Nýir verkefnastjórar Frú Ragnheiðar á Suðurnesjum
Nýir verkefnastjórar Frú Ragnheiðar á Suðurnesjum
Frú Ragnheiður á Suðurnesjum tók til starfa árið 2020 og hefur starfið verið í mikilli þróun síðan þá. Frú Ragnheiður er rekið af Rauða krossi Íslands og starfar einnig á Akureyri og höfuðborgarsvæðinu.
Í febrúar 2023 tóku nýir verkefnastjórar við keflinu hjá Frú Ragnheiði á Suðurnesjum, þær Sigfríður Ólafsdóttir og Inga Björk Jónsdóttir. Báðar hafa þær verið sjálfboðaliðar í verkefninu og taka spenntar við þessu nýja hlutverki með það að markmiði að koma verkefninu betur á framfæri, bæði fyrir notendur þjónustunnar sem og samfélagið í heild.
Árið 2022 fargaði Frú Ragnheiður 265 lítrum af notuðum búnaði, búnaði sem annars gætu hafa endað á almenningsstöðum. Einnig voru 46 einstaklingar sem sóttu þjónustu í bílnum og á bak við þessa einstaklinga voru 425 heimsóknir. Frú Ragnheiður vinnur eftir skaðaminnkandi hugmyndafræði og er það grundvöllur okkar vinnu. Þjónustan felur í sér að veita hreinan búnað, sálrænan stuðning, næringu, hlýjan fatnað og að sjálfsögðu förgun búnaðar. Ásamt því að mæta skjólstæðingum á jafningjagrundvelli er fullum trúnaði ávallt heitið við notendur þjónustunnar.
Ef fólk hefur áhuga á að fræðast meira um skaða-minnkandi hugmyndafræði, eða hefur áhuga á að verða sjálfboðaliði í Frú Ragnheiði, er hægt að hafa samband við verkefnastjóra í tölvupósti á [email protected] eða [email protected].