Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Fréttir

Landris heldur áfram á Sundhnúksgígaröðinni en hraðinn minnkað örlítið
Þriðjudagur 21. janúar 2025 kl. 14:31

Landris heldur áfram á Sundhnúksgígaröðinni en hraðinn minnkað örlítið

GPS-mælingar sýna að hraði landriss hefur minnkað örlítið á síðustu vikum en varasamt getur verið að túlka einstaka GPS-punkta. Truflun á þessum árstíma veldur því að breytileiki milli daga er meiri vegna veðuraðstæðna. Í staðinn þarf að horfa á mælingar yfir lengri tíma, en þær sýna áframhaldandi landris. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Atburðarásin er því enn í fullum gangi og er að þróast mjög svipað og fyrir síðustu gos. Samkvæmt líkanreikningum mun rúmmál kviku undir Svartsengi ná neðri mörkum í lok janúar eða byrjun febrúar. Þetta þýðir að það má gera ráð fyrir því að líkur á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni fari að aukast frá þeim tíma.

SENG-plate_since-21012025

Færslur á GPS-stöðinni SENG á Svartsengissvæðinu síðan 11. nóvember 2023 í norður, austur og lóðrétt (efst, miðja, neðst). Neðsti ferillinn sýnir landris í millimetrum, og mælingin í gær (20. janúar) er sýnd með grænum punkti. Rauðu línurnar eru tímasetningar á upphafi síðustu sjö eldgosa (18. desember 2023, 14. janúar, 8. febrúar, 16. mars, 29. maí, 22. ágúst og 20. nóvember 2024). Bláu línurnar tákna tímasetningar kvikuhlaupa sem hafa orðið án þess að hafi komið til eldgoss (10. nóvember 2023 og 2. mars 2024).

Jarðskjálftavirkni frá því að síðasta eldgosi lauk, 9. desember síðastliðinn, þar til dagsins í dag hefur verið mest áberandi í kringum Trölladyngju og aðeins í Fagradalsfjalli, en virknin hefur verið mjög lítil í kringum Sundhnúk og Svartsengi.

Hættumat verður uppfært 28. janúar, að öllu óbreyttu. Það mun taka mið af auknum líkum á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi samkvæmt fyrrnefndri tímalínu.