Keflvíkingurinn Sveindís Jane Jónsdóttir er ánægð í atvinnumennskunni: „meganæs“
Undanfarin misseri hafa verið viðburðarrík í lífi keflvísku knattspyrnukonunnar og leikmanns íslenska landsliðsins Sveindísar Jane Jónsdóttur. Hún samdi við þýska stórliðið Wolfsburg í lok síðasta árs og var í framhaldinu lánuð til Kristianstad sem leikur í sænsku úrvalsdeildinni. Þar hefur hún hlotið dýrmæta reynslu og hefur skorað sex mörk í sautján leikjum. Víkurfréttir tóku tal af Sveindísi þar sem hún var stödd á Íslandi vegna leikja íslenska landsliðsins en senn líður að því að hún færi sig yfir til Þýskalands.
Hvernig fer um ykkur í Svíþjóð, eruð þið búin að koma ykkur vel fyrir?
„Það er meganæs í Svíþjóð. Ég get ekki kvartað yfir neinu og finnst bara gott að vera hérna.“
Hvernig finnst þér svo að vera atvinnumaður?
„Eins og ég sagði, þetta er meganæs. Það hefur líka gengið vel að falla inn í hópinn, margir Íslendingar hér og þá hefur Sif hjálpað mikið til,“ segir Sveindís sem segist líka vel að vera orðin atvinnumaður. Hún segir lífernið henta sér fullkomlega og það séu bara spennandi tímar framundan.
Hvernig er venjulegur dagur hjá ykkur, hvað gerir þú fyrir utan að æfa og spila fótbolta?
„Mjög lítið eiginlega,“ svarar Sveindís og hlær. „Við æfum seint á daginn, byrjum æfingar um þrjúleytið, svo ég fer oft í ræktina fyrri partinn. Ekkert í neina kraftþjálfun, meira svona fyrirbyggjandi æfingar eins og styrkja svæðið í kringum hnén.
Ég þarf svo sem ekkert að hafa neitt fyrir stafni, chilla eitthvað bara. Svo prjóna ég rosalega mikið, ég get alveg gleymt mér við það að prjóna. Það fer mér voðalega vel að prjóna og chilla.“
Saknar einskis
Nú þegar draumurinn um að verða atvinnumaður er búinn að rætast, hvers saknarðu þá mest fyrir utan fjölskyldu og vina?
„Fyrir utan fjölskyldu og vina?“ Sveindís andvarpar: „Úff ... eiginlega einskis. Í alvöru talað þá eru það fjölskyldan og vinirnir sem maður saknar mest. Staðurinn Ísland er ekki það sem ég sakna neitt sérstaklega. Ég hef það gott hérna í Svíþjóð en það væri samt voða gott að geta skotist út og hitt vinina eða til að kíkja á fjölskylduna.“
Sigurður Ingi Bergsson, kærasti Sveindísar, flutti með henni til Svíþjóðar og aðspurð um hvað hann hafi fyrir stafni þar segir Sveindís að hann sé m.a. með nokkra einstaklinga í einkaþjálfun í ræktinni.
„Siggi, hann gerir eiginlega ekki neitt,“ segir hún og skellir upp úr. „Nei, hann er með nokkra í einkaþjálfun og einn þeirra rekur sendingafyrirtæki þar sem hann hleypur í skarðið þegar vantar í útkeyrslu.“ Siggi, sem lék fótbolta m.a. með Víði Garði, prófaði að æfa með knattspyrnuliði í Kristianstad en hann fann sig ekki þar.
„Hann æfir bara með mér og tekur stundum þátt í æfingum með okkur í Kristianstad, þegar við erum með tvö ellefu manna lið. Elísabet vill frekar fá stráka sem eru sterkari og hlaupa hraðar en við,“ segir Sveindís.
Finnst þér þú hafa tekið framförum, fótboltalega séð?
„Já, ég myndi segja það. Annað væri eitthvað skrítið, miðað við gæðin á þjálfurunum og liðsfélögunum hérna. Ég hef 100% bætt mig en ég á margt ólært svo það er pláss fyrir miklu meiri bætingu.“
Dýrmæt lexía
Sveindís stimplaði sig inn í sænsku úrvalsdeildina strax í fyrstu umferð þegar hún skoraði eina mark Kristianstad í jafnteflisleik, í næsta leik lagði hún upp mark og skoraði sjálf í 2:1 sigri liðsins. Það var því áfall þegar Sveindís varð fyrir meiðslum í þriðju umferð deildarinnar og var borin af velli, var jafnvel talið að hún hefði slitið krossbönd eða eitthvað álíka og útlitið var ekki gott hjá knattspyrnukonunni ungu sem var rétt að hefja sinn atvinnumannaferil.
Nú meiddist þú snemma á tímabilinu, var það ekki sjokk?
„Jú, það var rosalegt áfall. Þetta virðist hafa litið verr út en það var í raun og veru. Það voru allir að segja mér að þetta gætu verið slitin krossbönd eða eitthvað svoleiðis. Ég var farin að sjá fram á níu mánuði eða eitthvað svoleiðis frá boltanum. Þetta gerðist á föstudegi og ég komst ekki í myndatöku strax, það var ekki fyrr en á mánudegi að ég fór í myndatöku, svo ég beið alla helgina með kvíðahnút í maganum. Þegar ég loksins komst í myndatöku sást strax að þetta var ekkert alvarlegt – þá brotnaði ég algerlega niður og fór bara að gráta.
Þetta var samt ágæt lexía. Ég gerði mér grein fyrir því að ég þarf að hugsa vel um mig, vera dugleg í ræktinni og hætta að vera löt,“ segir Sveindís en hún talaði um það í viðtali við Víkurfréttir fyrir rétt um ári síðan hvað henni leiddist að hlaupa.
Á leið í þýsku Bundesliguna
Eru forsvarsmenn Wolfsburg í einhverju sambandi við þig, veistu eitthvað um framhaldið?
„Það hefur svo sem ekkert verið mikið samband en fyrr en nú af því að það styttist í að ég flytji þangað. Ég held að þeir hafi bara leyft mér að einbeita mér að því að spila en ég er búin að vera að skoða íbúðir með aðila frá þeim og svo ætlar aðstoðarþjálfarinn hjá Wolfsburg að mæta á næsta leik með okkur til að fylgjast með mér.“
Hvenær ferðu til Þýskalands?
„Það verður í byrjun desember, strax eftir landsliðsverkefnin í nóvember. Svo það er stutt í þetta.“
Þegar ég spyr hvernig þýskunámið gangi hlær Sveindís og segist ekki vera byrjuð enn.
„Þjálfarinn talar nú einhverja ensku svo þetta hlýtur að reddast.“
Lætur ekkert trufla sig og ætlar á HM
Sveindís stimplaði sig rækilega inn í íslenska A-landsliðið í fyrra þegar hún var nálægt því að skora þrennu í fyrsta leik. Hún lék með landsliði kvenna gegn Tékklandi síðasta föstudag þar sem þær íslensku sýndu glimrandi frammistöðu og unnu góðan 4:0 sigur.
Hefurðu trú á að þið farið áfram í sjálfa Heimsmeistarakeppnina?
„Já, ég hef fulla trú á því. HM er klárlega stefnan hjá okkur. Það eru margar í liðinu sem hafa ekki spilað á HM en við eigum góðan séns, fer auðvitað mikið eftir úrslitunum á móti Kýpur [leikur Íslands og Kýpur fór fram á þriðjudag áður en Víkurfréttir fóru í prentun] en við eigum að vinna þann leik ef við náum svipuðum leik og á móti Tékkum. Liðið var frábært í þeim leik.“
Nú var heljarinnar uppákoma í kringum þjálfara liðsins í fyrra og nú er karlalandsliðið undir smásjánni vegna framkomu nokkurra leikmanna þess. Knattspyrnusamband Íslands virðist vera að ganga í gegnum erfiða krísu. Hefur þetta ástand haft áhrif á ykkur leikmennina sem eru valdir til að spila fyrir Íslands hönd?
„Nei, það hefur allavega ekki haft nein áhrif á mig. Mér finnst við leikmennirnir standa fyrir utan þetta og við náum að einbeita okkur að leikjunum. Hópurinn er góður, þjálfarar og leikmenn. KSÍ á í vandræðum en það nær ekki til okkar, leikmannana, ef eitthvað er þá erum við [kvennalandsliðið] bara að fá meiri athygli,“ segir Sveindís að lokum en hún snýr nú aftur til Svíþjóðar þar sem hún klárar tímabilið með Kristianstad áður en hún stígur enn eitt framfaraskrefið og færir sig í þýsku úrvalsdeildina.