Fréttir

Vísbendingar um að land rísi að nýju í Svartsengi
Fimmtudagur 5. september 2024 kl. 14:38

Vísbendingar um að land rísi að nýju í Svartsengi

Virknin í eldgosinu heldur áfram að minnka síðustu daga. En áfram virðast þó tvö gosop vera virk. Hraunbreiðan norðan við gosopin heldur áfram að stækka á hægum hraða til norðurs og þykknar einnig á sama tíma. Að svo stöddu ógnar hraunflæði ekki innviðum í nágrenni gosstöðvanna. Mælingar á gosóróa og gasútstreymi frá eldgosinu benda einnig til þess að dregið hafi nokkuð úr gosinu síðustu daga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Hraunbreida_05092024

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Kort sem sýnir virka hluta hraunbreiðunnar sem hefur myndast í þessu eldgosi. Kortið er byggt á gögnum úr Iceye gervitunglinu.

GPS mælingar sýna vísbendingar um að landris sé hafið á ný í Svartsengi. Á sama tíma hefur dregið úr flæði frá eldgosinu á Sundhnúksgígaröðinni. Það bendir til þess að innflæði í kvikusöfnunarsvæðið undir Svartsengi sé meira en flæði úr eldgosinu á yfirborðinu. Þróunin er svipuð og eftir að síðasta gos hófst þann 29. maí. Þá byrjaði landris í Svartsengi að verða greinanlegt um tveimur vikum eftir að gosið hófst.

Mogi_05092024_is

Línuritið sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undir Svartsengi á milli þeirra eldgosa eða kvikuhlaupa sem hafa orðið frá því í nóvember 2023. Græna línan sýnir þróun kvikusöfnunar á milli síðustu tveggja eldgosa. Rauða línan sýnir þróun kvikusöfnunar eftir að yfirstandandi eldgos hófst sem sýnir mjög svipaðan feril og sú græna.

Veðurspáin fyrir daginn (fimmtudag) er suðvestlæg átt á gosstöðvunum, 13-20 m/s og dálítil rigning eða þokusúld framan af degi, en síðan 10-15 m/s. Mengun frá eldgosinu berst til norðurs og norðausturs og gæti hennar orðið vart á Vatnsleysu og á höfuðborgarsvæðinu.

Hægt hefur á skjálftavirkni síðan að eldgosið hófst, 22. ágúst. Síðustu daga hefur dregið enn frekar úr virkninni og mjög lítil skjálftavirkni mælst síðustu daga. Hvassviðri gæti þó haft einhver áhrif á næmni jarðskjálftakerfisins til að nema allra minnstu skjálftana.

Hættumat er að mestu óbreytt nema að hætta vegna gjósku er metin minni núna. Kortið gildir að öllu óbreyttu til 10. september.

Haettusvaedi_VI_5sept_2024

(Smellið á kortið til að stækka)