Reyndi að hrifsa 14 ára dreng upp í jeppabifreið
Karlmaður reyndi að lokka 14 ára dreng upp í rauða jeppabifreið sína í miðbæ Reykjanesbæjar í gærkvöldi. Maðurinn stöðvaði bíl sinn og skrúfaði niður rúðuna farþegamegin við hlið drengsins sem var á gangi heim af íþróttaæfingu. Hann bauð drengnum sælgæti sem hann afþakkaði. Maðurinn brást ókvæða við og stökk yfir í farþegasætið og reyndi að hrifsa í öxlina á drengnum sem brást rétt við, hljóp undan og lét öllum illum látum.
Samkvæmt lýsingu þá er um að ræða eldrauðan jeppa sem er talsvert hár. Lögreglan á Suðurnesjum segir að um einstakt tilfelli sé að ræða og engin ástæða til þess að óttast. Lögreglan segir að unglingurinn hafi brugðist rétt við enda hafi foreldrar hans kennt honum hvernig eigi að bregðast við í svona aðstæðum.
Svipast var um eftir manninum í gær en án árangurs. Lögreglan vill af þessu tilefni hvetja foreldra að brýna fyrir börnum sínum að ekki eigi að þiggja gjafir eða sælgæti af ókunnugum.