Hraunið þykkara og rennur hraðar - stutt í bílastæði Bláa Lónsins
„Hraunið rann óheppilega mikið til vesturs meðfram varnargarði, þó gosið sé eitthvað minna en síðast er hraunið þykkara og rennur hraðar. Það fór undir háspennulínuna sem flytur rafmagn frá Svartsengi og hún gaf sig í morgun. Hraunið dreifir vel úr sér í landinu sem er flatara og lægra fyrir neðan Grindavíkurveg. Við urðum að hætta að framleiða rafmagn. Þá rann hraunið rann yfir heita vatns og kaldavatns lagnir en þær eiga að þola það. Við náum þó að halda áfram að framleiða heitt vatn með varaaflsvélum. Vonandi lýkur þessu gosi sem fyrst svo Landsnet geti lagað háspennulínuna,“ sagði Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku við Rúv í hádeginu. Hann sagði að búið væri að tengja rafmagn við Grindavík í gegnum Reykjanesvirkjun.
Hraunjaðarinn var kominn mjög nálægt bílastæðinu við Bláa Lónið í hádeginu en verið var að vinna við að fylla í gat sem gæti komið í veg fyrir að hraunið rynni þangað. Í hádegisfréttum RÚV kom fram að eldur væri kominn í þjónustuhús sem er við bílastæðið og inngang að lóninu.