Samkaup
Samkaup

Mannlíf

Keilan er eins  og hjólbarði
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 27. október 2024 kl. 07:10

Keilan er eins og hjólbarði

„Mikið af stórum þorski,“ segir Jens Sigurðsson, vélstjóri á Sighvati GK 67

„Við vorum að landa á Djúpavogi eftir þrjá daga á veiðum, fullfermi af stórum og fallegum þorski en það er nóg af honum út um allan sjó. Verst að geta ekki veitt meira af honum en við förum alltaf í löngu og keilu á vorin og sumrin, það er ekki eins skemmtilegur veiðiskapur,“ segir Jens Sigurðsson, vélstjóri á Sighvati GK-57 sem er línuskip í eigu Vísis hf. í Grindavík.

Jens ólst upp í Grindavík og hafði búið þar alla sína hunds- og kattartíð en hefur komið sér fyrir á Selfossi í kjölfar hremminganna í Grindavík. Vélstjórinn er 65 ára og sér alveg fyrir sér að vinna lengur en lögbundinn ellilífeyrisaldur segir til um.

Þjóðviljinn í sex hús

Jens var rétt byrjaður að labba þegar hann var byrjaður að vinna fyrir sér í Grindavík, bar út Þjóðviljann í Grindavík og man að það voru sex heimili sem keyptu blaðið.

„Það voru allir byrjaðir að vinna ungir þegar ég var að alast upp. Í dag mega unglingar ekki vinna og loksins þegar þau mega byrja, þá er varla að þau nenni því. Ég byrjaði á að bera út blöð, var svo kominn í salthúsin eða frystihúsin og vann þar öll sumur. Ég ætlaði mér fyrst að verða smiður, var kominn á samning en hætti því um tvítugt og fór þá á sjóinn og hef verið þar síðan. Maður býr samt að smíðinni, ég get bjargað mér í ýmsu en ég fann að mig langaði ekki að leggja starfið fyrir mig og fór í staðinn á sjóinn. Ég náði varla að prófa að vera háseti, ég var munstraður bæði sem annar stýrimaður og vélavörður án þess að hafa tiltekin leyfi, þetta var öðruvísi á þessum tíma. Ég fór svo í vélskólanámið í kringum ´85 en það var ekki einfalt, ég var búinn að stofna til fjölskyldu þá svo eigendur Fiskaness styrktu mig til námsins og ég launaði þeim með því að vinna hjá fyrirtækinu fram yfir sameiningu um aldamótin. Ég byrjaði með Guðjóni Einarssyni á Skarfi og fylgdi honum lengi vel, fór með honum yfir á Gaukinn og um tíma var ég með honum á Reyni GK, prófaði þá balalínu í fyrsta skipti. Það var ekki skemmtilegur veiðiskapur man ég, lögnin gat verið einstaklega leiðinleg. Eftir sameiningu Fiskaness við Þorbjörn og Valdimar í Vogum, fór ég á skipið Valdimar GK en það var síðan selt og þá fór ég á Hafbergið og eftir að það var selt gafst ég upp og fór yfir til Vísis á Sighvat og hef verið hjá því fyrirtæki allar götur síðan, alltaf á Sighvati en nýtt skip kom árið 2018.“

Fjórtán í áhöfn - einn vélstjóri

Þar til fyrir nokkrum árum var vélavörður í áhöfn Sighvats en í dag sér Jens um allt sem viðkemur vélamálum.

„Ég reyni að halda átta tíma vöktum en ef eitthvað kemur upp á er ég ræstur, það er engin miskunn gefin í þeim efnum. Það koma tarnir en svo getur maður lagt sig þegar það er rólegra en yfir höfuð gengur þetta kerfi vel upp, annars værum við búnir að breyta þessu. Vélstjórinn hefur alltaf næg verkefni. Það þarf að sinna reglubundnu viðhaldi og ef það er samviskusamlega og vel unnið þá eru minni líkur á bilunum. Svo kemur alltaf eitthvað upp sem vélstjórinn þarf að laga og þá fer maður í það en það er svo athyglisvert, bilanir koma oft allar á svipuðum tíma. Þess inn á milli er síðan rólegt og þá getur maður slakað sér en vélstjórinn getur alltaf fundið sér verkefni.

Við erum nýbyrjaðir á nýju kvótaári og höfum legið í þorski til þessa, það er óvenju mikið af honum og ég held að sá guli sé líka stærri, það er mikið um 5 kg. og þaðan af stærri fisk. Við fylltum á þremur dögum en hvert úthald er tvær vikur. Það eru alltaf áhafnarskipti annan hvern miðvikudag og ef fiskerí er mikið þá er landað oftar og alltaf verið í landi á tilteknum miðvikudegi þegar áhafnarskipti eiga sér stað.

Þetta er skemmtilegasti tíminn, það er ekki eins gaman að vera í löngu og keilu á vorin og sumrin, keilan er sérstaklega leiðinleg, að gera að henni er eins og skera á hjólbarða. Það er ekki bara eitt við keiluna, það er allt, meiri og leiðinlegri vinna og launin líka lægri,“ segir Jens.

Ungur langafi á Selfossi

Jens og fjölskylda voru búin að flytja nokkrum sinnum síðan 10. nóvember í fyrra og hafa komið sér fyrir á Selfossi. Hann á ekki von á að flytja í bráð en á von á að gangast í nýtt hlutverk á næstunni.

„Eftir alla þessa flutninga þá ætla ég mér ekki að flytja í bráð, konan ákvað að við myndum setjast að á Selfossi og ég fylgdi bara með. Hún er smeyk við að búa í Grindavík og ég er ekki viss hvort við munum flytja þangað aftur, ég er nú orðinn 65 ára gamall. Selfoss er bær á mikilli uppleið, það er nánast sprottið upp nýtt hús þegar ég kem heim á tveggja vikna fresti, nýi miðbærinn er mjög flottur og ég held að okkur muni líða vel hér.

Ég er ungur í anda, ég held ég muni ekki hætta að vinna eftir tvö ár þegar ég verð orðinn 67 ára gamall. Ég er við hestaheilsu og alger óþarfi að hætta að vinna ef maður er full frískur. Mér finnst skrýtin tilhugsun að ég verð langafi á næstunni, mér finnst ég vera of ungur til að geta titlað mig langafa en þetta verður bara skemmtilegt hlutverk að takast á við, ég tek komandi árum með bros á vör,“ sagði Jens að lokum.