Sameining sveitarfélaga á Suðurnesjum
Þriðjudaginn 11. júní 2024 voru liðin 30 á frá því að sveitarfélögin Keflavík, Njarðvík og Hafnir sameinuðust árið 1994 í Reykjanesbæ. Þeirra tímamóta var minnst með margvíslegum hætti allt síðastliðið ár. Bæjaryfirvöld Reykjanesbæjar settu á laggirnar sérstakan afmælissjóð í tilefni afmælisins sem einstaklingar og hópar gátu sótt um styrki í til viðburðarhalds í tengslum við afmælið. Á afmælideginum sjálfum hélt bæjarstjórn Reykjanesbæjar svo hátíðarfund í Hljómahöll þar sem meðal annars voru útnefndir tveir nýir heiðursborgarar; þau Sólveig Þórðardóttir, ljósmóðir, og Albert Albertsson, verkfræðingur. Strax að hátíðarfundinum loknum voru svo haldnir útitónleikar á þaki Hljómahallar þar sem margt af okkar besta fólki kom fram og mikill fjöldi bæjarbúa og gesta mættu til að hlusta og njóta.
Stofnun Reykjanesbæjar markaði ákveðin tímamót í sögu sveitarfélaga á Suðurnesjum. Fyrir sameiningu voru sveitarfélögin á Suðurnesjum sjö talsins þ.e. Keflavík, Njarðvík, Hafnir, Grindavík, Vogar, Garður og Sandgerði en eftir stofnun Reykjanesbæjar voru þau orðin fimm. Þann 10. júní 2018 varð svo til nýtt og öflugt sveitarfélag þegar Garður og Sandgerði sameinuðust í Suðurnesjabæ. Nú eru sveitarfélögin á Suðurnesjum því fjögur talsins og ekki útilokað að þeim fækki enn frekar. Óformlegar viðræður hafa staðið yfir um nokkurt skeið á milli Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar og Sveitarfélagsins Voga um mögulega sameiningu. Grindavík var á sínum tíma boðið að taka þátt í viðræðunum en bæjarstjórn Grindavíkur hafnaði þátttöku. Það var áður en jarðhræringar og eldgos, sem nú standa yfir, hófust.
Næstu skref
Sveitarstjórnir Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar og Sveitarfélagsins Voga samþykktu að lokinni fyrri umræðu að vísa málinu til síðari umræðu. Óvíst er hvenær hún fer fram en verði samþykkt í öllum sveitarstjórnum að fara í formlegar viðræður gera lög ráð fyrir að slíkum viðræðum ljúki með kynningu fyrir íbúa á kostum og göllum sameiningar og í kjölfarið íbúakosningu.
Framlag ríkisins
Áður en síðustu ríkisstjórn var slitið haustið 2024 hafði samtal átt sér stað á milli sveitarfélaganna þriggja annars vegar og stjórnvalda hins vegar um framlag ríkisins til að liðka fyrir mögulegri sameiningu. Það eru mörg dæmi um að ríkið hafi liðkað til í sameiningarviðræðum sveitarfélaga víða um land.
Ríkið er mjög stór landeigandi á Suðurnesjum, meðal annars eftir að hafa tekið land eignarnámi á sínum tíma þegar Keflavíkurflugvöllur og herstöðin á Miðnesheiði urðu að veruleika um miðja síðustu öld, og það land vilja sveitarfélögin á Suðurnesjum fá til baka. Þá telja sveitarfélögin mikilvægt að bæta almenningssamgöngur á milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja annars vegar og á milli allra byggðakjarnanna hins vegar. Almenningssamgöngum á milli sveitarfélaganna og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar er til dæmis mjög ábótavant svo dæmi sé tekið. Nokkur fleiri mál hafa verið kynnt íslenskum stjórnvöldum sem þyrftu að verða hluti af framlagi þeirra inn í sameiningarviðræðurnar svo bæjarstjórnir sæju hag sinn í að halda þeim áfram. Meðal annars að framlög úr Jöfnunarsjóði verði óbreytt í einhver ár ef til sameiningar kemur. Þessar óskir og tillögur verða kynntar nýrri ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur á næstunni. Til að hægt verði að halda áfram með verkefnið þurfa stjórnvöld að bregðast hratt við svo formlegar viðræður á milli sveitarfélaganna geti hafist sem fyrst. Þeim þarf nefnilega að ljúka með íbúakosningu í síðasta lagi á komandi hausti svo hægt verði undirbúa stofnun nýs sameinaðs sveitarfélags fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2026.
Framtíðin björt á Suðurnesjum
Íbúafjölgun á Suðurnesjum hefur verið gríðarleg síðustu 10 ár. Þannig hefur íbúum Reykjanesbæjar fjölgað um 60% á þessu tímabili, úr 15000 í 24000, aðallega vegna mikillar uppbyggingar íbúðarhúsnæðis, hagstæðs íbúðarverðs og mikillar atvinnu á svæðinu. Þá fjölgar þeim sem starfa á höfuðborgarsvæðinu en kjósa að búa á Suðurnesjum í barnvænu samfélagi þar sem eru m.a. góðir skólar og kraftmikið íþrótta- og menningarlíf.
Ef ákveðið verður að sameina Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Voga í eitt rúmlega 30 þúsund manna sveitarfélag verður það stærsta sameining sögunnar fyrir utan sameiningu Reykjavíkur og Kjalarness. Slík sameining myndi að mati undirritaðs leiða til frekari hagræðingar í rekstri og bættrar þjónustu.
Kjartan Már Kjartansson,
bæjarstjóri Reykjanesbæjar