Samkaup
Samkaup

Aðsent

Kjósum Suðurnesjakonu og skólafrömuð
Föstudagur 29. nóvember 2024 kl. 12:01

Kjósum Suðurnesjakonu og skólafrömuð

Með því að kjósa Hólmfríði Jennýjar Árnadóttur fáum við tvöfaldan vinning. Hún er ein örfárra Suðurnesjabúa í framboði í fyrsta sæti og hún er fjölhæf og fær skólamanneskja, en á næsta kjörtímabili mun mikið reyna á reynslu og hæfni á  því sviði.

Hólmfríður ólst upp í Grenivík og vann lengi á Akureyri, bæði við leikskóla og háskólann þar. Hún flutti síðan á Suðurnes, var farsæll skólastjóri í Sandgerði 2016-2022, vann sem deildarstjóri Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands 2022-2024 og tók við stöðu leikskólastjóra á Holti í í Njarðvík í maí og starfar þar nú. Maðurinn hennar, Hannes Jónsson, er úr Sandgerði.

Í síðustu kosningum vantaði Hólmfríði 7 atkvæði til að komast á þing. Látum slíkt ekki gerast aftur. Hún á brýnt erindi á þing.

Ekki spillir að þau sem yrðu varaþingmenn Hólmfríðar eru afbragðsfólk; Pálína Axelsdóttir Njarðvík, sveitastelpa og sálfræðingur úr Árnessýslu, Þormóður Logi Björnsson, aðstoðarskólastjóri Akurskóla og Helga Tryggvadóttir, þrautreynd skólamanneskja bæði úr Vestmanneyjum og Suðurnesjum.

Vöndum valið á laugardaginn. Það skiptir máli hverjir stjórna landinu! Stjórnmál eru alvörumál.

Þorvaldur Örn Árnason.