Fréttir

Gestum fækkar en dvalartími lengist
Þessir erlendu ferðamenn voru í miðbæ Keflavíkur í vikunni. VF/pket
Laugardagur 25. mars 2023 kl. 06:49

Gestum fækkar en dvalartími lengist

Tveir af hverjum þremur erlendum ferðamönnum heimsóttu Reykjanesið (66%) frá maí til desember 2022. Það er fækkun frá árinu áður þegar um 75% heimsóttu svæðið á sama tíma en meðaldvalarlengd jókst úr 0,7 gistinóttum (2021) í að jafnaði 1,8 nætur.

Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar Ferðamálastofu sem gerð var meðal erlendra ferðamanna.

Í samantektinni kemur fram að flestir gesta sem koma til landsins eru að koma frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi. Helsta ástæða komunnar er að njóta náttúrunnar í fríi. Yfir helmingur svarenda tók ákvörðun um ferðina innan árs frá komunni til landsins. Meðaldvalarlengd svarenda á landinu var 7,6 nætur á þessu tímabili. Flestir heimsóttu höfuðborgarsvæðið (91%) og gistu þar að jafnaði 3,3 nætur.

Þegar ferðamenn voru spurðir hvaða svæði á Íslandi þeir vilji heimsækja í næstu ferð sögðust eingöngu 13% vilja heimsækja Reykjanes en þess ber að geta að 66% erlendra ferðamanna höfðu heimsótt svæðið í þeirri ferð sem könnunin var unnin. 18% vildu heimsækja Reykjavík en 91% heimsóttu borgina þegar könnunin var gerð.