Samkaup
Samkaup

Fréttir

Spennandi tækifæri og verðmæt störf í fjölbreyttri framtíðarsýn
Skissunum er ætlað að hjálpa okkur við að sjá fyrir okkur möguleika svæðisins, hvað við viljum sjá og hvað ekki. Á þessari „loftmynd“ sjáum við m.a. fyrir okkur hvernig svæðið í kringum gömlu kerskálana sem nú hýsa Græna iðngarðinn (IEBP) getur þróast og styrkst í samvinnu ólíkra fyrirtækja.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 7. nóvember 2024 kl. 16:58

Spennandi tækifæri og verðmæt störf í fjölbreyttri framtíðarsýn

„Unnar hafa verið ítarlegar greiningar og leitað að starfsemi sem hentar okkar svæði og landinu í heild. Horft er meðal annars til þess að menga ekki og að til verði gæðastörf,“ segir Pámi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco um þróunaráætlunina fyrir Helguvík og Bergvík.

„Unnar hafa verið ítarlegar greiningar og leitað að starfsemi sem hentar okkar svæði og landinu í heild. Horft er meðal annars til þess að menga ekki og að til verði gæðastörf,“ segir Pámi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco um þróunaráætlunina fyrir Helguvík og Bergvík

Þróunaráætlun fyrir atvinnusvæði í anda hringrásar er nú að raungerast í Helguvík og Bergvík eftir mikla vinnu þar sem landeigendur og sveitarfélög leggjast á eitt við að hanna framtíð svæðisins. Áhersla er lögð á að á svæðinu verði til verðmæt störf, að uppbyggingin styðji við nærsamfélögin og styrki enn frekar atvinnulíf á svæðinu.

Eitt áherslusvæða K64 þróunaráætlunarinnar er Helguvík og Bergvík. Svæðið er skilgreint sem atvinnu- og iðnaðarsvæði og sveitarfélögin sameinast nú um að hámarka tækifæri svæðisins með sjálfbærni og hringrás að leiðarljósi. Lögð er áhersla á að svæðið byggist upp með vistvænum áherslum og að nálægðin við Helguvíkurhöfn og Keflavíkurflugvöll verði nýtt til fulls.

Tækifæri fyrir ólíka aðila
undir hatti K64

Líkt og í aðraganda K64 hefur höfuðáherslan verið á samstarf og samráð og var til að mynda stofnaður bakhjarlahópur verkefnisins með fulltrúum frá Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ, Reykjaneshöfnum og Kadeco fyrir hönd íslenska ríkisins sem er landeigandi í Bergvík. Þá hafa bæjarráð og skipulagsnefndir fjallað um vinnuna og haldnar hafa verið vinnustofur með embættismönnum sveitarfélaga, kjörnum fulltrúum og fleiri hagaðilum.

Ekki er um raunverulegar myndir að ræða og ljóst að íbúar kannast ekki við allt sem þarna er sýnt.
En myndunum er ætlað að hjálpa skipulagsvöldum að taka góðar ákvarðanir fyrir uppbyggingu svæðisins.

„Þá er óneitanlega mikill styrkur í græna iðngarðinum sem nú rís innan þeirra mannvirkja sem ætluð voru álveri. Við sjáum fyrir okkur að svæðið í kringum Græna iðngarðinn (IEBP) verði hjarta svæðisins og að þar verði gott að vinna..“

Stórir draumar og stór tækifæri

Svæðið sem í daglegu tali er kallað Helguvík og Bergvík nær til athafna- og iðnarsvæða í Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ. Kadeco leiðir verkefnið með bakhjarlahópnum og fékk til liðs við sig hönnunarteymi frá KCAP og verkfræðistofunni Eflu. Útkoma vinnunnar er þróunaráætlun fyrir svæðið sem styður við sjálfbærni þar sem horft er bæði til innlendra og erlendra sóknarfæra. Einnig er að finna  greiningar á umhverfisþáttum og landnotkun sem snýr m.a. að hljóð- og sjónmengun og landmótun. Eitt af meginmarkmiðunum er að svæðið sé aðlaðandi vinnustaður þar sem starfsemi nýti sér nálægð við höfn og flugvöll. Svæðið býður upp á einstaka möguleika til að skipuleggja hringrásargarð fyrirtækja og hefur því verið skipt upp í þemasvæði þar sem markmiðið er að fullnýta tækifærin eins og hægt er og nýta landsvæðið sem best. Þróunar-áætlunin er grunnur að áframhaldandi skipulagsvinnu fyrir svæðið og ákvörðunartöku um notkun þess.

„Myndirnar sem fylgja með eru í raun skissur og til þess gerðar að sjá hvernig svæðið getur mögulega litið út ef öllum hugmyndum verður framfylgt. Þróunaráætlunininni er ætlað að sýna okkur tækifæri svæðisins og tekur tillit til sjálfbærni, landslagsmótunar, landnýtingar og hagrænna þátta svo eitthvað sé nefnt. Þá voru unnar ítarlegar greiningar og leitað að starfsemi sem hentar okkar svæði og landinu í heild. Horft er meðal annars til þess að menga ekki og að til verði gæðastörf,“ segir Pámi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco sem stendur að baki þróunar-áætluninni.

„Helguvíkur og Bergvíkursvæðið er ótrúlega vel staðsett þegar kemur að uppbyggingu á iðnaði og atvinnustarfsemi og með þessu verkefni vona ég að okkur takist að kveða niður þá drauga sem margir tengja við Helguvíkursvæðið. Tækifærin til arðbærrar, en grænnar uppbyggingar á svæðinu eru ótal mörg. Við höfum öll sem komum að þessu verkefni mikla trú á framtíðarmöguleikum Suðurnesja og trúum því að með skýrri framtíðarsýn getum við byggt upp eitthvað sem skilar sér margfalt til baka,“ segir Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, starfandi bæjarstjóri í Reykjanesbæ.

Atvinnuuppbygging jákvæð
fyrir hagsæld á svæðinu

Þegar talað er um Helguvíkur og Bergvíkursvæðið er átt við svæði sem er staðsett rétt norðan við byggðina í Reykjanesbæ og er innan sveitarfélagsmarka Suðurnesjabæjar og Reykjanesbæjar. Svæðið er bakgarður tveggja hafna, Keflavíkurflugvallar og Helguvíkurhafnar, einnar dýpstu hafnar landsins og hýsir í dag eldsneytistanka fyrir flugvélaeldsneyti auk margvíslegrar iðnaðarstarfsemi, en uppbygging og þróun svæðisins er skammt á veg komin.

„Með þessu verkefni erum við að samnýta krafta þeirra aðila sem standa að verkefninu, þ.e. Kadeco, Suðurnesjabæjar og Reykjanesbæjar. Við erum ánægð með þessa framtíðarsýn sem við erum búin að vinna að allt síðasta ár og höfum mikla trú á að í henni felist mörg spennandi tækifæri fyrir svæðið. Með uppbyggingunni er verið að horfa til fjölbreyttra starfa og það er mikill styrkur í því að við byggjum þetta svæði upp í samstarfi. Þá er óneitanlega mikill styrkur í græna iðngarðinum sem nú rís innan þeirra mannvirkja sem ætluð voru álveri. Við sjáum fyrir okkur að svæðið í kringum Græna iðngarðinn (IEBP) verði hjarta svæðisins og að þar verði gott að vinna“ segir Magnús Stefánsson, bæjarstjóri Suðurnesjabæjar.

Mikilvægt að ávarpa
drauga fyrri tíma

Skipulagsramminn byggir á núverandi gatnaneti og lóðaskipulagi, en það býður upp á sveigjanleika og aðlögunarhæfni. Á þeim grunni eru skilgreind minni svæði sem geta hýst bæði léttan og þyngri iðnað, hugsanlega tengt orkuskiptum í samgöngum.

Að sögn Pálma hefur frá fyrstu stundu verið lögð mikil áhersla á samstarf og samráð í tengslum við þróunaráætlun K64. Það sama er uppi á teningnum þegar kemur að allri framtíðaruppbyggingu í Helguvík og Bergvík enda eru tækifærin til uppbyggingar fjölmörg. Verkefnið í Helguvík og Bergvík er næsta skref í þeirri vegferð að breyta þróunaráætluninni í raunverulega uppbyggingu, íbúum Suðurnesja til heilla. Á næstu dögum og mánuðum heldur samtal um svæðið afram og samtal við íbúa, hagsmunaaðila og alla þá sem hafa áhuga á að kynna sér áformin enn frekar. Við munum bjóða upp á opinn fund í byrjun desember og verður hann auglýstur innan tíðar. Þá liggi einnig fyrir að hefja vinnu við deiliskipulagsgerð í Bergvík til þess að geta útbúið lóðir og byggt upp gatnakerfi fyrir núverandi fyrirtæki og til framtíðar“ segir Pálmi að lokum.

„Eitt af meginmarkmiðunum er að svæðið sé aðlaðandi vinnustaður þar sem starfsemi nýti sér nálægð við höfn og flugvöll. Svæðið býður upp á einstaka möguleika til að skipuleggja hringrásargarð fyrirtækja...“

Gatnakerfið á eftir að taka á sig mynd en m.a. er gert ráð fyrir að þarna verði góðar samgöngur og gott að starfa. Einnig er horft til þess að hönnun bygginga verði í sátt við nærumhverfið.