Búa í Grindavík en guttinn sækir Stapaskóla í Reykjanesbæ
Andleg líðan grindvískra barna æði misjöfn
„Við myndum aldrei dvelja í Grindavík ef við teldum staðinn ekki öruggan,“ segja hjónin Jóhanna Harðardóttir og Ásgeir Magnús Ásgeirsson en þau hafa búið í Grindavík síðan síðasta vor ásamt þremur börnum sínum, Sylvíu Sól, Magnúsi Mána og þeim yngsta, Sindra Snæ en sú elsta, Halldóra Björk, er flogin úr hreiðrinu. Sindri er í níunda bekk í grunnskóla og sækir Stapaskóla í Innri-Njarðvík alla virka morgna, hann vill hvergi annars staðar búa en í Grindavík. Sindri er smeykur um að margir fyrrum sveitunga sinna líði ekki eins vel eins og honum, búandi í Grindavík.
Fjölskyldan lenti eins og líklega allar grindvískar fjölskyldur í kjölfar hamfaranna, í öðruvísi búsetu en vaninn var og oft máttu sáttir þröngt sitja
„Við gátum farið til foreldra minna í Hafnarfirði,“ segir Jóhanna. „Við vorum þar í viku, við hjónin í hjólhýsinu og börnin inni. Svo vorum við ein fjölmargra Grindvíkinga sem fengum bústað í Ölfusborgum sem er rétt austan megin við Hveragerði. Við vorum þar fram til 13. janúar þegar við tæmdum bústaðinn og fluttum til Grindavíkur. Við vorum alsæl að keyra heim til Grindavíkur þennan laugardag þegar við heyrðum í fréttunum að búið væri að fyrirskipa rýmingu úr bænum tveimur sólarhringum síðar og trúðum varla eigin eyrum. Ég man þegar ég vaknaði þessa nótt þegar allt var að fara af stað, þetta minnti mig á lætin sem voru 10. nóvember og það kom á daginn, við vorum byrjuð að pakka og gera okkur klár að fara þegar rýming var fyrirskipuð. Daginn eftir breyttist síðan allt þegar hraunið náði inn fyrir varnargarða og tók þrjú hús og eftir það fluttum við aftur til foreldra minna í Hafnarfirði og oft var þröngt á þingi en þarna sannaðist heldur betur að þröngt mega sáttir sitja! Þar vorum við í tæpa tvo mánuði en fengum svo leiguíbúð á Dalsbraut í Njarðvík og vorum þar til að byrja með en undanfarna mánuði höfum við mest verið hér í Grindavík. Það er gott að hafa þetta afdrep í Njarðvík þegar kemur til rýminga t.d. og eins hefur Sindri gist þar eina og eina nótt með systur sinni þegar við Maggi vorum að vinna lengur. Leigustyrkurinn gildir út mars og eftir það munum við einfaldlega eiga eitt heimili, í Grindavík.
Það var fyndið hvernig það kom til að við fórum að vera meira í Grindavík. Ég var á frívakt þennan dag og var í Njarðvík en ég vinn á Northern light Inn hótelinu. Maggi vinnur hjá Vélsmiðju Grindavíkur og sagði við mig þennan föstudag, hvort ég væri ekki bara til í að pakka smá dóti ofan í tösku og við myndum bara vera í Grindavík þá helgi. Það var samþykkt og við áttum æðislega helgi heima hjá okkur í Grindavík, við og börnin í skýjunum. Á sunnudeginum sagðist Maggi ekki nenna að keyra til Njarðvíkur bara til að keyra til baka í vinnuna daginn eftir svo við framlengdum og upp frá þessu fórum við að dvelja meira heima hjá okkur, þar líður okkur öllum best. Við höfum samt að sjálfsögðu fylgst vel með fréttum og þegar landris var komið í neðri mörk færðum við okkur yfir til Njarðvíkur en allan tímann hefur okkur aldrei liðið óöruggum í Grindavík. Svo má ekki gleyma að við erum með hross og vorum líka með kindur en ákváðum að bregða fjárbúi síðasta haust en við þurfum auðvitað að koma hrossunum fyrir þegar landrisið er komið í neðri mörk, það hefur gengið vel. Við höfum rekið hestaleiguna Arctic horses síðan 2010, eigum fimmtán hross og erum með fjögur hross hér heima, þau passa í kerruna sem er alltaf til taks hér heima, við nýtum okkur bílastæði nágrannanna þar sem við erum þau einu sem búum í götunni,“ segja hjónin.
Vill hvergi annars staðar búa en í Grindavík
Sindri Snær var eitt þeirra barna sem sótti safnskóla í Reykjavík, eftir að hafa verið í grunnskólanum í Hveragerði þar sem mjög vel var tekið á móti honum, vildi hann frekar taka rútu til Reykjavíkur og vera með sínum vinum. Í dag gengur hann í Stapaskóla og unir hag sínum vel en hann vill hvergi annars staðar búa en í Grindavík.
„Það hefur verið alveg á hreinu hjá mér allan þennan tíma að ég vil bara eiga heima í Grindavík. Síðasti vetur var örugglega erfiður fyrir alla Grindvíkinga, líka mig en ég vildi bara vera í skóla með mínum skólasystkinum frá Grindavík, þess vegna fór ég til Reykjavíkur í safnskólann á hverjum degi, ég vildi klára 8. bekkinn með mínum kennurum og vinum mínum. Þegar við fórum að vera meira í Grindavík síðasta sumar leið mér strax æðislega, hér get ég gert nánast allt sem mig langar, ég er mikið að brasa með pabba inni í bílskúr en í Njarðvík erum við ekki einu sinni með bílskúr. Ég hef verið ofboðslega ánægður í Grindavík og ég held að flestir mínir vinir öfundi mig af því að fá að búa hér. Við krakkarnir erum mikið í samskiptum á netinu og spjöllum í video-símtali í símunum og oft biðja vinir mínir mig um að fara að gamla heimilinu þeirra og mynda það. Ég veit um fullt af börnum sem líður ekki vel þar sem þau búa og þrá ekkert heitara en flytja aftur heim. Sumir fara oft inn á Google maps til að sjá Grindavík fyrir hamfarirnar og einfaldlega sakna bæjarins mjög mikið. Ég held að ef skólahald myndi hefjast næsta haust þá sé mjög mikið af fólki sem myndi flytja aftur heim, Grindvíkingar sakna greinilega Grindavíkur. Ég hlakka mjög mikið til að fá alla vini mína aftur til Grindavíkur en þangað til verður mér skutlað í skólann í Innri-Njarðvík, mér hefur liðið vel í Stapaskóla og er búinn að eignast nýja vini en það breytir því ekki að ég er Grindvíkingur og verð alltaf Grindvíkingur,“ segir Sindri.
Bjartsýn á framtíð Grindavíkur
Hjónunum hefur ekki liðið óöruggum í eina sekúndu eftir að þau fluttu aftur heim.
„Varnargarðarnir breyta í raun öllu og vísindafólkið okkar segir að það hafi aldrei verið eldgos í Grindavík, bara fyrir utan bæinn og hraunið runnið inn í hann eins og gerðist fyrir ári. Eins og eldgosin hafa verið að hegða sér að undanförnu þá virðist þetta vera færast fjær Grindavík svo við höldum að mesta hættan sé liðin hjá en auðvitað getur enginn fullyrt nokkuð í þeim efnum. Okkur finnst forræðishyggjan hafi verið full mikil en í leiðinni vitum við að allir eru að gera sitt besta, lögregluyfirvöld og aðrir en hvenær má fólk taka ákvörðun fyrir sig sjálft og ákveða sjálft hvað sé hættulegt og hvað ekki? Það er alltaf talað um að við séum í Grindavík á eigin ábyrgð, hvar og hvenær er maður ekki á sína eigin ábyrgð? Á sama tíma og þúsundir ferðamanna eru í Bláa lóninu þá má ekki búa í Grindavík, er það bara eðlilegt?
Við vonum innilega að tónninn fari að breytast hjá yfirvöldum og Grindavík sé ekki stöðugt töluð svona niður og hættan töluð upp. Það er engin hætta í okkar huga, þ.e.a.s. þegar búið verður að laga allar sprungur, þótt að búið sé að girða allar sprungur af þá er það ekki varanlega örugg leið. Litlir pottormar munu eflaust stelast yfir þessar girðingar svo við viljum sjá bæinn lagaðan og eftir það mælir ekkert á móti því að byggja Grindavík upp að nýju. Þessi bær mun blómstra á ný, það erum við sannfærð um,“ sögðu hjónin að lokum.