Fréttir

Þorgeir Þorsteinsson látinn
Föstudagur 29. nóvember 2013 kl. 11:24

Þorgeir Þorsteinsson látinn

Þorgeir Þorsteinsson, fyrrverandi sýslumaður og lögreglustjóri á Keflavíkurflugvelli, lést í fyrradag á Borgarspítalanum, 84 ára að aldri.

Þorgeir fæddist í Hermes á Búðareyri við Reyðarfjörð 28. ágúst 1929. Foreldrar hans voru Þorsteinn Jónsson, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Héraðsbúa og Sigríður Þorvarðardóttir Kjerúlf, húsfreyja.

Þorgeir lauk Cand.juris.-prófi frá Háskóla Íslands 1956. Hann var fulltrúi hjá bæjarfógetanum í Hafnarfirði og sýslumanninum í Gullbringu- og Kjósarsýslu frá 1956-1959. Hann var aðalfulltrúi hjá lögreglustjóranum á Keflavíkurflugvelli frá 1959-1974 er hann var skipaður lögreglustjóri og svo sýslumaður frá 1992 en hann gegndi því starfi til starfsloka. Þorgeir starfaði við lögreglustjóra- og síðar sýslumannsembættið á Keflavíkurflugvelli á meðan dvöl bandaríska varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli stóð yfir. Þorgeir sinnti dómarastörfum áður en aðgreint var milli framkvæmdar- og dómsvalds við slík embætti. Hann sótti námskeið um öryggismál og öryggisbúnað á alþjóðaflugvöllum vegna örrar þróunar öryggismála flugvalla.

Þorgeir var virkur í uppbyggingu golfíþróttarinnar og einn af stofnfélögum Golfklúbbs Suðurnesja. Hann tók einnig þátt í starfi Framsóknarflokksins eins og hann átti ættir til en faðir hans og afi voru virkir í íslensku Samvinnuhreyfingunni.

Þorgeir hlaut viðurkenningar fyrir störf sín þar á meðal Officer of the British Empire og sambærilega orðu frá Þýskalandi.

Þorgeir var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Herdís Tryggvadóttir, dóttir Tryggva Ófeigssonar útgerðarmanns og Herdísar Ásgeirsdóttur. Þau áttu fjögur börn: Herdísi lögfræðing, Þorstein hagfræðing, Sigríði heimspeking og Ófeig Tryggva lækni. Þau skildu. Seinni kona Þorgeirs var Kristín Sveinbjörnsdóttir. Þau skildu. Þorgeir átti Kötlu Margréti leikkonu með Jóhönnu Andreu Lúðvígsdóttur. Barnabörn Þorgeirs eru tólf.