Guðmundur og Gréta Björg ráðin til Kadeco
Kadeco á Ásbrú hefur ráðið tvo nýja starfsmenn, Guðmund Kristján Jónsson og Grétu Björg Blængsdóttur.
Guðmundur Kristján hefur verið ráðinn í stöðu viðskipta- og þróunarstjóra. Guðmundur er skipulagsfræðingur og húsasmiður að mennt. Hann hefur víðtæka reynslu af skipulagsmálum, fasteignaþróun og byggingaframkvæmdum og hefur meðal annars starfað hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, sem framkvæmdastjóri ráðgjafarfyrirtækisins Borgarbrags og sem aðstoðarmaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hann er jafnframt annar stofnandi hugbúnaðarfyrirtækisins Planitor og hefur um árabil komið að stofnun og uppbyggingu nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi og í Bandaríkjunum.
Gréta Björg hefur verið ráðin í stöðu fjármála- og skrifstofustjóra. Gréta Björg er viðskiptafræðingur að mennt með MSc í stjórnun og stefnumótun fyrirtækja. Gréta Björg hefur víðtæka reynslu innan ferðaþjónustunnar í sölu-, markaðs- og verkefnastjórnun. Hún hefur meðal annars starfað sem rekstrarstjóri Dagsferða hjá Gray Line Iceland og sem markaðs- og vöruþróunarstjóri hjá Reykjavik Excursions. Gréta Björg sat í ferðaskrifstofunefnd SAF í fjögur ár, þar af í eitt ár sem formaður. Síðast starfaði Gréta Björg í viðskiptadeild Isavia á Keflavíkurflugvelli.
Kadeco, fyrir hönd íslenska ríkisins, Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar og Isavia, vinnur nú að undirbúningi alþjóðlegrar hönnunar- og hugmyndasamkeppni um þróunaráætlun fyrir nærsvæði Keflavíkurflugvallar. Eitt af markmiðum samkeppninnar er að þróa svæði sem rennir styrkari stoðum undir atvinnulíf á Suðurnesjum og nýtir sem best þá kosti sem Reykjanesið hefur upp á að bjóða.
„Nú er nýtt skeið hafið í starfsemi Kadeco og við horfum til framtíðar við þróun landsins í kringum Keflavíkurflugvöll. Mikil tækifæri liggja í uppbyggingu á þessu svæði og við erum gríðarlega lánsöm að fá svo öflugt fólk með okkur í þau fjölbreyttu og krefjandi verkefni sem framundan eru,“ segir Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco.