Max 1
Max 1

Fréttir

Kynntu úrræði og virknistarf  fyrir fullorðið fólk á Suðurnesjum
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 27. október 2024 kl. 07:05

Kynntu úrræði og virknistarf fyrir fullorðið fólk á Suðurnesjum

Virkniþing Velferðarnets Suðurnesja haldið á dögunum

Virkniþing Velferðarnets Suðurnesja var haldið í Blue-höllinni, íþróttahúsi Keflavíkur, fimmtudaginn 26. september og var margt um manninn. 

Tilgangur virkniþingsins er að kynna úrræði og virknistarf fyrir fullorðið fólk á Suðurnesjum og gera starfið sýnilegt. Markmið virkniþingsins er að auka félagslega virkni íbúa og þar með lífsgæði og tækifæri á atvinnumarkaði. Markhópurinn fyrir virkniþing er fyrst og fremst fagfólk sem starfar með fólki utan vinnumarkaðar en þingið var jafnframt opið öllum og voru fjölmargir sem lögðu leið sína í Blue-höllina.

Það var forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir, sem setti þingið og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumálaráðherra, hélt ávarp en hann hefur stutt dyggilega við bakið á Velferðarneti Suðurnesja á undanförnum árum.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Með sannkallaða virkniveislu

Ásdís Rán Kristjánsdóttir er verkefnastjóri í velferðarþjónustu Reykjanesbæjar.

„Þetta þing var fyrst haldið í Stapanum árið 2022 og ég vona að það verði haldið í það minnsta annað hvert ár hér eftir. Ég vil meina að við séum með sannkallaða virkniveislu hér í gangi í dag þar sem við sýnum fram á hversu flott starf er unnið á öllum Suðurnesjum, bæði hjá frjálsum félagasamtökum, sveitarfélögunum og ríkinu. Virkniþingið (eða virknin sem hér er kynnt) er fyrir fólk átján ára og eldri sem er utan vinnumarkaðar og er ekki í skóla en rannsóknir sýna fram á skýr tengsl á milli virkni og vellíðunar. Þetta þing er mest hugsað fyrir fagfólk en er opið öllum.

Ég er ekki með nákvæma tölu um hversu margir á Suðurnesjunum eru óvirkir en við erum því miður nokkuð ofarlega á blaði, atvinnuleysi hefur lengi mælst mest á Suðurnesjum og fólk telur sig oft þurfa að sækja virkni út fyrir Suðurnesin en Virkniþingið er okkar leið til að sýna fram á þær fjölmörgu leiðir sem eru í boði hér á Suðurnesjum,“ sagði Ásdís.

Forseti Íslands er einn af Riddurum kærleikans

Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, mætti á viðburðinn og ávarpaði.

„Mér var ljúft og skylt að mæta hingað í dag og ávarpa þingið, mér finnst þetta vera frábært framtak en við vitum öll hve virkni í samfélaginu er mikilvæg okkar andlegu heilsu. Ég vildi líka minna á hreyfinguna Riddarar kærleikans en andleg heilsa þjóðarinnar er eitthvað sem ég var byrjuð að tala fyrir áður en ég valdist í embætti forseta Íslands. Riddarar kærleikans snúast um að mæta ótta, kvíða og erfiðleikum með meiri kærleik. Ég kallaði ungt fólk og eldra sem lætur sig þetta málefni varða, til samtals á Bessastöðum og út frá því fæddist þessi hreyfing sem við köllum Riddara kærleikans. Ég bind miklar vonir við að munum láta gott af okkur leiða, kærleikurinn er sterkasta vopnið.

Ég er búin að vera í þessu starfi í tæpa tvo mánuði og líst mjög vel á og er þakklát fyrir að gegna þessu mikilvæga embætti. Ég held að enginn geti gert sér grein fyrir því fyrirfram hvernig það er að verða forseti, bæði Guðni og Vigdís sögðu mér það en mér líst mjög vel á mig í þessu starfi og ætla að láta gott af mér leiða,“ sagði Halla.

Leggjum áherslu á að allir leggist á eitt og hjálpist að

Fjölsmiðjan á Suðurnesjum var einn hinna 30 aðila sem kynnti starfsemi sína á virkniþinginu. Þorvarður Guðmundsson stýrir málum hjá Fjölsmiðjunni.

„Fjölsmiðjan er starfsþjálfunarsetur fyrir ungt fólk á aldrinum 16-24 ára, við rekum bæði nytjamarkað, reiðhjólaverkstæði og mötuneyti, og sinnum ungu fólki sem hefur lent í óvirkni út af einhverjum orsökum. Krakkarnir koma til okkar í gegnum Vinnumálastofnun eða félagsþjónustu sveitarfélaganna á Suðurnesjum og við tökum þau í vinnuþjálfun sem er mjög fjölbreytt, allt frá því að vinna á reiðhjólaverkstæðinu, sækja vörur sem fólk vill gefa til nytjamarkaðarins, fara yfir vörurnar, við förum yfir öll rafmagnstæki og svo vinna þau í mötuneytinu þar sem við bjóðum upp á morgun- og hádegismat. Við leggjum áherslu á að allir leggist á eitt og hjálpist að, allir ganga í öll störf, þannig verður vinnan fjölbreytt og krakkarnir finna hvar þeirra styrkleikar liggja. Það er allur gangur á því hversu lengi einstaklingur er hjá okkur, lengst var einn í sex ár en meðaltíminn er á bilinu eitt og hálft til tvö ár. Við skilum venjulega átta til tíu einstaklingum út á vinnumarkaðinn og út í lífið á hverju ári, fólk sem fer þá af bótum og skilar sínu til samfélagsins,“ sagði Þorvarður.

Mjög gott að bjóða sig fram til starfa fyrir Rauða krossinn

Eitt af úrræðinum sem er í boði og var til kynningar á virkniþinginu, er það starf sem Rauði krossinn vinnur. Þær Berglind Bjarnadóttir og Jóna Guðrún Vébjörnsdóttir voru til svara á þinginu.

„Rauði krossinn sinnir ýmsum verkefnum fyrir samfélagið, eins og fatasöfnun, fjöldahjálparmiðstöð er rekin, það er teymi í kringum hælisleitendur og flóttafólk o.s.frv. Við Berglind erum í verkefni sem kallast Frú Ragnheiður en það snýst um að hitta neytendur sem eru í sprautufíkn, við látum þau fá hreinan búnað, föt og þess háttar og erum þeim auðvitað andlegur stuðningur í leiðinni. Það vantar alltaf fleiri sjálfboðaliða hjá Rauða krossinum, ekki síst í Frú Ragnheiður og þá helst heilbrigðismenntað starfsfólk,“ sagði Jóna Guðrún.

„Ég trúi því að fyrir einstakling sem er óvirkur eins og það kallast, að þá sé mjög gott að bjóða sig fram til starfa fyrir Rauða krossinn og þess vegna erum við hér í dag, að sýna okkur og sjá aðra. Manni líður vel að láta gott af sér leiða og það er hægt að finna hlutverk fyrir alla hjá Rauða krossinum. Við Jóna sem vinnum við Frú Ragnheiði hittum því miður fólk sem er ekki á sínum besta stað í lífinu en við vitum að við erum þessu fólki andlegur stuðningur og það veitir manni vellíðan.

Ég hvet alla sem hafa áhuga á að starfa fyrir Rauða krossinn að kíkja í heimsókn milli átta og fjögur alla virka daga í húsnæði Rauða krossins að Smiðjuvöllum 8,“ sagði Berglind að lokum.

Berglind Bjarnadóttir  t.v. og Jóna Guðrún Vébjörnsdóttir.