Mannlíf

Sjáið flottustu garðana í Grindavík
Laugardagur 12. september 2020 kl. 07:47

Sjáið flottustu garðana í Grindavík

Umhverfisverðlaun Grindavíkurbæjar fyrir árið 2020 voru afhent í Kvikunni við látlausa athöfn að þessu sinni, í takt við tíðarandann, nú á dögunum. Umhverfisverðlunin eru veitt annað hvert ár og er það eftir ábendingar frá bæjarbúum sem nefndarfólk í umhverfis- og ferðamálanefnd fer í vettvangsferð og skoðar garðana sem tilnefndir eru. Dómnefnd umhverfisverðlaunanna, umhverfis- og ferðamálanefnd, hafði úr vöndu að ráða í ár því garðarnir sem tilnefndir voru voru hver öðrum glæsilegri. Eftirfarandi garðar hlutu viðurkenningar í ár en auk þeirra hlaut fyrirtækið Kristinsson - handmade verðlaun fyrir velheppnaða nýbyggingu.

Falleg nýbygging

Kristinsson handmade

Viðurkenningu fyrir vel heppnað húsnæði sem byrjað var að reisa vorið 2019 fær fyrirtækið Kristinsson – handmade.  Sjálfur hefur Vignir Kristinsson, eigandi hússins, haft veg og vanda að uppbyggingu þess. Einstaklega skemmtilegt og fallegt hús í anda gömlu pakkhúsanna. Með byggingunni varð umhverfi svæðisins þéttara og skemmtilegra og óhætt að segja að húsið sómi sér vel við hliðina á Salhúsinu sem er bjálkahús.

Austurhóp 6

Garðurinn hjá Ólafíu Jensdóttur og Vigni Kristinssyni. Mjög skemmtilegur lokaður bakgarður þar sem óhreyfð náttúran og hraunið fá að njóta sín. Lítil tjörn er í bakgarði og yfir sumartímann eru það gullfiskar sem hafa hlotið mikla athygli þeirra sem þangað hafa komið.



Ólafía Jensdóttir og Vignir Kristinsson.

Ránargata 6

Garðurinn hjá Evu Björg Sigurðardóttur og Rafni Arnarssyni. Ábending barst um sérlega fallegan og skemmtilegan bakgarð. Að koma á bak við húsið var eins og að detta inn í aðra veröld. Garður tekinn niður að aftan, falleg tré, hleðslur, útihúsgögn með markísu og barnakofi. Nefndin var sammála um að hér væri um að ræða virkilega fallegt og snyrtilegt umhverfi þar sem bæði börn og fullorðnir fá að njóta sín.

Eva Björg Sigurðardóttir og Rafn Arnarsson.

Ránargata 8

Garðurinn hjá Birni Kjartanssyni og Elínu Björgu Birgisdóttur. Skemmtilegur garður, lokaður af og vel hirtur. Augljóst að barnabörnin geta notið sín í vel lokuðum garði þar sem rólur, rennibraut og karfa eru í boði.



Alexander Björnsson og Björn Kjartansson.

Borgarhraun 11

Garðurinn hjá Fanneyju Pétursdóttur og Sigurði Jónssyni. Virkilega skemmtilegur og fallegur garður sem augljóslega mikil vinna hefur verið lögð í. Skemmtilegt skipulag, einfaldur og snyrtilegur.

Fanney Pétursdóttir og Sigurður Jónsson.