Frostlög inn á lokuð kerfi og blása vatni út úr lögnum
– segir Þorsteinn Einarsson, pípulagningamaður. Mikilvægt til að koma í veg fyrir frostskemmdir sem er hætta á ef heitt vatn stöðvast frá Svartsengi vegna eldgoss. Gæti orðið stórtjón ef ekki er brugðist við.
„Það þarf að setja frostlög inn á lokað kerfi og tæma neyslulagnir en ef ekki er um lokað kerfi að ræða, þarf að blása vatni út úr lögnum,“ segir pípulagningarmaðurinn Þorsteinn Einarsson í Grindavík.
Þorsteinn er eigandi Lagnaþjónustu Þorsteins. Hann segir mikilvægt að ekki frjósi í lögnum hjá húseigendum. „Ef versta sviðsmyndin birtist okkur og ekkert heitt vatn berst frá Svartsengi, þarf að passa upp á að ekki frjósi í lögnum. Ef um lokað kerfi er að ræða, þarf að setja frostlög inn á kerfið en líka að blása vatni út af neyslulögnum. Ef kerfið er ekki lokað þarf að blása öllu vatni út af neyslu- og heitavatnslögnum. Þetta er kannski ekki á færi allra að gera og því hvet ég fólk til að hringja í sinn pípara og fá ráðleggingar. Ég er búinn að vera kaupa frostlög og búnað til að geta brugðist við ef allt fer á versta veg, t.d. er ég með ljósavélar til að keyra þann búnað sem ég þarf að nota ef út í þessar framkvæmdir fer. Það eru mjög margir með snjóbræðslukerfi, það væri gott á að byrja á að taka allt út af þeim, við getum lifað einn vetur án þess að vera með snjóbræðslu. Ef það myndi frjósa í þeim lögnum væri það stórtjón fyrir viðkomandi. Ég er með sex manns í vinnu og ef eða þegar við förum út í þessar aðgerðir, sé ég fyrir mér að við verðum tveir í hverju húsi. Það mun taka nokkra klukkutíma að afgreiða hvert hús. Það eru fleiri pípulagningarmenn í Grindavík og auðvitað eru píparar í öllum bæjarfélögum og eflaust myndum við fá aðstoð af höfuðborgarsvæðinu, það verður mjög brýn nauðsyn á að klára þetta verkefni, öllur önnur verk hjá okkur fara í bið. Ég er að aftengja snjóbræðsluna heima hjá mér og hreinsa vatn út af henni. Það er gott að vinna sér í haginn. Annars hvet ég alla til að hafa strax samband við sinn pípara og fá ráðleggingar,“ sagði Þorsteinn.