Skemmtileg deild framundan í kvennakörfunni
„Við munum einfaldlega spila öðruvísi, nýtum okkur hraðann og hversu góða skotmenn við erum með,“ segir nýráðinn þjálfari kvennaliðs Njarðvíkur í körfuknattleik, Einar Árni Jóhannsson. Segja má að Einar sé kominn hringinn en hann hóf meistaraflokksþjálfun sína árið 2001 með kvennalið Njarðvíkur. Íslensku leikmennirnir í leikmannahópi hans í dag voru ekki fæddar þegar hann hóf þjálfaraferilinn á sínum tíma og í dag er hann að þjálfa dætur samferðarmanna sinna.
Það eru talsverðar breytingar á leikmannahópi Njarðvíkur svo væntingum verður stillt í hóf til að byrja með.
Einar Árni á von á mjög skemmtilegu móti í Bónusdeild kvenna í vetur og segir að mörg lið ætli sér stóra hluti.
„Njarðvík stendur á stórum krossgötum því heimavöllurinn er að færast úr Ljónagryfjunni í Stapagryfjuna í Innri-Njarðvík. Kvennaliðið hefur líka tekið nokkrum breytingum. Á þeim tímapunkti sem ég vissi af áhuga Njarðvíkur voru bæði Jana Falsdóttir og Isabella Ósk Sigurðardóttir í leikmannahópnum en Jana fékk tækifæri á að fara í háskólaboltann í Bandaríkjunum og Ísabella ákvað að spila með Grindavík. Njarðvík tefldi fram fjórum útlendingum í fyrra en vilji var fyrir því að fækka þeim í þrjá og þannig ætlum við að byrja, þrátt fyrir að við missum Jönu og Ísabellu. Það var fljótlega ljóst að við gætum ekki fengið sama Kana því Selena Lott verður að spila annars staðar fram í nóvember. Ég ákvað að fara í þekkta stærð í staðinn, Brittanny Dinkins sem hefur leikið bæði með Keflavík og Fjölni. Emilie Hesseldal kemur aftur og eftir vangaveltur varðandi þriðja útlendinginn, ákváðum við að taka Enu Viso aftur en höfðum hugleitt að taka stærri leikmann fyrst við misstum Isabellu. Við munum bara spila öðruvísi, nýta okkur hraðann og hversu góða skotmenn við eigum, við ætlum að láta á þetta reyna svona og sjá hvernig okkur mun reiða af.
Ég held að mótið í ár verði mjög skemmtilegt, það er fullt af liðum sem ætla sér stóra hluti. Keflavík kemur eðlilega fljótt upp í hugann, frábærlega mannað lið með frábæran þjálfara sem tók við af öðrum frábærum þjálfara. Keflavík er með besta íslenska leikmanninn, Söru Rún Hinriksdóttur og fengu Kana sem hefur leikið í WNBA svo auðvitað eru þær líklegar. Grindavík ætla sér greinilega stóra hluti og svo verða lið sem verður fróðlegt að fylgjast með, t.d. nýliðar Aþenu, það er athyglisvert starf unnið þar en það verða þrír nýliðar í deildinni í ár, Aþena, Tindastóll og Hamar/Þór. Þórsarar frá Akureyri ætla að byggja ofan á gott tímabil í fyrra, Stjarnan sömuleiðis, Haukar hafa styrkt sig og líka Valsarar, ég held við getum gert ráð fyrir mjög skemmtilegu tímabili. Gaman að fá reynda þjálfara í kvennadeildina eins og Friðrik Inga, Israel Martin með Tindastól og Brynjar Karl hjá Aþenu. Það er gaman að sjá hvernig metnaðurinn í þjálfuninni í körfunni hefur vaxið, það er ekki svo langt síðan að við sáum ekki aðstoðarþjálfara í úrvalsdeild karla, í dag eru þjálfarateymin jafnvel orðin þriggja manna og reyndir þjálfarar til aðstoðar.
Ég hlakka mikið til vetrarins, það er spennandi að fara inn í nýtt íþróttahús en þar mun fara mun betur um áhorfendur en í gömlu Ljónagryfjunni, með fullri virðingu fyrir því æðislega íþróttahúsi. Ég hvet stuðningsfólk okkar til að fjölmenna á leiki kvennaliðsins í vetur, þetta eru mjög efnilegir leikmenn sem ætla sér mjög langt og ég lofa að við munum alltaf leggja okkur 100% fram,“ sagði Einar Árni að lokum.