Hljómahöll, óbærilegur fáránleiki meirihlutans
Fjölmennur hópur íbúa í nágrenni Hljómahallar mótmælti fyrirhuguðum geymslum á lóð hússins sem þrengt hefðu verulega að opnu svæði á milli húsa og gönguleið. Í skýrslu verkefnisstjóra um flutning bókasafnsins í Hljómahöll var skýrt tekið fram að megin forsenda þess að verkefnið gengi upp, væri bygging geymsluhúsnæðis á lóð Hljómahallar. Húsnæðið er sem sagt ekki nógu stórt til að hýsa bókasafn, tónlistarskóla og rokksafnið (þó rokksafnið verði í mýflugumynd). Megin forsendan er nú brostin og ekki til neitt plan B.
Að eingöngu sé vísað til viðbótar húsnæðis á lóð sem “geymsluhúsnæðis” er reyndar beinlínis rangt, þar sem ljóst hefur verið frá upphafi að tónlistarskólanum er sniðinn það þröngur stakkur í þessum breytingum að þær “geymslur” sem honum voru ætlaðar á lóð, þyrfti að nýta sem vinnuaðstöðu starfsfólks.
Í Hljómahöll eru hagsmunir þeirra tveggja stofnana sem fyrir voru fótum troðnir, sérstaða þeirra og framtíðarsýn eru ekki tekin með í reikninginn. Við höfum ítrekað rætt gildi og möguleika Rokksafnsins og hlutverk þess við að laða að stórar ráðstefnur, árshátíðir og aðra viðburði.
Styrkur og sérkenni Tónlistarskóla Reykjanesbæjar hefur um áratuga skeið falist í samspili og öflugu hljómsveitastarfi, svo eftir er tekið. Eftir langa sögu tónlistarskólans í lélegu húsnæði, var Hljómahöllin hönnuð og byggð að hluta í kring um skólann sem tengist hinni sterku tónlistarsögu- og menningu sveitarfélagsins órjúfanlegum böndum.
Með þessum breytingum á húsnæðinu missir tónlistarskólinn sjö rými til bókasafnsins. Þar á meðal eru æfingaaðstaða nemenda, meðal annars þeirra sem ekki búa svo vel að eiga hljóðfæri heima, námsgagnasafn skólans (sem var á teikningum verkefnahópsins ranglega tilgreint sem geymsla, þrátt fyrir ábendingar starfsfólks), og vinnuaðstaða kennara verður hvorki fugl né fiskur.
Innan skólans starfa hátt í 40 kennarar samtímis við kennslu, meiri hluta vikunnar. Það væri forvitnilegt að vita hversu oft sá gestafjöldi mælist samtímis á bókasafninu, sem þó tekur nú yfir mikið magn fermetra undir allskonar starfsemi sem ekki tengist aðgengi að bókakosti.
Ljóst er að mikillar óánægju gætir á meðal starfsfólks, nemenda, foreldra og fjölda bæjarbúa með þessa framkvæmd. Á meðan þjónusta við nemendur tónlistarskólans er skert, endurtekur meirihlutinn stöðugt að verið sé að auka þjónustu við bæjarbúa með þessum gjörningi.
Við í Sjálfstæðisflokknum höfum ítrekað bent á að vinna þurfi mun betur að og undirbúa ákvörðun um flutning stofnana sveitarfélagsins og taka tillit til allra mögulegra kosta í stöðunni. Engir aðrir kostir hafa verið skoðaðir í þessu tilviki og kostnaðaráætlun bæði ónákvæm eins og sjá má á samþykktum viðbótum við fjárhagsáætlun 2024 og án alls samanburðar við aðrar mögulegar leiðir.
Hvað liggur á?
Mikil tímapressa hefur verið á verkefninu. Rökin fyrir henni, sem meirihlutinn hefur meðal annars notað eru þau, að þar sem leggja á núverandi rými bókasafnsins undir bæjarskrifstofur, þurfi að losa það sem fyrst, enda yfirhalning á ráðhúsinu í heild í gangi.
Þær eru fjölmennar raddir íbúa sem spyrja sig og okkur bæjarfulltrúa þeirrar sjálfsögðu spurningar, að fyrst nemendur og starfsfólk leik- og grunnskólanna hefur getað látið sig hafa það að sinna sínum verkefnum í gámahúsum undanfarin misseri, hvers vegna hefur ekki mátt nýta þá lausn fyrir bæjarskrifstofurnar, eða bókasafnið jafnvel, og vinna betur að heildar framtíðarsýn og uppbyggingu menningarhúsnæðis í sveitarfélaginu? Ætlar meirihlutinn virkilega ekki að stíga eitt skref til baka nú þegar ljóst er að forsendur verkefnisins eru brostnar og engin lausn sjónmáli? Það hlýtur að mega fresta opnun leigumiðlunar með kökuform og aðgengi að saumavélum í Hljómahöll á meðan viðunandi vinnubrögð eru tekin upp.
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins,
Helga Jóhanna Oddsdóttir
Margrét Sanders
Guðbergur Reynisson