Mannlíf

Solla sextug á bleiku skýi
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 27. október 2024 kl. 07:00

Solla sextug á bleiku skýi

„Ég svíf ennþá um á bleiku skýi,“ segir afmælisdrottningin Sólveig Ólafsdóttir frá Grindavík. Solla varð sextug sunnudaginn 20. október og blés af því tilefni til heljarinnar afmælisveislu á veitingastaðnum Bryggjunni í Grindavík og var þetta fyrsti viðburðurinn sem haldinn er þar síðan Grindvíkingar þurftu að rýma bæinn í fyrra.

Solla sem er formaður Kvenfélags Grindavíkur var ánægð með hve margir gátu samglaðst henni á þessum degi.

„Við vorum búin að vera í sambandi við yfirvöld því lokunarpóstarnir voru ennþá í gangi á sunnudaginn. Það gekk allt vel fyrir utan að ekki átti að hleypa hljóðmanninum inn en sem betur fer eru þessir tilgangslausu lokunarpóstar nú hættir og búið að opna bæinn.

Viðreisn
Viðreisn

Bæði voru atriði vinkvenna og skyldmenna en svo kom Jógvan Hansen og sló í gegn, ekki bara er hann frábær söngvari heldur er hann líka svo fyndinn! Það var mikið stuð allan tímann og endaði dagurinn á því að flestir voru komnir út á dansgólfið, þótt klukkan væri þá um 17. Ég er alveg í skýjunum með hvernig til tókst.“

Solla og eiginmaður hennar, Eiríkur Dagbjartsson, eru ein þeirra Grindvíkinga sem hafa búið í Grindavík og vonar Solla að með opnuninni í Grindavík séu bjartari tímar framundan í bænum.

„Það var löngu orðið tímabært að hætta með þessa lokunarpósta og nú verður fróðlegt að sjá hvernig mál muni þróast. Mér hefur aldrei liðið óöruggri í Grindavík, varnargarðarnir breyta öllu og ef það versta er afstaðið hjá náttúrunni í Grindavík sé ég ekkert því til fyrirstöðu að uppbygging bæjarins hefjist strax.

Það er nóg í gangi hjá okkur í kvenfélaginu, það hefur verið krefjandi að halda starfinu gangandi, það var 101 kona skráð í félagið í fyrra, fjórar hafa látist á árinu en við erum dreifð í 20 bæjarfélögum út um allt land. Þetta hefur einhvern veginn gengið upp hjá okkur en við hlökkum öllum til að geta hist í Grindavík, það verður vonandi fljótlega,“ sagði Solla að lokum.