SSS
SSS

Fréttir

  • Starfsmenn United Silicon kvarta ekki undan óþægindum
    Fyrsti ofninn í kísilveri United Silicon, Ísabella, er komin í starfsemi.
  • Starfsmenn United Silicon kvarta ekki undan óþægindum
Mánudagur 28. nóvember 2016 kl. 16:54

Starfsmenn United Silicon kvarta ekki undan óþægindum

„United Silicon telur rétt að það komi fram að starfsmenn fyrirtækisins hafa mætt sérstaklega vel til vinnu og enginn þeirra kvartað undan óþægindum vegna reyks eða lyktar. United Silicon er annt um starfsmenn sína sem og bæjarbúa alla, heilsa þeirra og öryggi er í forgangi“. Þetta kemur fram í nýrri yfirlýsingu frá fyrirtækinu til fjölmiðla í kjölfar umfjöllunar fjölmiðla síðustu daga um starfsemi United Silicon.
 
Þá segir í yfirlýsingunni að United Silicon vonist til að byrjunarörðugleikarnir verði brátt úr sögunni og hér verði rekinn góður vinnustaður í sátt og samlyndi við íbúa alla. „United Silicon hefur fulla trú á því að samfélagið vinni með fyrirtækinu á jákvæðan hátt og skapi sátt um nýjan vinnustað sem eykur fjölbreytni í atvinnulífi okkar ágæta bæjarfélags“.
 
Þá segir í tilkynningunni til fjölmiðla: „Kísilmálmverksmiðja United Silicon er nýr vinnustaður í Reykjanesbæ sem á eftir að skapa mikla atvinnu í samfélaginu, bæði beint í verksmiðjunni sjálfri og óbeint með afleiddum störfum ýmissa þjónustuaðila. Þessi störf eru fjölbreytt og krefjast margvíslegrar menntunar og reynslu. Umsvif Helguvíkurhafnar eiga eftir að aukast mjög mikið vegna flutninga til og frá United Silicon og nú þegar sjá menn fram á stór tækifæri sem skapast fyrir Helguvíkurhöfn með meiri skipaumferð tengdri starfsemi United Silicon.
 
Eiginleg starfsemi United Silicon hófst bæði með þurrkun fóðringar bræðsluofnsins og bökun rafskautanna þann 11. nóvember síðastliðinn. Það er gert með því að brenna hreint ómeðhöndlað timbur í ofninum í rúma tvo sólarhringa. Þessi bruni er sambærilegur við það þegar fólk brennir eldivið í arninum eða kamínunni heima hjá sér og lyktin sú sama. Þann 13. nóvember var síðan hleypt straumi á ofninn og mötun hefðbundinna hráefna hafin.  Hitinn í ofninum er svo hækkaður smám saman með því að hækka strauminn og þar með minnkar lyktin og á að vera hverfandi þegar ofninn verður kominn í fullt álag. Vonast er til að ofninn verði kominn í fullt álag á allra næstu dögum og þar með reksturinn í jafnvægi.
 
Í bökunarferli ofnsins og uppkeyrslu verksmiðjunnar hefur United Silicon notið aðstoðar víða að. Sérfræðingar frá framleiðendum búnaðar og sérfræðingar á ýmsum sviðum hafa verið til aðstoðar daga og nætur og verða áfram. Ennfremur hafa þaulreyndir starfsmenn úr sambærilegri verksmiðju í Evrópu verið hér til að þjálfa starfsfólk United Silicon og verða hér áfram þar til starfsemi verksmiðjunnar kemst i jafnvægi. United Silicon hefur ennfremur tryggt sér aðstoð allra þessara aðila til lengri tíma.
 
Verksmiðja United Silicon er háð ströngum skilyrðum í starfsleyfi og hefur fengið óháðan aðila, Orkurannsóknir ehf, til að sjá um mælingar á útblæstri frá verksmiðjunni. Allar mælingar og viðmið má sjá á „andvari.is“ ásamt ýmsum upplýsingum varðandi mælingarnar. Þrátt fyrir umfjöllun um sterka lykt og reyk sem menn telja sig finna, sýna allar mælingar Orkurannsókna ehf að mengun frá verksmiðju United Silicon hefur aldrei farið yfir viðmiðunarmörk. Ef gögnin á „andvari.is." eru skoðuð þá má sjá að mengunin hefur í raun aldrei farið nálægt þessum viðmiðunarmörkum“.
Bílakjarninn
Bílakjarninn