsleg staða sveitarfélagsins er góð og er áætlað að skuldaviðmið skv. reglugerð 502/2012 verði 63,6% í árslok 2025 og því vel undir 150% viðmiði skv. fjármálareglu Sveitarstjórnarlaga.
Í þriggja ára áætlun áranna 2026–2028 er gert ráð fyrir að rekstrarafkoma sveitarfélagsins og efnahagsleg staða standist fjármálareglur Sveitarstjórnarlaga á tímabilinu og er það samkvæmt markmiði bæjarstjórnar.
Gjaldskrá 2025:
- Að jafnaði eru liðir í gjaldskrá að hækka um 4% - 5%. Hækkun vegna þjónustu við börn og barnafjölskyldur ásamt þjónustu við einstaklinga í viðkvæmri stöðu hækkar hvað minnst eða um 4%.
- Gjaldskrá úrgangshirðu verður haldið óbreyttri frá árinu 2024 og mun því ekki hækka á milli ára. Breytingar eru á gjaldskrá íþróttamiðstöðva sem gerð verða frekari skil á heimasíðu sveitarfélagsins á næstunni.
- Útsvarshlutfall er óbreytt ásamt því að álagningarhlutfall fasteignaskatts er einnig óbreytt.
- Lækkun verður á álagningarhlutfalli vatnsgjalda niður í 0,13%
Styrkir og afslættir 2025:
- Frístundastyrkur fyrir börn og unglinga í Suðurnesjabæ verður áfram fyrir öll börn á aldrinum 0-18 ára og hækkar í 48.000 kr.
- Niðurgreiðsla vegna vistunargjalda barna hjá dagforeldrum hækkar í 88.500 kr. á mánuði miðað við 8 tíma vistun.
- Niðurgreiðsla vegna vistunargjalda barna 18 mánaða og eldri hjá dagforeldrum hækkar í 132.000 kr. á mánuði miðað við 8 tíma vistun.
- Frístundaakstur á milli byggðarkjarna vegna íþróttaiðkunar festur í sessi og verður áfram.