Samkaup
Samkaup

Fréttir

Frábært útsýni bæði til sjós og lands
Sunnudagur 24. september 2017 kl. 08:00

Frábært útsýni bæði til sjós og lands

Lúxusgistingin Harbour View í Grindavík opnaði þann 1. september síðastliðinn. Gistingin hefur verið vel sótt hjá þeim, bókunarstaðan lítur vel út og umhverfið virðist heilla ferðamanninn en útsýnið nær bæði til sjávar og sveita. Blaðamaður Víkurfrétta hitti Jakob Sigurðsson, einn eigenda Harbour View, og spjallaði við hann um smáhýsin.

Hvar eru húsin byggð?
„Þau eru byggð í Lettlandi en hönnuð á Íslandi. Við vildum leyfa útsýninu að njóta sín og því eru gluggarnir á hýsunum mjög stórir. Innandyra er þetta smá lúxus með gistingu í herbergi og svo er svefnsófi frammi í stærra rými sem er mjög þægilegur. Það er hægt að njóta útsýnisins yfir höfnina og sjá hvað er að gerast hérna í kring. Það eru hrútar hér í sveitinni til hliðar og svo er góð fjallasýn í baksýn.“

Hvaðan kemur þessi hugmynd?
„Hugmyndin kemur frá okkur feðgum, við vorum að rúnta hér í Grindavík og keyrðum framhjá tjaldstæðinu. Upphaflega hugmyndin okkar voru svokallaðar „hyttur“ en við hugsuðum þetta töluvert smærra en þetta er í dag. Verkefnið stækkaði fljótlega en við vildum komast inn á tjaldstæðið en það gekk ekki upp þannig að við ákváðum að sækja um lóðina hér við tjaldstæðið og þá vildum við fara meira út í lúxusgistingu. Hugmyndin þróaðist síðan smátt og smátt en við erum búin að vera að vinna í þessu í tvö ár og tveimur árum seinna erum við komin hingað með smáhýsin okkar.“

Var það þá ekki lán í óláni að þið fenguð ekki inn á tjaldstæðinu?
„Jú algjörlega, þetta útsýni sem við höfum hér er frábært og það er gaman að geta horft yfir höfnina og sjá lífið sem er þar, það er einmitt það sem erlendu ferðamennirnir eru að sækjast eftir, að vera við sjóinn.“

Hvenær opnuðuð þið?
„Við opnuðum 1. september síðastliðinn, skrifuðum undir kaupin á húsunum 1. mars og erum komin í rekstur 1. september, þetta gekk mjög hratt fyrir sig og núna er allt tilbúið, búið að malbika göngustíga hér í kring og gera allt fínt. Við viljum að það sé sómi af svæðinu.“

Tók það 20 mínútur að gera eitt hús tilbúið?
„Já öll grunnvinnan var tilbúin, pípulagnir og slíkt. Húsin komu með skipi til Hafnarfjarðar og þar voru þau hífð á fimm bíla, tvö hús á hvern bíl. Síðan voru þau keyrð hingað og hífð niður. Við gátum farið farið í sturtu og gert allt inn í húsunum þegar þau komu því þau komu fullbúin að innan, með klósetti, vöskum, innréttingum og öðru slíku.“

Er fullbókað hjá ykkur?
„Það hafa verið góðar bókanir frá því að við byrjuðum. Við erum nýbyrjuð að taka niður bókanir og staðan er góð þar. Síðan 1. september hafa tvenn brúðhjón gist hjá okkur en það virðist vera vinsælt. Það sómar sig vel að gista hér brúðkaupsnóttina sína.“

Hvað finnst útlendingum um það að vakna við hliðina á hrútum á morgnana?
Við venjum fólkið aðeins við með gærunum sem eru inni í herbergjunum segir Jakob kátur. „Ég held samt að það heilli að hafa sveitarlífið hér í kring. Það er góður kokteill að blanda saman sjó og sveit. Íslendingar geta að sjálfsögðu verið hérna eins og erlendu ferðamennirnir, erlendu ferðamennirnir eru þó í miklum meirihluta.

Heillar nærumhverfið, nálægðin við flugvöllinn og Bláa Lónið?
„Já það er vissulega kostur. Við erum mjög vel staðsett, Lónið, Reykjavík og flugvöllurinn eru nálægt okkur. Það er mikið um að vera í kringum okkur, fjórhjólaferðir, góður matur og mikið af veitingastöðum. Þjónustan hér í Grindavík er góð og skemmtilegar gönguleiðir, það er líka göngustígur sem liggur héðan og að Lóninu. Héðan eru miklir möguleikar að ferðast, hvort sem það er um Reykjanesið, til Keflavíkur eða á Selfoss. Við erum held ég bara miðpunktur Íslands,“ segir Jakob og hlær.