Samkaup
Samkaup

Fréttir

Vel heppnaður sumarskóli Keilis
Óhætt er að segja að sumarskóli Keilis hafi verið spennandi. Myndir/Keilir
Föstudagur 12. júlí 2013 kl. 09:19

Vel heppnaður sumarskóli Keilis

Sífellt fleiri tengja sumarið við skólastarf og það er alltaf að verða vinsælla hjá ungu fólki að taka þátt í sumarnámi af einhverju tagi. Síðastliðinn mánudag byrjaði tvenns konar sumarnámskeið fyrir börn og unglinga hjá Keili – miðstöð vísinda fræða og atvinnulífs á Ásbrú. Annarsvegar tækni- og vísindasmiðja og hinsvegar flugbúðir að erlendri fyrirmynd. Þessum námskeiðum var vel tekið og greinilegt að það er mikill áhugi fyrir nýjungum á sviði sumarnámskeiða.

Tækni – og vísindabúðir

Í Tækni – og vísindabúðum hafa unglingar á aldrinum 13–16 ára fengið að spreyta sig á ótrúlega fjölbreyttum viðfangsefnum. Dagskráin hófst á ýmsum tilraunum, meðal annars eðlisfræðitilraunum með búnaði sem útbúinn hefur verið í Keili. Hópurinn fór í vettvangsferð til Grindavíkur, þar sem Veiðarfæraþjónustan og Kvikan voru heimsótt og svo var farið í Orkuverið Jörð á Reykjanesi. Fyrir ferðina fengu krakkarnir ágrip af jarðfræði og stjörnufræði, sem nýttist vel til að dýpka skilninginn á því sem fyrir augun bar yfir daginn.

Tilraunir í rafmagnsfræði vöktu lukku og einfaldar efnafræðitilraunir með algengum hráefnum voru framkvæmdar með spennandi og oft óvæntri útkomu. Heill dagur fór í spennandi vettvangsferð í Þekkingarsetrið í Sandgerði, þar sem farið var í ratleik í nágrenninu, ýmsum upplýsingum og sýnum safnað úr náttúrunni sem svo voru rannsökuð á rannsóknarstofu Þekkingarsetursins. Námskeiðinu lauk með eldflaugakeppni við mikinn fögnuð viðstaddra. Umsjónarmenn Tækni – og vísindasmiðjunnar eru háskólanemarnir Harpa Óskarsdóttir, Atli Guðjónsson og Karl Guðni Garðarsson.

Hvernig hafa viðbrögðin verið? „Krakkarnir eru mjög jákvæð og spyrja mikið, þau eru til í að prufa allt og hafa tekið vel í þau fjölbreyttu verkefni sem við höfum lagt fyrir þau. Einnig höfum við fengið góð viðbrögð frá okkar samstarfsaðilum, allstaðar vorum við velkomin í heimsókn og vel tekið á móti okkur. Það skiptir líka máli fyrir unglingana að upplifa það og kynnast þessum stöðum hér í nágrenninu segja umsjónarmennirnir Atli, Harpa og Kalli.“ Þau minna á að enn er hægt að skrá sig á námskeiðin á www.keilir.net en nýtt námskeið hefst í hverri viku út júlí.

Flugbúðir

Í Flugbúðirnar fór aðsóknin fram úr björtustu vonum og færri komust að en vildu. Hjá Magnúsi Ágústssyni og Júlíusi Gunnari Sveinssyni flugkennurum fengu unglingar á aldrinum 13–16 ára góða innsýn inn í öll helstu svið flugsins ásamt því að fara í fjölbreyttar vettvangsferðir á ýmsa spennandi staði sem að öllu jöfnu er lokaður almenningi.

Hvernig var stemmingin í Flugbúðunum? „Stemmingin var frábær, þessi hópur var mjög áhugasamur og jákvæður, þau voru dugleg að spyrja og taka þátt,“ segir Magnús flugkennari. „Ég byrjaði daginn yfirleitt á stuttum fyrirlestrum, kynnti þau fyrir flugeðlisfræði, flugleiðsögu, vélfræði, veðurfræði og ýmsu fleiru sem skiptir miklu máli í þessari grein. Svo fengum við til okkar góða gesti, Ævar Jónsson flugumferðarstjóra og Friðrik Ólafsson flugmann til að segja frá sínum störfum. Þyrla Landhelgisgæslunnar heiðraði okkur með nærveru sinni og það var mikið ævintýri að upplifa það og að fá að skoða þyrluna. En ég held að vettvangsferðirnar okkar hafi skilið mest eftir sig, það var mikil upplifun að fara inn á Keflavíkurflugvöll og fá að kynnast þar störfum flugturnsins, slökkviliðsins, flugvirkjanna og IGS sem sér meðal annars um farangur og mat í flugvélarnar.“

„Við vorum við svo heppin að fá að skoða alveg nýja rússneska farþegaþotu sem er hér stödd í flugprófunum, einn af rússnesku yfirmönnum verkefnisins útskýrði fyrir okkur hvað þeir eru að gera hér. Svo sáum við einnig gamla ameríska herþotu sem stendur í sprengjubyrgi á flugvallarsvæðinu,“ segir Júlíus Gunnar.

„Sérstaklega fannst þeim gaman að fá að skoða flugvél Icelandair sem var í flugskýlinu, það var toppurinn að fá að kíkja inn í hana. Þetta námskeið heppnaðist vel og við stefnum klárlega á að halda fleiri svona námskeið í framtíðinni,“ segir Magnús, sem vill koma til skila þakklæti til allra einstaklinga og fyrirtækja sem greiddu götu Flugbúðanna.


Magnús flugkennari með hópinn við gömlu herþotuna í sprengjubyrginu.


Flugbúðahópur við slökkvibílinn á Keflavíkurflugvelli.


Komin um borð í kennsluflugvél Keilis.