Keflavík búið að ljúka leik í Bónusdeild karla
Karlalið Keflvíkinga fór norður á Sauðárkrók í dag með bakið upp við vegginn, eftir tvö töp þurftu þeir nauðsynlega að sækja sigur til að halda sér á lífi í rimmu sinni gegn Tindastóli. Þrátt fyrir góða baráttu mættu Keflvíkingar ofjarli sínum og sigur Tindastóls var öruggur nánast frá fyrstu mínútu. Þeir voru átján stigum yfir í hálfleik, 52-34 og unnu að lokum öruggan sigur, 100-75.
Leikurinn byrjaði erfiðlega fyrir Keflvíkinga, þeir áttu erfitt með að finna körfuna gegn sterki vörn Tindastóls. Einungis þrjár körfur úr opnum leik litu dagsins ljós og máttu þeir þakka fyrir að vera ekki meira undir en átta stig að loknum fyrsta fjórðungi, 22-14.
Annar leikhluti var jafnari til að byrja með, munurinn fór aldrei mikið yfir tíu stigin en Stólarnir áfram við stýrið. Þegar leið á hálfleikinn fór að draga í sundur með liðunum, sóknarleikur Keflvíkinga var mjög stirður og til að mynda kastaði annars frábær sendingamaður Keflvíkinga, Ty-Shon Alexander, boltanum í hnakkann á Callum Lawson! Stólarnir áttu auðveldar með að finna leiðina að körfu Keflvíkinga og munurinn í hálfleik 18 stig, 52-34.
Tindastólsmenn virtust ætla útkljá leikinn í byrjun seinni hálfleiks, munurinn var kominn upp í 24 stig en þá sýndu Keflvíkingar að þeir voru ekki tilbúnir að gefast upp og áður en varði var munurinn kominn niður í tólf stig, 61-49. Þeir fengu nokkur tækifæri á að minnka muninn og virtust þurfa stemningsþrista til að kveikja í sér en stóru skotin vildu ekki detta. Áður en varði var munurinn aftur kominn upp fyrir tuttugu stig, 75-53 og ljóst að Keflvíkingar þyrftu allar sínar lukkudís með sér ef þeir áttu að eiga möguleika.
Í stað þess að Keflvíkingar myndu eiga fyrsta höggið í lokafjórðungnum voru það Stólarnir sem létu vaða með fyrstu fimm stigunum, staðan orðin 80-53 og ljóst að útkoman væri orðin öllum ljós. Þegar tæpar fimm mínútur lifðu leiks komu minni spámenn inn á, lokatölur 100-75.
Það er erfitt að taka einhverja út fyrir sviga í liði Keflvíkinga í svo stóru tapi. Þeir mættu einfaldlega ofjarli sínum í þessari rimmu og eftir miklar væntingar í upphafi tímabilsins, er ljóst að niðurstaðan er mikil vonbrigði og verður fróðlegt að sjá hvernig þeir munu hugsa framhaldið. Keflavík þekkir ekkert annað en stefna á titla en uppskriftin í ár var langt frá því að ganga upp.