Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Sami metnaður kvennamegin og karlamegin hjá Grindavík
Mynd / Ingibergur Þór
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 3. október 2024 kl. 07:00

Sami metnaður kvennamegin og karlamegin hjá Grindavík

„Síðasta tímabil var vonbrigði og við ætlum okkur að gera betur á þessu tímabili,“ segir þjálfari kvennaliðs UMFG í Bónusdeild kvenna í körfuknattleik, Þorleifur Ólafsson. Lalli, eins og hann er kallaður, er að hefja sitt fjórða tímabil með liðið sem hefur vaxið ásmegin allar götur síðan það komst upp í úrvalsdeild árið 2021 en eftir það tók hann við. Í fyrra komst liðið í undanúrslit í bæði bikarnum og í Íslandsmótinu en var óvænt slegið út í bikarnum af Þór frá Akureyri og 0-3 tap gegn Njarðvík í undanúrslitum Íslandsmótsins varð staðreynd.

Talsverðar breytingar eru á leikmannahópnum fyrir komandi tímabil.

„Leikmannahópurinn okkar breytist talsvert. Danielle Rodriguez sem fékk íslenskan ríkisborgararétt á síðasta tímabili ákvað að spila í Evrópu, Alexandra Sverrisdóttir gekk til liðs við Val, Hekla Eik Nökkvadóttir er komin til Bandaríkjanna í háskólaboltann og Dagný Lísa Davíðs-dóttir ætlar að taka sér frí frá boltanum á þessu tímabili vegna anna í vinnu. Við verðum með nýja erlenda leikmenn, fáum hina dönsku Sofie Tryggedson í stað löndu hennar, Söruh Mortensen, fáum Kat-arzyna Trzeciak sem er pólsk og lék með Stjörnunni i fyrra, og Alex Morris kemur frá Bandaríkjunum. Ég bind miklar vonir við þessa erlendu leikmenn og þar fyrir utan fengum við öflugan liðsstyrk í þeim Ísabellu Sigurðardóttur sem lék með Njarðvík í fyrra, Sóllilju Bjarnadóttur sem hefur m.a. leikið sem atvinnumaður í Svíþjóð, og Ragnheiði Björk Einarsdóttur sem lék í fyrra með Breiðabliki og Haukum.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Skemmtileg deild framundan

Lalli er ánægður með metnaðinn sem er kominn í kvennaboltann.

„Það eru mörg lið sem ætla sér stóra hluti og gaman að sjá metnaðinn sem er kominn í kvennakörfuna. Auðvitað kemur Keflavík fljótt upp í hugann, þær unnu allt sem var í boði á síðasta tímabili og litlar breytingar hafa orðið á leikmannahópi þeirra og þær fengu Kana sem var valin í WNBA nýliðavalinu. Þótt Sverrir Þór hætti með liðið þá er enginn aukvisi sem tekur við af honum, ég hlakka til að mæta Friðriki Inga í vetur. Önnur lið eins og Haukar og Valur hafa styrkt sig og Þór frá Akureyri voru sterkar í fyrra, Stjarnan kom skemmtilega á óvart í úrslitakeppninni, þessi lið ætla sér örugglega að byggja ofan á flottan árangur í fyrra. Njarðvíkurkonur verða sterkar með Einar Árna sem þjálfara og það verður gaman að sjá hvernig nýliðunum reiðir af, Aþena með Brynjar Karl í brúnni mun eflaust vekja athygli svo ég held að við getum átt von á skemmtilegu móti.

Það verður fróðlegt hvernig þetta tímabil verður hjá okkur Grindvíkingum en við munum æfa á tveimur stöðum, í Smáranum þar sem við spilum áfram heimaleikina okkar en æfum líka í Kársnesskóla. Blikarnir þurfa að koma öllum sínum flokkum fyrir svo í þessu frábæra samstarfi erum við meira en til í að æfa á tveimur stöðum. Ég vona að Grindvíkingar haldi áfram að koma saman á körfuboltaleikjum, þetta var samverustund okkar í fyrra og engin ástæða til að það haldi ekki áfram. Við erum spennt fyrir vetrinum,“ sagði Lalli að lokum.