Hátt hlutfall heimilisofbeldis á Suðurnesjum
- Félagsþjónustur á Suðurnesjum vinna aðgerðaráætlun gegn ofbeldi á heimilum.
Nýleg rannsókn sem gerð var á landsvísu leiðir í ljós að töluvert er um líkamlegt og andlegt ofbeldi í samböndum fólks á Suðurnesjum sem að ekki kemst upp á yfirborðið. Í framhaldi af þessari rannsókn ákvað velferðarráðuneytið að hvetja sveitarfélög til að gera aðgerðaráætlun gegn heimilisofbeldi.
Samkvæmt rannsókn velferðarráðuneytisins svara yfir 23% einstaklinga á Suðurnesjum eldri en 18 ára því að þeir hafi orðið fyrir ofbeldi á heimilum. Samkvæmt sömu rannsókn hafa 3,6% orðið fyrir heimilisofbeldi á síðustu 12 mánuðum.
Félagsþjónustur sveitarfélaganna á Suðurnesjum ákváðu að taka niðurstöðum rannsóknarinnar alvarlega, minnugar þess árangurs sem náðst hefur í baráttu við kynferðisofbeldi og að rjúfa þögnina í þeim málaflokki. Hjördís Árnadóttir, félagsmálastjóri Reykjanesbæjar, segir í samtali við Víkurfréttir að það hafi tekið tíma að rjúfa þá þögn en í dag hefur baráttan skilað því að kynferðisofbeldi er almennt ekki liðið. Hún segir heimilisofbeldið á engan hátt öðruvísi. Það séu mál sem þurfi að ná upp á yfirborðið og taka á vandanum, sem samkvæmt könnun velferðarráðuneytisins, er mikill á Suðurnesjum.
Félagsþjónustur sveitarfélaganna á Suðurnesjum hafa gert aðgerðaráætlun í nokkrum liðum. Áætlunin var unnin í samstarfi við Suðurnesjavakt velferðarráðuneytisins og var starfsmaður Suðurnesjavaktarinnar félagsþjónustum sveitarfélaganna á Suðurnesjum innan handar.
Fyrsta verkið var svo að halda málþing sem fram fór í Reykjanesbæ nýverið. Málþingið var fyrir þá sem vinna í nánu samstarfi við fólk og börn. Þarna voru forsvarsmenn skóla og leikskóla, námsráðgjafar, hjúkrunarfræðingar, læknar, lögregla og félagsráðgjafar sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Fyrirlesarar á málþinginu voru aðilar sem hafa verið að vinna með bæði þolendum og gerendum í heimilisofbeldismálum.
Hjördís segir málþingið hafa heppnast vel og það hafi skilið mikið eftir sig fyrir þá sem þar tóku þátt. Jafnframt sögðu þeir sem töluðu á málþinginu að það hafi verið til fyrirmyndar.
Þeir sem tóku þátt í málþinginu fengu innsýn í Kvennaathvarfið. Verkefnið „Karlar til ábyrgðar“ og er fyrir karlmenn sem hafa beitt heimilisofbeldi var kynnt. Það verkefni er á vegum Jafnréttisstofu og það verkefni virðist vera að virka mjög vel og virkilega gaman að sjá að það sé að bera árangur.
Barnaverndarstofa kynnti sín úrræði og hvað hægt er að gera fyrir börn á ofbeldisheimilum og börn sem eru beitt ofbeldi. Þá fór lögreglan yfir þá þætti er snúa að henni.
„Það sem við væntum í framhaldinu er að við höldum áfram að vinna með það að ofbeldi er ekki í boði, alveg sama hvort það er andlegt eða líkamlegt. Þannig hjálpum við fórnarlömbum líka að þora að segja frá og ganga út úr ofbeldinu. Þá er einnig frábært að það séu til úrræði fyrir ofbeldismennina og að þau séu að virka.
- Er ástandið á Suðurnesjum frábrugðið því sem gerist annars staðar á landinu?
„Könnunin segir okkur að hér sé ástandið hvað verst og tíðni heimilisofbeldis hæst“.
- Hafið þið einhverjar skýringar?
„Könnunin leiðir þær ekki í ljós. Suðurnes eru frábrugðin öðrum landshlutum á svo mörgum sviðum og þá á ég bæði við á jákvæðan og neikvæðan hátt. Það er mikil orka í samfélaginu okkar. Hér er mikið af ungu fólki sem er ennþá á þeim stað að vera ennþá að leita og máta sig. Þá má vera að það sé drykkja í samböndum en það kom einmitt fram í rannsókninni að það er fylgni á milli áfengisneyslu og heimilisiofbeldis en það er þó ekki einskorðað við það“.
- Hvernig verður unnið með aðgerðaáætlunina?
„Við munum vinna náið með hjúkrunarfræðingum og skólunum og reyna að læra að þekkja það ef börn eru beitt ofbeldi á heimilum. Þar eru ákveðin einkenni sem má læra af. Svo þurfum við að skoða hvaða leiðir á að fara í að tilkynna ofbeldið. Við stefnum að því að vera með gátlista og spurningar til einstaklinga sem er að leita til heilsugæslunnar, okkar eða annarra aðila sem vinna að velferð. Þar verður m.a. spurt hvort viðkomandi hafi orðið fyrir ofbeldi og reynt að koma hlutum þannig fyrir að fólki finnist í lagi að tala um ofbeldi og rjúfa þögnina“.
Félagsþjónusturnar á Suðurnesjum ætla að gefa út kynningarrit um heimilisofbeldi og þá hefur lögreglan á Suðurnesjum formlega óskað eftir því að eiga í samstarfi við félagsþjónusturnar á svæðinu þegar upp koma ofbeldismál. Samkvæmt barnaverndarlögum á lögreglan alltaf að kalla til barnaverndarstarfsmann þegar ofbeldi er á heimilum og barn er á heimilinu. Lögreglan hefur óskað eftir að ganga enn lengra í samstarfinu þannig að félagsráðgjafi sé kallaður til í hvert skipti sem lögregla er kölluð út vegna ofbeldis á heimilum, hvort sem þar er barn eða ekki. Það er gert vegna reynslunnar af því. Ef félagsráðgjafinn kemur strax að málinu, þá er ákveðinn gluggi opinn til að taka á málum, sem fólk annars freistast til að ýta út af borðinu eigi að taka á málum viku eða hálfum mánuði síðar. Bæði þolendur og gerendur eru móttækilegri til að gera eitthvað í sínum málum ef félagsráðgjafinn kemur strax að málum.
Hjördís segir að innan félagsþjónustunnar séu aðilar jákvæðir fyrir þessari áherslubreytingu lögreglunnar. Nú sé verið að skoða hvernig málið verði unnið, enda mun þessi ráðstöfun kalla á aukna vinnu. „Við viljum allt gera til að bæta samfélagið okkar,“ segir Hjördís.
Þeir einstaklingar sem vilja brjóta ísinn og ræða um ofbeldi gegn sér geta haft beint samband við Kvennaathvarfið ef það treystir sér ekki til að hafa samband við félagsþjónustuna í sínu sveitarfélagi. Þá má einnig hafa samband við hjúkrunarfræðinga á heilsugæslunni eða bara beint við lögreglu. Það er þó oft síðasti kostur hjá fólki að blanda lögreglu í málið, segir Hjördís.
Það kom fram á málþinginu í Reykjanesbæ á dögunum að töluvert stór hópur þess fólks sem leitar til Kvennaathvarfsins fer ekki aftur í ofbeldissambandið. Þá vakti einnig athygli að stór hópur sem fer aftur í fyrri sambúð nær að vinna úr sínum málum og ofbeldisaðilinn fer og leitar sér aðstoðar.
Hjördís segir að samkvæmt rannsókninni er ekki einn ákveðinn aldur í ofbeldissamböndum. Þetta sé fólk á öllum aldri og af öllum stéttum. Kúrfan sé þó stærri hjá yngra fólkinu. Þá segir Hjördís að börn sem eru beitt ofbeldi eða horfa upp á ofbeldi á heimilinu geta farið alveg ofsalega illa á sálinni. Málin sem koma inn á borð félagsmálayfirvalda eru oft mjög erfið og þá séu mál þar sem andlegu ofbeldi er beitt, sálarlegu niðurbroti, ekki síður erfið mál.
Þó svo nú sé verið að gera átak í að fá ofbeldismálin upp á yfirborðið, þá er ekki verið að veita meiri fjármunum til verksins. Hjördís segir að í raun sé ekki vitað hvað vandinn er stór á Suðurnesjum þar sem ofbeldismálin eru svo falin í þögninni. Þó svo 3,6% segist hafa orðið fyrir ofbeldi á síðustu 12 mánuðum geti verið erfitt að nálgast þetta fólk. Þess vegna er vonast til þess að með því að opna umræðuna stígi fólk fram og leiti sér hjálpar.