Joey vann Helga í þriðja lið eftir hnífjafnan leik
Það ætlar að ganga erfiðlega að halda sér á stallinum í tippleik Víkurfrétta, Helgi Bogason frá Grindavík þarf að víkja fyrir Joey Drummer en eftir hnífjafnan leik sem endaði 7-7, þurfti þriðja valmöguleikann til að knýja fram sigurvegara. Þeir voru báðir með þrjá rétta með leikjum með einu merki, voru með tvo rétta rétta í leikjum með tveimur merkjum en Joey var með fjóra rétta á fyrstu sex leikjum seðilsins á móti þremur leikjum Helga svo Manchester United vann Leeds United að þessu sinni. Helga er þökkuð þátttakan en hann er í þriðja sæti ásamt Óla Þór Magnússyni og Birgi Má Bragasyni, með 17 leiki rétta en Þórunn Katla Tómasdóttir trónir á toppnum með 24 leiki rétta.
Það kemur í ljós í dag hverjum Joey mætir í næstu umferð.