Fréttir

Þorbirni skipt upp á milli þriggja fjölskyldna
Annar frystitogaranna, Tómas Þorvaldsson.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
þriðjudaginn 3. september 2024 kl. 18:34

Þorbirni skipt upp á milli þriggja fjölskyldna

Stórar breytingar eru yfirvofandi á rekstri Þorbjarnar hf. í Grindavík. Afkomendur systkinanna þriggja, barna stofnenda Þorbjarnar, Tómasar Þorvaldssonar og Huldu Björnsdóttur, munu hver um sig taka við rekstri eins togara en Þorbjörn hefur verið að gera út frystitogarana Tómas Þorvaldsson, Hrafn Sveinbjarnarson og ísfisktogarann Sturlu. Nýtt fyrirtæki verður stofnað utan um hvern togara.

Afkomendur Gunnars Tómassonar munu gera Hrafn Sveinbjarnarson GK út.
Afkomendur Eiríks Tómassonar munu gera Tómas Þorvaldsson GK út.
Afkomendur Gerðar Sigríðar Tómasdóttur munu gera Sturlu GK út.

Beðið er komu hins nýsmíðaða ísfisktogara, Huldu Björnsdóttur GK. Ekki er búið að taka ákvörðun um hvað gert verður við það skip en það átti að sjá landvinnslunni fyrir hráefni en fyrr í sumar lagði Þorbjörn landvinnsluna niður sökum aðstæðna í Grindavík.

Þorbjörn sendi þessa yfirlýsingu frá sér fyrr í dag.

Undanfarin misseri hafa eigendur Þorbjarnar hf. unnið að endurskipulagningu reksturs félagins í ljósi breyttra aðstæðna. Meginmarkmið þessarar endurskipulagningar er að auka hagkvæmni í rekstri. Niðurstaðan er sú að leggja áherslu á rekstur þriggja skipa félagsins, Tómasar Þorvaldssonar GK-10, Hrafns Sveinbjarnarsonar GK-255 og Sturlu GK-12. Með því næst fram betri nýting á rekstrarfjármunum félagsins og aflaheimildum. Verður rekstur þeirra færður í sjálfstæð félög með sama eignarhaldi og Þorbjörn hf. Nýjum félögum verður stjórnað af núverandi eigendum og starfsmönnum Þorbjarnar hf.

Er það mat hluthafa að með þessu náist einfaldari og einbeittari nálgun á rekstur hverjar rekstrareiningar.