Keflavíkurkonur þekkja ekkert annað en að stefna á alla titla
„Þetta er skemmtileg áskorun, það er í raun ekki hægt að gera betur en í fyrra þar sem liðið vann alla titla sem voru í boði,“ segir þjálfari kvennaliðs Keflavíkur, Friðrik Ingi Rúnarsson. Frikki er gamall refur í bransanum, hefur þjálfað meistaraflokk síðan í kringum 1990 og var byrjaður fyrir 40 árum að þjálfa ungviðið í Njarðvík, þaðan sem hann er. Hann hefur þjálfað karlalið Njarðvíkur, Keflavíkur, Grindavíkur, KR og ÍR, hann hefur þjálfað kvennalið Njarðvíkur og tekur núna við nágrannakonunum hinum megin við bæjarmörkin. Frikki segir gaman hversu margir reyndir þjálfarar eru komnir í kvennaboltann og á von á jöfnu og skemmtilegu móti.
„Það er gaman að vera kominn aftur í baráttuna, síðast tók ég við karlaliði ÍR tímabilið 21–22 og stýrði þeim frá fallsæti og hefði getað haldið áfram með liðið en fjölskylduaðstæður buðu ekki upp á það. Þegar Keflavík hafði samband í vor þá þurfti ég í raun ekki langan umhugsunarfrest. Það er skemmtileg áskorun að taka við liði sem vann allt sem í boði var á síðasta tímabili og því ekki hægt að gera betur, ég tek við frábæru búi af Sverri Þór og hlakka mikið til vetrarins.
Ég fylgist alltaf vel með og hef alltaf þegar ég hef ekki verið að þjálfa, verið að spá og spekúlera í körfubolta. Ég horfi mikið á íþróttina og er þá með skrifblokk við höndina og punkta niður og ég á marga vini og kunningja í sportinu, bæði hér heima og erlendis og fæ að fylgjast með þeirra störfum svo ég er mjög vel inni í málum. Íþróttin hefur tekið miklum breytingum frá því að ég byrjaði að þjálfa, hér áður fyrr var þetta ósköp einfalt, tveir stærstu leikmennirnir voru settir niður á blokkina nálægt körfunni og voru þar en í dag er nánast gerð sú krafa að allir leikmenn geti skotið fyrir utan þriggja stiga línuna. Það var nánast litið á það sem glæp hér áður fyrr ef miðherjinn skaut fyrir utan. Þetta hefur opnað leikinn mikið og gert hann skemmtilegri að mínu mati en auðvitað eru þeir til sem fannst leikurinn skemmtilegri eins og hann var.“
Óárennilegt Keflavíkurlið
Líklega er ekki góð tilhugsun fyrir andstæðinga Keflvíkinga að þær halda nánast óbreyttu liði sem vann allt sem var í boði á síðasta tímabili.
„Ég held sama kjarna en Birna Benónýsdóttir verður frá allt þetta tímabil, hún er að jafna sig eftir krossbandsslit. Fyrirliði liðsins í fyrra sem þurfti að hætta þar sem hún gekk eigi kona einsömul, Katla, er byrjuð að lyfta og koma sér í stand svo ég á von á henni einhvern tíma í vetur en þar fyrir utan eru allir sömu Íslendingarnarir auk þess sem ungar og efnilegar stelpur bætast inn í hópinn. Daniella Wallen fannst rétt að segja þetta gott eftir síðasta tímabil enda ekki hægt að enda betur, hún átti frábær ár með Keflavík en ég náði vonandi að fylla hennar skarð með nýjum bandarískum leikmanni. Jasmine Dickey var valin af Dallas Wings í WNBA og spilaði 34 leiki með liðinu, spilaði svo á Ítalíu og var í Ástralíu í fyrra og varð meistari með Southside Flyers. Ég held að þetta sé hörku leikmaður og vænti mikils af henni. Við erum að leita að Bosman-leikmanni í stað Elisu Pinzan sem er leikstjórnandi, ég er að líta eftir leikmanni í sömu stöðu. Við höfum náð að leysa það í æfingaleikjum að undanförnu en viljum styrkja okkur í þessari stöðu.
Ég held að mótið í ár verði mjög jafnt en mörg lið ætla sér stóra hluti. Við erum með lið eins og Val og Hauka sem hafa unnið titla á undanförnum árum, þau ætla sér stærri hluti, það er mikill metnaður í Grindavík og svona mætti nánast telja upp öll liðin. Gaman að sjá alla þessa reyndu þjálfara eins og Einar Árna með Njarðvík, Israel Martin með Tindastól og fróðlegt verður að fylgjast með Brynjari Karli og hans konum í Aþenu, ég hlakka mikið til vetrarins,“ sagði Frikki að lokum.