Samkaup
Samkaup

Aðsent

Áramótaræða Kjartans Más Kjartanssonar, bæjarstjóra Reykjanesbæjar
Kjartan Már í ræðustól í Keflavíkurkirkju á nýársdag. VF/pket.
Miðvikudagur 1. janúar 2025 kl. 17:18

Áramótaræða Kjartans Más Kjartanssonar, bæjarstjóra Reykjanesbæjar

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar flutti áramótaávarp á fyrsta degi nýs árs við messu í Keflavíkurkirkju.

Kæru kirkjugestir.

Gleðilegt nýtt ár og bestu þakkir við samstarf og samskipti á árinu sem var að líða. 

Þegar leikmaður eins og ég fær það hlutverk að flytja hugvekju í kirkjunni sinni í 11. sinn á Nýársdag er honum ákveðinn vandi á höndum. Á hann að reyna að gera eins og prestarnir; að tvinna saman á áhugaverðan hátt hugleiðingar úr daglega lífinu við sögur og kenningar Biblíunnar eða á hann að fjalla um það sem að hann telur að hann ráði betur við sem leikmaður.

Auðvitað valdi ég seinni kostinn.

Árið sem var að líða verður mér og mínum eftirminnilegt fyrir margra hluta sakir. Heilt yfir reyndist það okkur gott þrátt fyrir ýmsar áskoranir. Ætli það sé ekki þannig hjá okkur flestum sem erum svo heppin að búa á Íslandi.

Íslenska þjóðin valdi sér nýjan forseta, Reykjanesbær fagnaði 30 ára afmæli með margs konar hætti og útnefndi m.a. 2 nýja heiðursborgara; þau Sólveigu Þórðardóttur, ljósmóður, og Albert Albertsson, verkfræðing og nú í lok árs kusum við nýtt Alþingi Íslendinga.

Eins og við öll vitum hafa jarðhræringar og sí endurtekin, tiltölulega lítil eldgos staðið yfir á sunnanverðum Reykjanesskaga undanfarin misseri með stuttum hléum. Alls hefur gosið 10 sinnum í þessari lotu, þar af 7 sinnum á nýliðnu ári og næsta gos væntanlegt að öllu óbreyttu innan nokkurra vikna.

Mest hafa þessir atburðir haft áhrifa á íbúa Grindavíkur, eins og við vitum. Það mátti m.a. sjá í tveimur ágætum sjónvarpsþáttum á milli jóla- og nýárs. Einnig stóð íbúum norðan megin á skaganum ekki á sama þegar hraunstraumurinn tók stefnuna í átt að Vogum. Úr því varð sem betur fer enginn alvarlegur atburður en jarðfræðirannsóknir sýna að í gegnum aldirnar hafa orðið mun stærri atburðir á Reykjanesskaga en þeir sem við erum að upplifa og nauðsynlegt fyrir okkur að vera viðbúin því að stærri atburðir geti endurtekið sig.

Í stuttri en áhrifamikilli grein í nýjasta tölublaði FAXA segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, m.a.;
„Um það bil þremur öldum eftir landnám hófst eldgosahrina sem almennt gengur undir nafninu Reykjaneseldar. Að líkindum hófust þeir með neðansjávargosi á árunum 1210-1211 og reis þá Eldey úr sjó. Um árið 1266 varð mikið öskugos við Reykjanestá. Sögur segja að öskulagið hafi lagt yfir allan Reykjanesskaga, upp í Borgarfjörð og austur í Flóa.”

Önnur stutt samantekt birtist svo á baksíðu Víkurfrétta á milli jóla - og nýárs í Lokaorðum Margeirs Vilhjálmssonar þar sem hann m.a. rifjar upp rafmagns- og heitavatnsleysið sem við upplifðum fyrir tæpu ári síðan, í febrúar 2023. Og það sem einu sinni hefur gerst getur gerst aftur. Við þurfum því að vera viðbúin því versta en vona það besta.

Fram til þessa hafa tvær almannavarnarnefndir verið starfandi á Suðurnesjum. Önnur í Grindavík en hin sameiginleg fyrir Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Voga. Nú hafa sveitarstjórnir þessara sveitarfélaga ákveðið að sameina nefndirnar í eina og hefst vinna við það nú strax í janúar með þátttöku ISAVIA f.h. Keflavíkurflugvallar ohf. Þá hefur verið ráðinn sérstakur almannavarnarfulltrúi í fullt starf til að vinna að þessum málum með okkur og munum við, sem í nefndunum sitjum, í samvinnu við embætti Lögreglustjórans á Suðurnesjum, almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra og fleiri opinbera aðila, yfirfara og kynna viðbragðsáætlanir, styrkja innviði og gera það sem við getum til að búa íbúa og innviði svæðisins sem best fyrir framtíðina og það sem getur gerst.

En að öðru. Á síðustu vikum nýliðins árs fór fram, m.a. í aðdraganda Alþingiskosninga þ. 30. nóvember sl., talsverð umræða um breytt landslag og aukinn ófrið og stríð í heiminum, ekki síst í Evrópu og Mið-Austurlöndum. Því tengt spannst umræða um mikla uppbyggingu mannvirkja á vegum Atlandshafsbandalagsins á Keflavíkurflugvelli. Einnig var rætt um þá óvissu sem uppi er um hvað gerist þegar nýr forseti tekur við völdum í  Bandaríkjunum nú í janúar. Sá hefur hótað ýmsu til að fá aðildarlönd NATO til að verja hærri fjárhæðum í varnir og sameiginleg verkefni aðildarþjóðanna. Jafnvel því að Bandaríkin muni hætta þátttöku í Atlanshafsbandalaginu. Ég held að það muni fáir vilja taka áhættuna á að hann standi EKKI við þau orð og því megum við eiga von á enn frekari uppbyggingu hernaðarmannvirkja á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli og í Helguvík, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

En okkur stendur ógn af ýmsu fleiru en hér hefur verið nefnt. Loftlagsbreytingar af mannavöldum og hækkandi hitastig jarðar vegna gróðurhúsaáhrifa eru þar ofarlega í röðinni. Sumir segja efst. Færustu vísindamenn heims hafa sýnt fram á að tíminn sem við höfum til að snúa þessari þróun við er sífellt að styttast og að komið sé að ögurstundu. Áhrif þessara breytinga sjást m.a. í ýktari veðurfarsbreytingum, hækkandi sjávarstöðu, ofsa rigningum og flóðum, brakandi þurrki og skógareldum og bráðnun jökla.

Talið er að sjávarstraumar, sem hafa í þúsundir ára verið í föstum skorðum, geti breyst með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Þegar ég var í skóla lærði ég að það sem m.a. gerði okkar fallega land hér lengst norður í Atlandshafi byggilegt væri Golfstraumurinn. Hann umlykur landið okkar með hlýjum sjó úr suðri með þeim afleiðingum að vetur verða mildari. Án Golfstraumsins væri Ísland óbyggilegt vegna kulda. Ef hans nýtur ekki við í framtíðinni vegna breytinga sjávarstrauma er hætt við að landið okkar verði ekki byggilegt. Þá skipta hlutir og atriði sem okkur kann í dag að finnast mikilvæg, litlu eða engu máli.

Um síðustu aldamót starfaði ég um tíma hjá Icelandair á Keflavíkurflugvelli. Hjá því ágæta félagi eru áherslur og forgangsröðun skýr en einkunnarorð og forgangsröðun í innri starfsemi félagsins eru 1. Öryggi, 2. Stundvísi og 3. Þjónusta. Þetta þýðir að ef seinka þarf brottför vegna öryggisþátta er það gert og ef skerða þarf einhvern hluta þjónustunnar um borð til að hafa stundvísina í lagi er það gert.

Ég tel tímabært fyrir sveitarfélög, ekki bara á Suðurnesjum eða Íslandi heldur heiminum öllum, að forgangsraða áherslum á sama hátt. Að setja öryggi íbúa í fyrsta sæti, sjálfbærni í rekstri í annað sæti og gæði þjónustu í það þriðja.

Þrátt fyrir þessi orð mín um jarðhræringar, eldgos, hernaðarbrölt og loftlagsvá trúi verðum við að trúa og vona að allt fari vel og að framtíðin sé björt.

Kæru vinir.

Ef áætlanir ganga eftir mun Reykjanesbær taka í notkun 2 nýja leikskóla á árinu og hefja byggingu þess þriðja. Auk þess munum við opna glæsilega 25 metra innisundlaug og almenningsbókasafn í Stapaskóla í Innri Njarðvík og í lok árs nýtt 80 rúma hjúkrunarheimili við Nesvelli í samvinnu við ríkið. Ráðhúsið við Tjarnargötu verður uppfært að innan og endurbygging Holta- og Myllubakkaskóla mun halda áfram. Mörg fleiri framkvæmdaverkefni eru í gangi í þeim tilgangi að mæta mikilli íbúafjölgun og bæta þjónustu.

Eins og sum ykkar vita hef ég verið í veikindaleyfi í haust en lauk meðferð í desember og er á góðum batavegi. Ég mun því hefja störf í hlutastarfi á morgun og ef vel gengur í fullu starfi frá 1. febrúar. 

Í samskiptum okkar sr Erlu um þessi mál sagði  hún mér frá því að sr Karl Sigurbjörnsson hefði, tveimur dögum fyrir andlát sitt í febrúar síðast liðnum, sent prestunum okkar eftirfarandi bænarorð þegar enn eitt eldgosið hófst;

Þegar þyngist hugurinn,

Þín er höndin lúin.

Þá er besta björgunin,

Bænin, ást og trúin.

Að lokum vil ég ítreka óskir mínar til ykkar og fjölskyldna ykkar um farsælt nýtt ár.