Umtalsverð fækkun sjúkraflutninga á Suðurnesjum í fyrra
Fæddi barn í sjúkrabíl á Fitjum
Sjúkraflutningum á Suðurnesjum fækkaði um 800 á síðasta ári. Þeir voru um 4.000 talsins á árinu samanborðið við 4.800 árið áður.
Helsta skýringin á þessari fækkun er eldvirkni á Reykjanesskaga, sem hefur haft áhrif á flutninga frá Grindavík, ásamt því að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) hefur styrkt þjónustu sína verulega og dregið úr þörf fyrir flutninga til Reykjavíkur. Þetta kemur fram í samantekt frá Brunavörnum Suðurnesja.
Þegar horft er til alvarleika útkalla og forgangs þá voru 1.200 útköll á síðasta ári á fyrsta og öðrum forgangi, þar sem ekið er með forgangsljósum. Það er mat Neyðarlínu að meta forgang fyrir hvert tilfelli. Útköll á lægri forgangi voru 2.800 talsins.
Brunaútköll á síðasta ári voru alls 234 talsins.
Þrátt fyrir fækkun sjúkraflutninga jókst fjöldi unninna klukkustunda til muna. Alls fóru yfir 5.000 klukkustundir í slökkvistörf á gróðureldum, hraunkælingar og viðveru vegna atburða í Grindavík.
Sjúkraflutningar hjá Brunavörnum Suðurnesja eru orðnir margir strax í byrjun árs 2025. Á aðeins einni viku hafa 140 útköll verið skráð.
Verkefni sjúkraflutingafólks eru einnig fjölbreytt og stundum óvænt. Þannig fæddist stúlkubarn í sjúkrabíl við Fitjar í Njarðvík í síðustu viku. Móður og barni heilsast vel.
Þá má nefna að útköll á dælubíl slökkviliðs eru nú orðin á annan tuginn það sem af er ári.