Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Alþingi lætur skoða ­uppgjör eigna SpKef
Föstudagur 14. maí 2021 kl. 10:54

Alþingi lætur skoða ­uppgjör eigna SpKef

Alþingi samþykkti fyrir skömmu í atkvæðagreiðslu tillögu undirritaðs um að gerð verði skýrsla um forsendur og afleiðingar af samningi ríkisins um yfirtöku Landsbankans á rekstri, eignum og skuldbindingum SpKef sparisjóðs með ríkisábyrgð.

Kostnaður ríkissjóðs 25 milljarðar vegna gjaldþrots Sparisjóðsins

Hinn 22. apríl 2010 tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðsins í Keflavík til SpKef sparisjóðs. Var þetta gert í þeirri viðleitni að forða innlánseigendum frá því að tapa fé við gjaldþrot sparisjóðsins. Íslenska ríkið stofnaði svo sparisjóðinn SpKef. Í mars 2011 tók Landsbankinn yfir rekstur, eignir og skuldbindingar SpKef sparisjóðs með þeim hætti að SpKef var sameinaður Landsbankanum. Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar nam kostnaður ríkisins, að teknu tilliti til vaxta, samtals 25 milljörðum króna vegna SpKef.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvert var eignum SpKef ráðstafað og á hvaða verði?

Ríkissjóður skuldbatt sig til að greiða (ábyrgjast) Landsbankanum þann mun sem var á verðmæti yfirtekinna eigna og skulda. Í ljósi alls þessa þá skiptir það ríkissjóð og skattgreiðendur miklu að fá upplýsingar um hvert var tjón Landsbankans, m.a. hvert var hið raunverulega tjón Landsbankans og hvernig var eignaumsýslu Landsbankans háttað, þ.e. hvert var yfirteknum eignum vegna SpKef ráðstafað og á hvaða verði.

Jafnframt skiptir miklu máli að fyrir liggi hvaða upplýsingar voru þegar til staðar um eiginfjárstöðu og lausafjárvanda Sparisjóðs Keflavíkur þegar svo afdrifaríkar ákvarðanir um ráðstöfun fjármuna úr ríkissjóði voru teknar. Skýrslan á að upplýsa um lán SpKef til fyrirtækja, verðmat þeirra og verðmæti, sem og verklag Landsbankans við ráðstöfun eigna og eftirlit ríkissjóðs, sem ábyrgðaraðila.

Fyrir liggur að Alþingi kom á fót rannsóknarnefnd sem ætlað var að rannsaka aðdraganda og orsök erfiðleika og falls sparisjóðanna. Nefndin var skipuð í ágúst 2011 og skilaði skýrslu í apríl 2014. Verkefni rannsóknarnefndarinnar var að rannsaka aðdraganda og orsök erfiðleika og falls sparisjóðanna en henni var ekki falið að rannsaka hvernig úrvinnslu eigna sparisjóðsins var háttað. Þá tók rannsóknarnefndin ekki á því hvert endanlegt tjón ríkissjóðs var af ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðsins í Keflavík og SpKef sparisjóðs eða eignaumsýslu Landsbankans. Skýrslan á meðal annars að varpa ljósi á þessa mikilvægu þætti.

Skýrslubeiðnina má nálgast hér:

https://www.althingi.is/altext/151/s/1245.html

Birgir Þórarinsson.
Höfundur er þingmaður
Miðflokksins og situr í
fjárlaganefnd Alþingis.