Samkaup
Samkaup

Fréttir

  • Gagnaver rís við Patterson-flugvöll
  • Gagnaver rís við Patterson-flugvöll
Föstudagur 9. maí 2014 kl. 07:33

Gagnaver rís við Patterson-flugvöll

– „Mun mynda grunninn að miklu meiri uppbyggingu á þessum reit“

Framkvæmdir við nýtt 2500 fermetra gagnaver eru hafnar á Ásbrú í Reykjanesbæ. Gagnaverið rís við gamla Patterson-flugvöllinn sem er í útjaðri Ásbrúar og upp af Fitjum í Njarðvík. Það er Advania sem stendur að byggingu gagnaversins en ÍAV annast bygginaframkvæmdir. Mikill vöxtur hefur verið í gagnaversþjónustu fyrirtækisins, en Advania tekur einnig gagnaver í Hafnarfirði. 
 
„Undirbúningur er þegar hafinn og ef vel gengur með framkvæmdir og öflun viðskiptavina mun fyrsti áfangi verða tekinn í notkun í ár,“ segir Eyjólfur Magnús Kristinsson framkvæmdastjóri Rekstrarlausna Advania. Hann segir svæðið á Ásbrú mjög hentugt svæði fyrir gagnaversstarfsemi og aðgengi að orku er góður. „Fyrir okkur sem reka gagnaver skiptir mestu máli að hafa gott aðgengi að orku og svölu lofti sem hjálpar til við að kæla tölvubúnað á umhverfisvænan og hagkvæman hátt,“ segir Eyjólfur.
 
„Það er orðið forgangsmál hjá fyrirtækjum og stofnunum um allan heim að draga úr útblæstri gróðurhúsaloftegunda í sinni upplýsingatækni. Við getum boðið græna orku og fyrirsjáanlegan orkukostnað til langs tíma. Fyrir viðskiptavini okkar þýðir þessi stækkun aukna möguleika á að hagnýta svokölluð tölvuský þar sem hýsa má gögn, hugbúnað og tölvuumhverfi. Ávinningur þeirra felst í öruggum, hagkvæmum og sveigjanlegum tölvurekstri sem knúinn er með grænni orku. Það er einnig ánægjuefni að geta stuðlað að uppbyggingu atvinnulífsins í Reykjanesbæ með þessari framkvæmd,“ segir Gestur G. Gestsson forstjóri Advania.
 
„Við erum búin að vinna í því á undanförnum árum að markaðssetja svæðið fyrir þennan iðnað. Verne fór af stað fyrir nokkrum árum síðan og hefur verið í sinni uppbyggingu en það er ánægjulegt að sjá fleiri aðila velja þessa staðsetningu, Ásbrú, fyrir sín gagnaver. Á margan hátt er þetta mjög ánægjulegt og líka það að þetta er fyrsta nýbyggingaframkvæmdin hér á svæðinu. Hver hefði trúað því fyrir nokkrum árum, þrátt fyrir allan þennan byggingafjölda hér, að það væri þegar farið að byggja húsnæði undir nýjan rekstur hér á svæðinu,“ segir Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, Kadeco.
 
– Er allt húsnæði á svæðinu upptekið?
„Nei, það er nú ekki þannig en mikið af þessu húsnæði sem Advania hefði kannski getað nýtt undir sína starfsemi er upptekið og en þetta er sérhæfð aðstaða sem þeir þurfa. Kosturinn sem þeir sáu fram á var að heppilegast væri að fara í að byggja nýtt og sérhæft húsnæði, sem þeir eru að byggja núna“.
 
Það svæði sem heyrir undir Ásbrú er mun meira en bara gamla byggðin á Keflavíkurflugvelli. Ásbrú er í raun allt það svæði sem áður heyrði undir Varnarliðið.
 
„Þetta eru um 50 ferkílómetrar lands í kringum Keflavíkurflugvöll sem við erum að þróa og höfðum það hlutverk að markaðssetja og skipuleggja og draga starfssemi á. Og þetta svæði sem er hérna niðri á Fitjum er í jaðri þess og við settum inn í aðalskipulag Reykjanesbæjar ákveðinn reit sem við ætluðum undir þessa gagnaversuppbyggingu fyrir nokkrum árum. Það er mjög ánægjulegt að sjá að fyrstu skrefin eru stigin í uppbyggingu þar og ég held að það sé alveg ljóst að þetta mun mynda grunninn að miklu meiri uppbyggingu á þessum reit,“ segir Kjartan Þór Eiríksson í samtali við Víkurfréttir.