Safnahelgi
Safnahelgi

Mannlíf

Besta listaverkið er eftir
Helgi með Gunnari á Hlíðarenda.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 20. október 2024 kl. 07:00

Besta listaverkið er eftir

Helgi Valdimarsson í Garði hefur gert 98 skúlptúra og er með pöntun á því 99. Er hvergi nærri hættur og ætlar alla vega að gera hundrað.

„Ég byrjaði á höggmyndalist í kringum 2010, er búinn að gera 98 skúlptúra og er alls ekki hættur, besta verkið er alltaf eftir,“ segir höggmyndalistamaðurinn Helgi Valdimarsson en hann er að taka þátt í sýningu í Norræna húsinu ásamt öðru listafólki og var vörubíll í hlaðinu að sækja fimm verk þegar blaðamann bar að garði. Það sjötta gat Helgi flutt sjálfur í sínum bíl en stærsta og þyngsta verkið sem Helgi hefur gert, af Ingólfi Arnarsyni, vegur um tvö tonn.

Helgi hefur búið í Garði síðan 2007 og hefur líka búið í Vogunum þar sem hann vann sem bílasprautari en hann var ungur að árum þegar hann lærði myndlist í Bandaríkjunum.

„Ég lærði myndlist hjá ítalskri konu í Bandaríkjunum og sótti mér svo meiri fróðleik hér á Íslandi en svo sneri ég mér alfarið að svona höggmyndalist í kringum 2010. Ég steypi allt sjálfur, nota engin mót og mála öll verkin með hvítri málningu, ætli það sé ekki komið undan áhrifum frá Ásmundi Sveinssyni, myndhöggvara en hann var sveitungi móður minnar, ég sá mörg verka hans þegar ég var ungur gutti. Ég fæ hugmyndirnar af verkunum oftast að ofan, ég vinn öll verkin fríhendis, þ.e. ég styðst ekki við neinar teikningar. Ég sé verkið fyrir mér áður en ég byrja og klára það þannig. Stundum fæ ég líka óskir um að gera verk og reyni að verða við þeim, t.d. er kylfingurinn við 18. flötina á Hólmsvelli í Leiru unnið eftir pöntun.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Ég vinn verkin venjulega inni í bílskúr en ef það er gott veður get ég verið úti að steypa. Ég er á leiðinni til Bandaríkjanna í nóvember. Ég hef fengið beiðni um að gera verk sem á að vera við sundlaug, það á að vera sporður af hval sem verður við sundlaugina, eins og hvalurinn sé að kafa ofan í hana. Það verk verður nú ekki tilbúið fyrr en næsta sumar líklega en ég er hvergi af baki dottinn, verkin eru orðin 98 og eiga eftir að verða fleiri, ég á eftir að gera mitt besta verk,“ sagði Helgi að lokum.

Kylfingurinn sómir sér vel við 18. flötina á Hólmsvelli í Leiru.

Verkin sem fóru þennan dag á sýningu á Norræna húsinu.