Viðskipti

Góður gangur í Bústoð - stækka gjafavörudeildina
Bústoð í Garðabæ. Mynd af Facebook-síðu Bústoðar
Föstudagur 17. janúar 2025 kl. 06:31

Góður gangur í Bústoð - stækka gjafavörudeildina

- Góðar viðtökur fyrir nýrri verslun í Garðabæ

„Það hefur gengið mjög vel hjá okkur, veruleg aukning og svo hefur líka gengið vel í nýju búðinni okkar í Garðabæ,“ segir Björgvin Árnason, einn eigenda Bústoðar.

„Þegar við tókum við Bústoð, vorum við að taka við húsgagnaverslun sem var vel þekkt á Suðurnesjum en einnig út fyrir svæðið þannig að grunnurinn var góður. Við höfum spýtt í, breytt einhverju og gert nýja hluti sem hefur komið vel út. Við höfum t.d. aukið úrvalið og munum stórauka úrvalið í gjafavörunni á næstunni, en við erum að vinna í ákveðinni nýjung sem við munum kynna fljótlega, mjög skemmtilega,“ segir Björgvin en hann í félagi við fleiri tóku við rekstri Bústoðar fyrir tveimur árum síðan.

Í september síðastliðnum opnaði Bústoð í Garðabæ eftir talsverðan undirbúning. „Eftir rólega byrjun fyrsta mánuðinn sem er eðlilegt fyrir nýja húsgagnaverslun tóku viðskiptin við sér og við sáum mikla aukningu næstu mánuði eftir opnun.

„Við erum bjartsýn á framhaldið. Við höfum aukið úrvalið í húsgögnum og salan þar hefur verið mjög góð. Eins hefur verið aukning í gjafavörudeildinni sem við erum að stækka mikið á næstunni og því spennandi tímar framundan,“ sagði Björgvin.

Björgvin Árnason afhendir vinningsstólinn frá Bústoð í Jólalukku Víkurfrétta. VF/PKET