Fréttir

Íbúðum á Vatnsnesi fjölgað  úr 600 í 1.250 í nýju skipulagi
Föstudagur 17. janúar 2025 kl. 06:16

Íbúðum á Vatnsnesi fjölgað úr 600 í 1.250 í nýju skipulagi

Umhverfis - og skipulagsráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt að senda breytingu á aðalskipulagi Vatnsness til Skipulagsstofnunar til endanlegrar afgreiðslu. Núgildandi aðalskipulag gerir ráð fyrir 600 íbúðum á svæðinu. Við breytinguna fjölgar íbúðum í 1.250 og heildarbyggingarmagn eykst sem gerir ráð fyrir íbúðum og annarri þjónustu á svæðinu.

Aðalskipulagsbreytingin felur í sér breytingu á ákvæðum fyrir miðsvæði M9 Vatnsnes/Víkurbraut, sbr. feitletraðan texta:

„Gert er ráð fyrir endurskipulagningu á Vatnsnesi og blandaðri byggð atvinnu, þjónustu og íbúða á efri hæðum, en nesið er sérlega stórbrotið og áhugavert til endurbyggingar. Svæðið tengist miðbæ og lífæð beint um Hafnargötu. Hæðir húsa þrjár til fimm með möguleika á fjölgun hæða við ströndina (að hámarki sjö hæðir), ef hægt er að sýna fram á óveruleg áhrif vindstrengja og skuggavarps af mannvirkjum vegna hækkunar. Ný byggð lagi sig að eldri byggð og verði með góð tengsl við útivist. Nýjar götur verði í eðlilegu samhengi við núverandi gatnakerfi. Fjölbýlishús með fjölbreyttri gerð íbúða. Byggðin getur orðið kennileiti í byggð frá sjó og landi. Huga þarf sérstaklega að veðri og myndun vindstrengja á svæðinu. Bílgeymslum verði komið fyrir neðanjarðar að hluta. Huga þarf að endurbótum byggðar og umhverfis og mikilvægt er að frágangur og ásýnd á svæðinu taki mið af því að starfsemin og íbúðarbyggð geti farið saman. Gert er ráð fyrir að starfræktur verði leikskóli á svæðinu þegar fram líða stundir".

Í gögnum frá fundi ráðsins segir að byggt er á markmiðum Aðalskipulags Reykjanesbæjar 2020-2035 þar sem áhersla er lögð á að þétta byggð sem er til þess fallin að styrkja miðsvæði með íbúðar-, verslunar- og þjónustuhúsnæði. Einnig fellur breytingin vel að markmiði aðalskipulagsins að endurskipuleggja svæði sem eru vannýtt eða landnotkun hefur breyst á. Auglýsingu tillögunnar er lokið og bárust ráðinu nokkrar athugasemdir.

Íbúar á Víkurbraut 15 og Víkurbraut 17 segjast í athugasemdum hafa áhyggjur af breytingu á aðalskipulagi þar sem fjölga á íbúðum á Vatnsnesinu. Samkvæmt þeirri tillögu sem fyrir liggur á að fjölga íbúðum úr 600 í 1250 og ef reiknað er með 1,6 bíl á íbúð þá er þetta 1.984 bílar sem verða þarna.

„Svo er BYKO að fara eftir ca. eitt ár og þar koma væntanlega hús svo það má reikna með að bílafjöldi sem fer hérna um Vatnsnesið aukist um ca 2.500 bíla. Álag á Víkurbrautina og Vatnsnesveg og nærliggjandi samgöngumannvirki eykst mikið,“ segir meðal annars í athugasemd íbúa.

Að endingu hvetja íbúar bæjaryfirvöld til að skoða skipulagið betur til að lenda ekki í sömu vandamálum og Reykjavíkurborg og vísað til þéttingar byggðar og skorts á bílastæðum.