Max 1
Max 1

Íþróttir

Þrír ættliðir Ljónagryfjunnar
Hringnum lokað hjá númer fjórtán í Ljónagryfjunni. Gunnar Þorvarðarson lék fyrsta leikinn sem var spilaður í Ljónagryfjunni, Logi sonur hans átti að spila þann síðasta en það átti eftir að breytast og að lokum féll það í hlut Söru Bjarkar, dóttur Loga og barnabarns Gunnars, að leika kveðjuleikinn. Treyja númer 14 hefur haldist innan fjölskyldunnar. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 11. október 2024 kl. 06:17

Þrír ættliðir Ljónagryfjunnar

Logi Gunnarsson ræddi við Víkurfréttir að loknum síðasta leiknum sem var leikinn í hinu fornfræga vígi Njarðvíkinga, Ljónagryfjunni. Þá áttust við Suðurnesjaliðin Njarðvík og Grindavík í Bónusdeild kvenna og var viðeigandi að kveðjuleiknum skyldi ljúka með sigri Ljónynjanna, 60:54. Við byrjuðum á að spyrja Loga hvernig tilfinning það væri að kveðja Ljónagryfjuna.

„Þetta er svolítið skrítið – en frábært að ná sigri í lokaleik og ég held að ég muni það rétt að karlaliðið náði líka síðasta sigrinum á síðasta tímabili hérna í þessu húsi. Ég hélt reyndar að ég myndi spila síðasta leikinn þegar ég lék síðasta leikinn minn, það var planið,“ sagði Logi. „Þetta er búið að lengjast aðeins en það hlaut að koma að þessu einhvern tímann. Maður byrjaði hérna í leikfimi sex ára.“

Þú talaðir um að þú bjóst við að spila síðasta leikinn hérna og ef mig misminnir ekki þá tókstu hluta af Ljónagryfjunni með þér heim eftir þann leik.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

„Já, félagið gaf mér bita úr húsinu og það er komið upp á vegg heima, merkt mér og númerinu mínu. Plata með nafninu mínu var einmitt sett í staðinn í sama hólf og þetta var tekið úr. Það var mikill heiður, þannig að ég á part af Gryfjunni heima.“

Logi hér með börnunum sínum þegar hann var heiðraður með hluta úr Ljónagryfjunni fyrir lokaleik hans með Njarðvík í lok tímabilsins 2022/2023.

Stórt skref fyrir félagið

Logi segir að sér lítist vel á þá uppgangstíma sem eru framundan hjá körfuknattleiksdeild Njarðvíkur en deildin fékk afhent nýtt og glæsilegt íþróttahús sem kemur til með að leysa Ljónagryfjuna af hólmi.

„Kannski er ég hlutdrægur en þetta er að mínu mati flottasta íþróttahús á Íslandi. Þetta er náttúrulega glænýtt, með allt sem þarf að hafa og aðstaðan til fyrirmyndar. Körfufjöldinn rosalegur miðað við þessar sex körfur sem við höfum hér til að æfa – og þetta á eftir að vera gríðarlega stórt skref fyrir félagið, að vera með þessa aðstöðu og geta boðið iðkendum og öllum upp á betri aðstöðu. Við höfum ekki verið í svo góðum málum með þetta litla hús þó það hafi verið gaman að vera hérna og allt það – en það var kominn tími á að gera þetta aðeins betra.“

Nú ert þú búinn að vera viðloðandi þetta hús í ansi mörg ár, byrjar hér í leikfimi sex ára. Hvað stendur upp úr á þessum langa tíma?

„Sko, ég kem náttúrulega á æfingar hérna með pabba mínum sem þjálfaði Njarðvíkurliðið í mörg ár og það er skemmtilegt að segja frá því að hann spilaði fyrsta leikinn í þessu húsi og nú var dóttir mín að spila þann síðasta – þannig að það er mikil tenging og margar minningar af sigrum og töpum. Ég man bara eftir því sem gutti að þá sat ég hérna á handriðinu í oddaleik Njarðvíkur og Keflavíkur, þá var ég tíu ára. Maður man að það lak úr veggjunum, það var svo heitt hérna inni. Ég held að það hafi verið næstum því þúsund manns á þessum leik, veit ekki hvort það er satt en það var setið upp um alla veggi og opinber tala á þessum leik er 1.001.“

Sara Björk sækir að körfunni í kveðjuleiknum gegn Grindavík.

Logi segir að stemmningin í Ljónagryfjunni sé gríðarleg og það sé ólýsanlegt að hafa spilað þar. „Fyrir framan alla sem maður þekkir og maður þekkir öll andlit í stúkunni. Það var sérstakt og það myndast stemmning sem ég held að sé erfitt að finna í öðrum húsum.“

Viðtalið við Loga má sjá í spilaranum hér að neðan.