Skólaslit
Skólaslit

Íþróttir

Keflvíkingar stefna alltaf í hæstu hæðir
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 3. október 2024 kl. 07:00

Keflvíkingar stefna alltaf í hæstu hæðir

„Keflvíkingar þekkja ekkert annað en stefna á að bæta titlum við í titlasafnið, það verður engin stefnubreyting fyrir þetta tímabil,“ segir þjálfari karlaliðs Keflavíkur í Bónusdeild karla, Pétur Ingvarsson en hann skilaði bikartitli á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari liðsins í fyrra og fór í oddaleik í undanúrslitum Íslandsmótsins á móti Grindavík. Margir hugleiða eflaust hvernig sú rimma hefði farið ef Bandaríkjamaður Keflavíkur, Remy Martin, hefði ekki slitið hásin í fyrsta leiknum en Keflvíkingar létu það áfall ekki á sig fá og gáfu Grindvíkingum hörku seríu en þurftu að sætta sig við tap í oddaleiknum. Keflvíkingar ætla sér stóra hluti á komandi tímabili.

Á síðasta tímabili kölluðu aðdáendur andstæðinganna einn leikmanna Keflavíkur „pabbastrák“ en Sigurður er yngri sonur Péturs og átti frábært tímabil með Keflvíkingum. Í vetur þurfa andstæðingarnir að kalla „pabbastrákar“ þar sem eldri sonurinn, Hilmar, er kominn í Keflavíkurbúninginn en hann reyndi fyrir sér í atvinnumennsku í Þýskalandi á síðasta tímabili.

„Spurning hvort ég sé rétti aðilinn til að meta son minn, ég myndi líklega vilja fá hann þótt hann gæti ekkert en að öllu gríni slepptu þá er Hilmar landsliðsmaður og á pottþétt eftir að styrkja okkur í vetur. Svo fengum við Jarelle Reischel sem er Þjóðverji, lék með Bremerhaven síðustu þrjú tímabil og skilaði góðum tölum en hann er um tveggja metra framherji. Wendell Green jr. kemur svo í staðinn fyrir Remy Martin, hann er leikstjórnandi eins og Remy og er að hefja sitt annað tímabil sem atvinnumaður. Hann var í Serbíu á síðasta tímabili og hefur verið í dóminíska lýðveldinu í sumar svo hann kemur í góðu formi. Þetta er lítill og snaggaralegur leikmaður sem ég bind vonir við í vetur. Ég er bara nýlega búinn að fá allan hópinn saman og við höfum ekki spilað neina æfingaleiki til þessa en ég reyndi að finna leikmenn sem passa inn í það sem ég vil gera. Það sem ég hef séð til þessa lofar góðu. Fyrir utan Remy þá missum við Urban Oman og Danero Thomas.“

Bílakjarninn
Bílakjarninn
Sterkustu nýliðar sögunnar?

Elstu menn muna ekki aðra eins nýliða eins og eru í úrvalsdeild karla í körfu fyrir þetta tímabil, KR og ÍR eru bæði með talsvert ríkari körfuboltasögu en liðin sem féllu, Hamar og Breiðablik. Pétur á von á enn jafnari keppni en var í fyrra.

„Ég þarf ekkert að segja þér hvað markmið Keflavíkur er, hér á bæ er stefnan alltaf sett á titla og það verður engin stefnubreyting í ár. Í fljótu bragði koma Íslandsmeistarar Vals upp í hugann og Tindastólsmenn ætla sér sömuleiðis stóra hluti en það er mikill metnaður í gangi hjá öllum liðum en ljóst að það geta ekki allir unnið. Með fullri virðingu fyrir Hamri og Breiðabliki, þá erum við að fá mun sterkari nýliða í deildina í ár og ég á von á að deildin verði mjög jöfn og skemmtileg

Ég er ánægður með hópinn minn en kór verður aldrei góður ef allir syngja í sínu horni, nú er verkefnið að fá samhljóm og ef það tekst þá verðum við í góðum málum,“ sagði Pétur að lokum.