Hádramatík í IceMar-höllinni þegar Narðvíkingar slógu Keflavík úr bikarnum
Njarðvík vann dramatískan sigur á Keflavík í sextán liða úrslitum VÍS-bikarkeppni kvenna í dag. Er óhætt að segja að þetta hafi verið fyrsti stórleikurinn í glænýrri IceMar-höllinni og það sé byrjað að skrifa nýjan kafla í sigurgöngu körfunnar í Njarðvík.
Njarðvík - Keflavík 76:75
(18:15, 19:21, 15:19, 24:20)
Leikurinn var jafn og spennandi og hvorugu liði tókst að rífa sig frá hinu. Lokamínúturnar voru sérstaklega æsilegar en þegar rúmalegar fjórar og hálf mínúta voru til loka fjórða leikhluta leiddu Keflvíkingar með átta stigum (62:70).
Þristar frá Enu Viso og Bo Guttormsdóttur-Frost minnkuðu muninn í tvö stig (68:70) en Anna Ingunn Svansdóttir svaraði með þrist á hinum enda vallarins og jók forystuna í fimm stig (68:73).
Bo minnkaði muninn í þrjú stig áður en Viso setti niður annan þrist til að jafna leikinn (73:73).
Emilie Hesseldal kom Njarðvík svo yfir þegar 1:24 mínútur voru á klukkunni og Sara Rún Hinriksdóttir jafnaði í 75:75 og ein mínúta eftir.
Njarðvík og Keflavík misnotuðu sitthvora sóknina og þegar sjö sekúndur voru til leiksloka braut Anna Ingunn á Brittany Dinkins sem fékk tvö vítaköst. Dinkins setti aðeins seinna skotið niður og Njarðvík því einu stigi yfir þegar sjö sekúndur voru eftir á klukkunni og Keflavík með boltann.
Eftir að hafa tekið leikhlé til að ráða ráðum sínum byrjuðu Keflvíkingar lokasóknina. Jasmine Dickey fékk boltann og ætlaði að senda inn á Söru Rún en Dinkins komst inn í sendinguna og tíminn rann út fyrir Keflavík.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var í IceMar-höllinni og tók meðfylgjandi myndir. Myndasafn er neðst á síðunni.