Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Aðsent

Gleymum ekki Grindavík
Fimmtudagur 14. nóvember 2024 kl. 07:25

Gleymum ekki Grindavík

Nú þegar kosningabaráttan er komin á fullt er hætt við að ýmis stór mál falli milli skips og bryggju. Þrátt fyrir að nauðsynlegt sé að klára ákveðin mál fyrir þinglok, svo sem eins og eitt stykki fjárlög, þá eru þingmenn komnir á fullt í kosningabaráttu og dreifðir um allt land. Sem betur fer virðist þó ríkur vilji til að klára mikilvæg verkefni sem snúa að Suðurkjördæmi, t.d. fjármögnun Ölfusárbrúar og framlengingu á úrræðum fyrir fólk og fyrirtæki í Grindavík.

Mikilvægustu málin sem snúa að Grindavík er framlenging á svokölluðum rekstrarstyrkjum. Þeir  eiga að renna út um áramót, rétt eins og húsaleigustyrkir sem hafa hjálpað mörgum sem þurftu að flýja heimilin sín án nokkurs fyrirvara. Margir hafa náð að koma sér fyrir á eigin vegum en stór hópur fólks er enn í vanda. Þá hefur verið kallað eftir því að Þórkatla veiti fólki aukin frest til að ákveða sölu til félagsins.

Þórkatla

Frá því að félagið Þórkatla var stofnað hefur því verið haldið fram að lögin um félagið yrðu túlkuð vítt en það eru því miður margir sem hafa upplifað hið gagnstæða.

Sem dæmi þá veit ég um konu sem mun þurfa að flytja aftur til Grindavíkur með börnin sín miðað við óbreytt ástand þar sem um íbúð sem hún fékk í arf nokkrum vikum fyrir 10.nóvember gilda ekki sömu reglur og aðrar íbúðir. Þessi kona hafði ekki ætlað að búa í þeirri íbúð og íbúðin sem hún átti og seldi var svo skuldsett að hún getur ekki tekið annað lán.

Einnig eru dæmi um ellilífeyrisþega sem seldu stórt fjölskylduhúsnæði og keyptu litla íbúð en við söluna fengu þau minna einbýlishús upp í. Þau eru að fá ellilífeyri og hafa ekki efni á að reka húsnæði utan Grindavíkur og greiða af húsinu sem er í Grindavík og gætu því neyðst að flytja til Grindavíkur aftur gegn vilja sínum. Svo eru einnig dæmi um synjanir þegar foreldrar eiga íbúðir sem börnin þeirra búa í, börn eiga íbúðir sem foreldrar þeirra búa í, þegar fólk hefur eignast aukaíbúð þar sem íbúð var tekin upp í við fasteignaviðskipti og þegar íbúð hafði verið afhent úr dánarbúi skömmu fyrir 10.nóvember.

Grindavíkurnefndin

Grindavíkurnefndin svokallaða opnaði sveitarfélagið fyrir almenningi þann 21. október sl. og hefur sú opnun gengið vel. Nefndin er einnig að leggja til ýmsar gagnlegar breytingar sem meðal annars snúa að Þórkötlu en einnig að rekstri sveitarfélagsins. Það liggur fyrir að í tímaþröng fyrir kosningar verður ekki mikið hægt að gera en það mun koma í hlut nýrrar ríkisstjórnar að grípa þessa bolta og gera það bæði hratt og vel.

Staða smærri fyrirtækja í Grindavík

Flest smærri fyrirtæki í Grindavík hafa ekki getað haldið úti starfsemi í heilt ár og það sjá það allir að sú staða er ekki ásættanleg. Mörg þessara fyrirtækja eru hreinlega girt af og mega ekki halda úti starfsemi. Önnur byggja afkomu sína á því að íbúar séu til staðar og það gefur því augaleið að rekstrargrundvöllur þessara fyrirtækja er farinn. Eigendur þessara fyrirtækja hafa ítrekað óskað eftir uppkaupum en á það hefur ekki verið hlustað. Uppkaup munu að sjálfsöguðu kosta talsverða fjármuni en í stóra samhenginu eru þessar upphæðir ekki háar.

Staða Grindavíkurbæjar

Fjárhagsleg staða Grindavíkurbæjar var mjög sterk fyrir þessa atburði alla sem hófust fyrir ári síðan með engar vaxtaberandi skuldir. Nú eru tekjur sveitarfélagsina að mestu leyti horfnar, íbúarnir flestir búnir að skrá lögheimili sitt annars staðar og Þórkatla greiðir ekki fasteignagjöld til sveitarfélagsins eins og íbúarnir gerðu. Þá mun framlag frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga einnig hverfa.

Sveitarfélagið þarf eftir sem áður að standa við skuldbindingar sínar.

Þessi sviðsmynd sem er að teiknast upp mun gera að verkum að þrátt fyrir góða stöðu gæti komið til greiðslufalls hjá sveitarfélaginu seint á næsta ári, verði ekki brugðist við.

Þetta er ekki búið

Það er því ljóst að þrátt fyrir að ýmislegt hafi verið gert til að standa með samfélaginu í Grindavík  er verkefninu hvergi nærri lokið. Yfir okkur vofir nýtt eldgos og algjörlega óljóst hvenær þessum atburðum líkur. Ný ríkistjórn, hver sem hún verður, þarf að taka við þessum verkefnum af festu og helst að skrifa inn í nýjan stjórnarsáttmála að úr þessu verði leyst.

Þannig sýnum við í verki að við stöndum með Grindvíkingum.

Guðbrandur Einarsson
þingmaður Viðreisnar í Suðurkjördæmi