Samkaup
Samkaup

Mannlíf

Falleg jólagjöf til leikskólanna
Mánudagur 30. desember 2024 kl. 09:55

Falleg jólagjöf til leikskólanna

Jólaævintýrið um Grýlu og jólasveinanna 13

Alexandra Chernyshova, sópran söngkona, tónskáld og frumkvöðull verkefnisins Ópera fyrir leikskólabörn, kom með fallega jólagjöf til leikskólabarna í Reykjanesbæ fyrir jólin.

Frá árinu 2018, hefur Alexandra flutt óperu fyrir yfir fjögur þúsund leikskólabörn í leikskólum á Reykjanesbæ, Reykjavík, Akureyri, Suðurnesjum og Suðurlandi. Fyrsta sýningin var með tónlist úr óperuballettinu Ævintýrið um norðurljósin, sem var frumsýnd árið 2017 í Norðurljósasal Hörpu í Reykjavík.

Fyrr í þessum mánuði var ný sýning á vegum Óperu fyrir leikskólabörn með tónlist úr óperuballettinum Jólaævintýrið um Grýlu og jólasveinanna 13. Hún var flutt á átta leikskólum í Reykjanesbæ og var henni mjög vel tekið af börnunum. Að sögn Alexöndru var markmið verkefnisins að kynna óperu fyrir yngstu áhorfendunum, og segir hún viðtökurnar hafa verið mjög góðar. „Þau fá ekki bara að hlusta og horfa, heldur eru þau virkir þátttakendur í sýningunni sem gerir upplifunina enn skemmtilegri og nær virkilega til þeirra. Sýningin stendur yfir í um það bil hálfa klukkustund,“ sagði Alexandra en verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja og Menningasjóði Reykjanesbæjar.

Óperan Jólaævintýrið um Grýlu og jólasveinanna 13 segir frá jólasveinunum sem fara í sumarfrí til Hawaii í byrjun desember þar sem þeir njóta sólskins og sumars. Grýla fer að leita að þeim til að fá þá heim aftur og halda jól. Í sýningunni er Grýla leikinn af Jón Svavari Jósefssyni, barítón sem er einnig óperusöngvari og dansari. Alexandra Chernyshova, sem einnig samdi handrit og tónlist, leikur hlutverk Jólastelpu Evgeniu, sem einnig er sögumaður sýningarinnar. Þá leikur Hilmir Blær Jónsson, 9 ára, hlutverk Stúfs í sýningunni.

„Þetta verkefni, sem sameinar óperu og leikskólabörn, er falleg og frábær leið til að vekja áhuga á tónlist og óperu hjá yngstu kynslóðinni,“ sagði Alexandra.