Ríkið leitar að húsnæði fyrir 80-150 ný hjúkrunarrými á Suðurnesjum
Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir (FSRE), fyrir hönd ríkissjóðs, hefur óskað eftir leigutilboðum fyrir húsnæði á Suðurnesjum undir hjúkrunarheimili. Óskað er eftir húsnæði fyrir allt að 80 til 150 hjúkrunarrými. Húsnæðið skal a.m.k. vera komið vel áleiðis í byggingarfasa, í því felst að skipulag lóðar og ytri hönnun þarf að liggja fyrir þegar tilboði er skilað.
Umræður um nýtt hjúkrunarheimili í Reykjanesbæ voru á síðasta fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar þar sem þeir Guðlaugur H. Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs, og Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco, mættu á fundinn.
Viðmið heilbrigðisráðuneytisins um skipulag hjúkrunarheimila gera ráð fyrir að lágmarki 65 brúttófermetrum á hvert hjúkrunarrými og húsnæðisþörf á Suðurnesjum því um 5.000 til 10.000 fermetrar. Húsnæðið óskast afhent eins fljótt og kostur er, hámarks afhendingartími er 18 -24 mánuðir eftir undirskrift húsaleigusamnings.
Í markaðskönnun FSRE kemur fram að húsnæðið skal vera staðsett innan þéttbýliskjarna og í nálægð við almenningssamgöngur. Kostur ef húsnæðið er staðsett í nálægð við aðra þjónustustarfsemi, þá einkum fyrir aldraða.
Húsnæðið þarf jafnframt að uppfylla lágmarksviðmið heilbrigðisráðuneytisins um skipulag hjúkrunarheimila og verða leigusalar að afhenda húsnæðið fullbúið til notkunar samkvæmt kröfum sem fram koma í húslýsingu. Gott aðgengi skal vera að húsnæðinu, þ.m.t. fyrir hreyfihamlaða, gangandi, hjólandi og akandi umferð. Húsnæðinu skal fylgja fjöldi bílastæða sem hentar starfseminni. Miðað er við að húsnæðið verði tekið á langtímaleigu til 25 ára, með heimild til framlengingar til 10 ára.
Guðlaugur H. Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs, segir í samtali við Víkurfréttir að í framhaldi af markaðskönnun FSRE hafi hann farið með þá hugmynd inn í bæjarráð hvort bæjaryfirvöld ættu ekki að láta vita af lóð á Ásbrú. Tiltekin lóð er í aðalskipulagi fyrir slíka starfsemi. Guðlaugur segir jafnframt að önnur svæði á Ásbrú henti einnig vel, þjónustusvæði eða miðsvæði. Hann segir að bæjarráð hafi tekið vel í hugmyndina og málið sé áfram til vinnslu.
Ekki leitað til Suðurnesjabæjar
Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Suðurnesjabæ, sagði markaðskönnun FSRE ekki hafa borist bæjaryfirvöldum í Suðurnesjabæ og því ekki verið til umfjöllunar í stjórnkerfi sveitarfélagsins. „Það hefur verið umræða um að horft verði til þess að byggja upp hjúkrunarheimili í Suðurnesjabæ og þá m.a. í tengslum við skipulagsmál og mögulega staðsetningu. Það hefur verið á dagskrá að leita eftir því við ríkið að setja slíkt mál í gang,“ segir Magnús við fyrirspurn Víkurfrétta um málið.