Hvers á bókasafnið að gjalda?
Á árum áður brá fátæk þjóð, sem þyrsti í fróðleik og menntun, til þess ráðs að kaupa saman bækur og skiptast á að nota. Þannig urðu til lestrarfélög í eigu almennings, síðar komu yfirvöld að málum og stofnuð voru bókasöfn í eigu samfélagsins með sama tilgangi og áður, að eiga saman og skiptast á að nota og efla þannig aðgang allra að fróðleik, menntun og afþreyingu. Fjölbreytni í þessari samneyslu hefur aukist með árunum og nú er algengt að boðið sé upp á úrval annarra hluta á bókasöfnum en bóka til afnota s.s. plokktangir, kökuform og jafnvel borvélar auk aðgangs að saumavélum svo eitthvað sé nefnt. Allt er þetta liður í að minnka óþarfa eyðslu og stuðla að sjálfbærara samfélagi.
Bókasafn Reykjanesbæjar er orðið að pólitísku þrætuepli að ósekju. Aðalástæðan fyrir þessum fyrirhugaða flutningi safnsins í Hljómahöll er þrengsli í vinnuaðstöðu starfsfólks bæjarins að Tjarnargötu 12. Aukinn íbúafjöldi kallar á fleira starfsfólk og hlú verður að öllum starfsmönnum bæjarins hvar sem þeir vinna.
Eins og það væri nú gaman að eignast góða menningarmiðstöð sem gæti samnýtt húsnæði og aðstöðu fyrir ólíka starfsemi og viðburði þá verður það ekki gert af skynsemi með því að ganga á það sem þegar hefur verið byggt upp. Hvet ég því bæjaryfirvöld að finna aðra lausn, sem meiri sátt er um, bókasafninu og annarri starfsemi í Hljómahöll til heilla.
Hulda Björk Þorkelsdóttir
íbúi í Reykjanesbæ.