Hafði góða tilfinningu fyrir því að ég fengi flottan vinning
– segir Sanita Hildarson sem flutti frá Lettlandi til Íslands fyrir rúmum tuttugu árum síðan. Sótti glæsilegan rafmagnsleðurstól sem var fyrsti vinningur í Jólalukku VF frá Bústoð.
„Ég fékk góða tilfinningu fyrir þessu. Fann eitthvað á mér og ákvað svo að fara inn á Víkurfréttavefinn og athuga hvort vinningslistinn væri kominn. Viti menn, hann kom inn nokkrum mínútum áður og svo sá ég nafnið mitt efst, við stærsta vinninginn. Það var gaman,“ segir Sanita Hildarson en hún vann stærsta vinninginn í Jólalukku Víkurfrétta 2024, glæsilegan leðurrafmagnsstól.
„Ég er búin að finna stað fyrir stólinn og ætla mér að njóta þess að sitja í honum og m.a. Hlusta á fyrirlestra í náminu mínu í honum. Svo eru dætur mínar mjög spenntar að fá að sitja í honum líka,“ sagði Sanita þegar hún mátaði stólinn við afhendingu í Bústoð.
Sanita er fædd og uppalin í Riga í Lettlandi en hefur búið á Íslandi síðan 2004 eða rúma tvo áratugi. Hún hitti Íslending í Danmörku og flutti til Íslands og hefur eignaðist þrjú börn með honum. Sanita býr núna ein í Innri Njarðvík og starfar hjá Isavia á Keflavíkurflugvelli og stundar háskólanám í öryggissfræði og almannavörnum í fjarnámi frá Bifröst. Starfið hennar hjá Isavia tengist öryggisleit og átti þátt í því að hún ákvað að sækja þetta nám. Hún sótti framhaldsskóla í borginni Riga og og varð síðan lögreglukona þar í borg áður en hún elti ástina til Íslands. Sanita sem státar sig af því að hafa lært fimm tungumál, lettnesku, ensku, sænsku, rússnesku og svo íslensku, flutti fyrst til Reyðarfjarðar og starfaði þar m.a. á leikskóla í tvö ár en hefur síðan búið í Reykjanesbæ. Hún talar góða íslensku en hvernig hefur henni liðið á Íslandi?
„Frábærlega. Þegar ég lenti hér í Keflavík fann ég góða strauma og fannst ég vera komin heim. Hér ætla ég að eldast,“ sagði Sanita.