HS Orka
HS Orka

Fréttir

Kynntu sér áherslur fyrirtækja með tilliti til jarðhræringanna
Föstudagur 21. júní 2024 kl. 17:56

Kynntu sér áherslur fyrirtækja með tilliti til jarðhræringanna

Grindavíkurnefndin hefur frá því að hún tók til starfa 1. júní sl. kappkostað við að setja sig hratt inn í þau verkefni sem nefndinni eru falin. Nefndin hefur fundað með tugum aðila sem koma að aðgerðum og málefnum Grindavíkur. Þetta kemur fram í fréttabréfinu Grindvíkingi, sem gefið er út af stjórnarráðinu.

Nefndarfólk hefur einnig farið nokkrum sinnum til Grindavíkur síðustu vikur, bæði í heild sem og einstaka meðlimir. Síðast í þessari viku heimsóttu tveir nefndarmanna þrjú fyrirtæki og kynntu sér áherslur þeirra með tilliti til jarðhræringanna. Nefndin stefnir á að verða vikulegur gestur á svæðinu til að fylgjast með stöðu mála og eiga samskipti við aðila á svæðinu.


Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Verkefni nefndarinnar eru fjölbreytt:

  • Þjónustuteymi. Grindavíkurnefndin starfrækir þjónustuteymi til að tryggja áframhaldandi samþættan og markvissan stuðning við íbúa Grindavíkur. Í teyminu er sérhæft starfsfólk sem veitir ráðgjöf um atvinnuleit og virkni, húsnæði, þjónustu, skóla, tómstundir og íþróttir. Nánari upplýsingar um Þjónustuteymið er að finna hér.

  • Nefndin tók við jarðkönnunarverkefni sem unnið hefur verið að á vegum Almannavarna fram að þessu. Verkefnið er unnið í samstarfi við Almannavarnir, Ríkislögreglustjóra, Lögreglustjóra Suðurnesja, Grindavíkurbæ, Vegagerðina, Verkís, Eflu, ÍSOR og Háskóla Íslands. Verkefnið byrjaði sem hluti af heildar áhættumati Almannavarna um öryggi Grindavíkur og sneri fyrst og fremst að því að auka öryggi þeirra aðila sem sinna verðmætabjörgun á svæðinu og við atvinnusvæði. Rannsakaðar og kortlagðar eru sprungur og sprunguhætta með það fyrir augum að tryggja aðgengi og auka öryggi viðbragðsaðila, íbúa Grindavíkur og þeirra sem stunda atvinnu á svæðinu. Markmið verkefnisins er að útbúa aðgerðaráætlun sem tilgreinir staðlað verklag um hvernig staðið er að rannsóknum og viðgerðum þegar og ef nýjar sprungur ógna öryggi innviða og fólks á svæðinu. Framkvæmd rannsókna var skipt niður í fjóra fasa.

Fasi 1 – Tryggja öruggt aðgengi viðbragðsaðila sem eru að sinna verðmætabjörgun.
Fasi 2 – Opnun Grindavíkur með áherslu á að hefja rekstur fyrirtækja.
Fasi 3 – Opnun Grindavíkur með áherslu á framtíðar búsetu á svæðinu.
Fasi 4 – Ferðamannastaðir utan þéttbýlis

Staða verkefnisins í dag er sú að stóru sprungusvæðin hafa verið skilgreind og skipulagning rannsókna er í fullum gangi. Samanlögð lengd sprungnanna er um 7 km. Búið er að jarðkanna göturnar á sprungunum en ekki önnur svæði. Aðgengi er erfitt og gæta þarf fyllstu varúðar þegar farið er um þessi svæði.

  • Nefndin skal í samvinnu við ríkislögreglustjóra gera áhættumat fyrir þéttbýli í Grindavíkurbæ.

  • Nefndin hefur yfirumsjón með framkvæmd nauðsynlegra viðgerða til að tryggja virkni, rekstur og afhendingaröryggi innviða, eftir því sem við á og fellur undir ábyrgðarsvið Grindavíkurbæjar.

  • Nefndin hefur yfirumsjón með framkvæmd nauðsynlegra viðgerða á götum, stígum og opnum svæðum sem Grindavíkurbær er ábyrgur fyrir.

  • Nefndin hefur yfirumsjón með vernd lausafjármuna í Grindavíkurbæ eftir því sem við á, að mati framkvæmdanefndarinnar. Ljóst er að húsnæðismál margra íbúa Grindavíkur eru mjög aðkallandi. Úrlausn þeirra mála er enn brýn og varðar m.a. aðila sem rúmast ekki undir úrræðum Náttúruhamfaratryggingar Íslands, Fasteignafélagsins Þórkötlu eða HMS.

  • Framkvæmd aðgangsstýringar í Grindavíkurbæ í samvinnu við lögreglu.  

  • Upplýsingamiðlun til íbúa Grindavíkurbæjar og hagaðila um stöðu mála og framgang verkefna sem nefndin sinnir.

  • Ýmsar upplýsingar er að finna á upplýsingasíðu fyrir íbúa Grindavíkur á Ísland.is