Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Mannlíf

Hvort er gervigreindin ógn eða tækifæri fyrir tónlistarbransann?
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 18. janúar 2025 kl. 07:00

Hvort er gervigreindin ógn eða tækifæri fyrir tónlistarbransann?

Ekkert kemur í staðinn fyrir lifandi tónlistarmann sem er sannur og trúr í sinni sköpun

„Það er búið að semja þessi lög milljón sinnum, svona lög munu aldrei skera sig úr og það mun ekkert koma í staðinn fyrir lifandi tónlistarmann sem er trúr og sannur í sinni sköpun,“ segir keflvíski tónlistarmaðurinn Magnús Jón Kjartansson. Blaðamaður Víkurfrétta gerði skemmtilega tilraun, tók texta sem Vilhjálmur Vilhjálmsson heitinn samdi, Lítill drengur, og lét gervigreindina semja nýtt lag við textann en eins og alkunna er samdi Maggi Kjartans lagið á sínum tíma, lag sem er fyrir löngu búið að greipast inn í íslenska þjóðarsál.
Það eru mörg álitamál sem hafa sprottið upp, bæði lögfræðileg og siðferðisleg og munu eflaust spretta oftar upp í kjölfarið á þessum nýja veruleika og er í þessari grein, líka rætt við Guðrúnu Björk Bjarnadóttur, framkvæmdastjóra STEFs, og tónskáldið Kjartan Ólafsson en hann er líka forritari og bjó til eigið forrit/app, Calmus en það aðstoðar tónskáld við að semja tónverk.

Sumir líta á þetta nýja fyrirbæri sem ógn við sköpun listamannsins en Maggi Kjartans er ekki á þeim vagni, hann telur gervigreindina einfaldlega vera hluta af þróun tækninnar.

„Ég held að það megi rekja upphaf gervigreindar til tilrauna mannsins við að finna lausnir á alls konar þjónustu, í raun frá örófi alda. Mors-tæknin á sínum tíma, síminn, símsvari, í dag er varla hægt að hringja í verslun nema tala við símsvara sem segir manni það helsta eins og opnunartímann. Við erum með Heilsuveru sem geymir okkar heilsufarsupplýsingar, þú getur fengið yfirdrátt í bankanum þínum í gegnum appið, tölvan sér hvort þú sért góður fyrir láninu, svona væri lengi hægt að halda áfram og þylja upp allar nýjar tæknibyltingar en svona hefur þetta verið og mun verða áfram, annað er óhjákvæmilegt. Gervigreindin er bara enn einn anginn af þessari tækniþróun.

Þegar ég var að byrja í tónlistinni sem unglingur þá var Bítlaæðið u.þ.b. að spretta upp og þá heyrðist frá eldri kynslóðinni að tónlistin væri alltof hávær, þetta væri bara eitthvað garg. Svona einfaldlega þróast hlutirnir, sumir héldu að myndbandstækið myndi rústa útvarpsstjörnunni [Video killed the radio star] en útvarpið lifir enn góðu lífi en hvar er myndbandstækið í dag? Nú hefur bíóið í mínum gamla heimabæ lokað og ég held því miður að það muni ekki líða langur tími þar til bíó verði útdautt. Internetið með streymisveitum á borð við Netflix og öppum frá sjónvarps- og útvarpsstöðum veldur því að fólk er hætt að horfa eingöngu á línulega dagskrá eins og tíðkaðist hér áður fyrr. Nú horfir fólk á það sem það vill horfa á, þegar það vill og hefur tíma til.“

Hættur hafa alltaf steðjað að tónlistarbransanum

Það hafa alltaf steðjað hættur að tónlistarbransanum, t.d. þegar diskótekin komu til sögunnar, þá varð allt í einu lítið sem ekkert að gera fyrir danstónlistarfólkið. Þá þótti fínna að dansa við upprunanlega útgáfu vinsællrar tónlistar sem sérsamin var fyrir tískuhreyfingar þess tíma og þægilegt var að dilla sér við.

„Svo kom að því að þetta þótti ekki lengur flott svo það má kannski segja að margt fari í hring. Allt í einu var maður staddur á pöbb með bjórlíki í hendinni og trúbador úti  í dimmu horni. Í dag eru sveitaböllin næstum útdauð, eða fóru þau bara á Tinder?

Það mun aldrei neitt koma í staðinn fyrir lifandi flutning tónlistar og ég er sannfærður um að tónlistarmenn muni nýta sér gervigreindartæknina í auknum mæli í framtíðinni. Í dag er hægt að fara á Abba-sýningu í London þar sem hljómsveitarmeðlimir eru í þrívídd á sviðinu og manni líður eins og maður sé á að horfa á lifandi fjórmenningana og hljómsveit lifandi á sviðinu.

Svo er auðvitað annar vinkill á umræðuna, hvort er viðkomandi að fara á tónleika til að hlusta á lögin, eða að hlusta á og sjá viðkomandi tónlistarmann? Suma dreymir um að vera ódauðlegir, ég er ekki þar en vil auðvitað að lögin mín lifi.

Framtíð útvarps er spurning, í dag hlustar ungdómurinn á það sem viðkomandi vill og hefur áhuga á. Kannski er ég innst inni feginn að vera ekki ungur tónlistarmaður í dag, Spotify og aðrar streymisveitur hafa tekið yfir eina helstu tekjulind tónlistarmanna, sem var að selja plötur og síðan geisladiska.

Þegar ég var á kafi í tónlistinni á sínum tíma þá gengu hlutirnir út á að semja góð lög til að setja á plötur og lifandi flutningur fylgdi svo í kjölfarið ásamt því að útvarpsstöðvar fluttu tónlistina til áhugasamra. Þetta hélst nokkuð vel saman í hendur, um leið og flytjendur áttu smell eða fengu góða plötusölu þá vaknaði auðvitað áhugi fólks og viðkomandi fékk mikið að gera við að flytja tónlistina sína. Þannig hefur þetta alltaf verið í tónlistarlífinu og verður áfram. Það að búa til og taka upp tónlist er orðið miklu auðveldara í kjölfar tækninnar. Nú hafa áhugasamir tæki, tól og aðstöðu til að taka upp alla tónlist hvar sem er. Það eina sem þarf er góður hljóðnemi, gott hljóðkort og kunna vel á tæknina, eftir það er hægt að gera ótrúlega hluti. Þegar ég var í þessu þá kostaði tíminn í hljóðveri mikinn pening og maður klæddi sig upp og undirbjó sig vel sem þýddi að við þurftum virkilega að vanda okkur,“ segir Maggi.

Gervigreindin nýr lagahöfundur?

Það hefur í talsverðan tíma verið hægt að nálgast öpp og forrit sem hjálpa tónlistarmanninum, Maggi hélt áfram.

„Ég nota talsvert app sem býður upp á þann möguleika að taka ákveðinn hlut úr heildarupptökunni, og vinna með. Gott dæmi um þetta er þegar Beyoncé endurgerði lag Bítlanna, Blackbird, hún notast við sama gítarleik og Bítlarnir og Paul McCartney spilaði inn. Hægt var að taka gítarspilið út úr upptökunni og Beyoncé söng yfir.

Það eru til flott forrit sem hjálpa tónskáldinu við að semja en að Pétur og Páll sem hvorki geta haldið lagi, leikið á hljóðfæri eða lesið nótur, geti látið gervigreindina búa til nýtt frumsamið og frumlegt lag, er auðvitað nýr veruleiki.

Það var athyglisvert að heyra þetta laglíki við texta Villa heitins um Lítinn dreng, mér sem höfundi lagsins fannst þetta auðvitað athyglisvert en þegar betur var að gáð, kom í ljós að ég hafði heyrt þetta lag milljón sinnum áður! 90% af nýrri tónlist í dag sem er vinsæl hjá ungdómnum er bara eins og Tetris eða Legó-kubba leikur. Það er svo sem ekkert að því fyrir þá sem kunna að meta það. Ég sem tónlistarmaður hef engar áhyggjur af því. Þessi lög eru samt í raun bara eftirlíkingar af öðrum lögum. Sagan segir okkur að slík tónlist hefur aldrei náð neinni fótfestu og er ekki heldur að fara gera það núna, það er ég sannfærður um. Það mun aldrei neitt útrýma sköpunarþránni fyrir þann sem kann að búa til tónlist og texta því það er hluti af því að vera manneskja fyrir viðkomandi, að skapa.

Ég hef verið spurður að því hvort gervigreindin geti ekki hugsanlega dregið kjarkinn úr lagahöfundum, að viðkomandi telji að gervigreindin geri betur og í stað þess að rembast eins og rjúpa við staurinn, sé betra að láta gervigreindina bara sjá um málið. Þetta er hinn mesti misskilningur, sá sem rembist við að semja lag mun aldrei koma með gott eða fallegt lag, myndlíkingin við rjúpuna er þá einfaldlega orðin þannig að þar með skíti rjúpan upp um allan staurinn!

Ógn eða tækifæri?

Magnús veltir því upp hvort gervigreindin sé tækifæri eða ógn fyrir tónlistarbransann.

„Ég fæ skemmtaratilfinningu því ég man þegar þeir ruddu sér til rúms á sínum tíma og manni fannst þetta alveg skelfilegt, að þarna gátu menn leikið fyrir dansi með trommubít og annað í skemmtaranum. Svo áttaði fólk sig á að þetta væri ekki málið, ég held að það sama muni gilda fyrir þessa nýju tækni gervigreindarinnar og hún hefur ekkert gaman af því að hlusta á sjálfa sig, dansa, eða leika á hljóðfæri. Það mun aldrei neitt koma í staðinn fyrir listamanninn sem er sannur og trúr í sinni sköpun. Ég hvet allt tónlistarfólk og bara listafólk yfir höfuð, að láta bara vaða og helst að reyna læra sem mest í viðkomandi listgrein, það hjálpar alltaf. Svo er bara að spila eða dansa við öll tækifæri og umfram allt að hafa gaman. Ef gleðin er ekki helsti drifkrafturinn þá verður partýið stutt. Sama er með listamanninn, stundum er hann inni og stundum úti. Það eina sem hann eða hún getur gert, er að vera sannur og trú í sinni sköpun,“ sagði Maggi að lokum.

Guðrún Björk Bjarnadóttir

Afstaða STEF

STEF eru opin félagasamtök höfunda og rétthafa um höfundarétt á sviði tónlistar. Samtökin gæta hagsmuna og höfundaréttar innlendra og erlendra tónskálda, textahöfunda, svo og annarra rétthafa tónverka og tilheyrandi texta er varða höfundarétt. Samtökin starfa á grundvelli viðurkenningar Menningar- og viðskiptaráðuneytisins til innheimtu höfundarréttargjalda samkvæmt höfundalögum. Þau vinna að því að efla og styrkja nýsköpun og stuðla að grósku tónlistar á Íslandi. 

Framkvæmdastjóri STEFs heitir Guðrún Björk Bjarnadóttir, hún getur ekki annað en litið á gervigreindina sem beina ógn við tónlistarfólkið en hennar starf snýst um að gæta réttinda tónlistarfólks.

„Ætli séu ekki eitt til tvö ár síðan almenningi gafst kostur á að mata tölvuna og láta hana búa til lag fyrir sig á einfaldan hátt en fyrir þann tíma voru til flóknari gervigreindarlausnir sem tónlistarfólk gat nýtt sér í sinni vinnu og það er auðvitað hið besta mál. Að almenningur geti hins vegar ýtt á einn takka og lag fæðist er hins vegar allt annar handleggur og ég get ekki litið öðruvísi á þennan nýja veruleika en sem beina ógn við tónlistariðnaðinn. 

STEF framkvæmdi nýlega könnun fyrir félagsfólk sitt um afstöðu þeirra til gervigreindar og af þeim sem svöruðu kom þetta fram:

  • 7,6% tónlistarfólks hafði nýtt sér gervigreind við tónsköpun. 
  • 11,1% sá fyrir sér að nýta sér hana í framtíðinni. 
  • Tæp 70% telja að gervigreind geti opnað fyrir nýja sköpun.
  • 30% töldu að gervigreind muni hafa neikvæð áhrif á tekjuöflun þeirra. 
  • 57% telja ráðafólk í tónlistarbransanum ekki hafa veitt þeim áskorunum sem gervigreind hefur í för með sér, nægilega athygli.
  • 81% telja að tónverk gervigreindar eigi að vera sérstaklega merkt sem slíkt.
  • 76% telja að eigendur verka sem notuð eru til þjálfunar gervigreinar, eigi að fá greitt vegna slíkrar notkunar.

Þessar niðurstöður ríma vel við skýrslu sem alþjóðasamtök höfundaréttarsamtaka, CISAC, kynntu í desember síðastliðnum en þetta er fyrsta skýrslan sem kemur fram um áhrif gervigreindar á tónlistariðnaðinn sem nær til alls heimsins. Stærsti punkturinn í þessari skýrslu er kannski sá að útlit er fyrir að tónlistarfólk sé að fara tapa 30% af sínum tekjum á næstu fimm árum. Ástæðan er í raun tvöföld, bæði er búið að nýta fyrri sköpunarverk tónlistarfólks til að búa til ný verk án endurgjalds og sú tónlist sem þannig verður til, fer síðan í beina samkeppni við upprunalegu verkin. 

Við heyrum sögusagnir um hvernig veitur eins og Spotify eru farin að lauma gervigreindarlögum inn á spilunarlista og ef notandinn tekur ekki eftir neinu þá spilast umrætt lag en Spotify þarf ekki að standa skil á greiðslum til höfunda, útgefanda eða flytjenda. STEF innheimtir höfundaréttargjöld frá ýmsum aðilum eins og t.d. veitingastöðum og verslunum. Þessi nýi veruleiki býður hættunni svo sannarlega heim því núna geta veitingastaðir haldið því fram að þeir séu bara að bjóða upp á gervigreindartónlist og þurfi þ.a.l. ekki að greiða höfundaréttargjöld. Ég held að hætt sé við því að framleiðendur sjónvarpsefnis sjái sér einnig leik á borði og láti gervigreindina „semja“ tónlista og sleppa þannig við að borga tónlistarfólki. Þetta eru einfaldlega stórar breytur sem ég er smeyk um að muni hafa mikil áhrif í nánustu framtíð, ég get ekki annað en litið á þetta fyrst og fremst sem beina ógn og mun beita mér í mínu starfi til að verja hagsmuni tónlistarfólks.“

Ný og bætt löggjöf

Venjulega er löggjöfin á eftir tækninni, sú er raunin í tónlistarbransanum.

„Þegar Evrópusambandið samþykkti tilskipun um texta- og gagnanám sem er það sem gervigreindarfyrirtækin hafa verið að nýta sér, hafði enginn í huga að þessi fyrirtæki myndu síðan setja á markað þjónustu sem færi í beina samkeppni við þau verk sem notuð voru fyrir þjálfun gervigreindarinnar. Löggjöfin var því orðin úrelt á þeim tíma sem að verið var að innleiða hana. Vonandi munu koma ný lög sem ná betur yfir þessa hluti í framtíðinni. Í því sambandi vona ég að réttur höfundaréttarsamtaka til að innheimta höfundaréttargjöld af slíkum þjónustum verði styrktur og með eðlilegu endurgjaldi fyrir að nota verk höfunda sem hluta af þjónustu sem er seld, leiði það til þess að þiggjendur þjónustu geti ekki fengið hana ókeypis. Það gefur auga leið að ekki er hægt að keppa við það sem er ókeypis. Hagnaður Spotify hefur aukist undanfarin ár, hugsanlega þar sem fyrirtækið er ekki að borga eins mikið til höfunda tónlistar, flytjenda og útgefanda. Eins og ég minntist á áðan þá leikur grunur á að Spotify sé að láta gervigreindina semja fyrir sig tónlist sem svo er laumað inn á lífsstíls-spilunarlista, einhver nöfn eru á bak við viðkomandi lag en þegar betur er að gáð sést að það er bara tilbúið nafn. Mér finnst í raun alveg ótrúlegt að þjónusta sem fyrst og fremst gengur út á að selja tónlist skuli á svo margan hátt vera að vinna gegn hagsmunum þeirra sem semja tónlistina. Það er klárlega mikill freistnivandi sem streymisveiturnar standa frammi fyrir en þau segja að þau séu að borga allt að 70% af sínum tekjum til tónlistarfólks, þá bæði til höfunda, flytjenda og útgefanda, og ef þau finna leið til að lækka þetta hlutfall og komast framhjá samningum, er ekki ólíklegt að þau reyni það án þess að huga að afleiðingunum. 

Ég er búin að vera í þessu starfi í allnokkur ár og get alveg játað að þetta er stærsta og erfiðasta áskorunin sem ég hef staðið frammi fyrir, en það er líka spennandi að takast á við þennan breytta veruleika. Mikill tími undanfarið hefur farið í þetta málefni, við erum í samstarfi við hin Norðurlöndin og erum líka í samvinnu við aðrar þjóðir í Evrópu  varðandi það hvernig við getum brugðist við. Við erum að reyna hafa áhrif á umræðuna og reyna tala okkar máli fyrir Evrópusambandinu. Við erum nýlega búin að setja nýjar reglur um skráningu verka sem gerð eru með gervigreind og höfum t.a.m. nú heimild til að taka gjald fyrir skráningu ef okkur berast óvenju mörg verk sem þá líklega hafa verið gerð með aðstoð gervigreindar. Það er viðbúið að þetta verði svona á næstunni, við erum bara rétt að byrja er ég hrædd um,“ sagði Guðrún Björk.

Kjartan Ólafsson

Hannaði app löngu fyrir tíma nýjustu tækni gervigreindarinnar

Með góðum rökum væri hægt að halda fram að tónskáldið Kjartan Ólafsson sé einn þeirra sem hnýtir ekki baggana sína sömu hnútum og samferðarfólk hans. Kjartan staldraði stutt við í poppheiminum á hinu goðsagnarkennda 80´s tímabili en sagði skilið við þann bransa þegar hann hélt í nám í klassískri tónlist í Finnlandi. Fljótlega fór hann að leiða hugann að nýrri tækni og úr urðu Calmus forritin, sem hjálpa tónlistarfólki við tónsköpun. Calmus forritin eru sniðin aðallega að klassískri tónlist en Kjartan hefur mest verið í slíkri tónlist undanfarin ár. Áður en kemur að viðtalinu fylgir smá saga um þá snilligáfu sem Kjartan býr yfir að mati blaðamanns.

Blaðamaður hafði svo sannarlega heyrt þekktasta popplag Kjartans, LaLíf. Youtube-myndband við lagið fylgir greininni en blaðamaður vissi ekki fyrr en við vinnslu greinarinnar, að texti lagsins er sunginn aftur á bak! Kjartan samdi textann sem enginn hefur fengið að sjá en hvernig honum datt í hug að syngja svo textann aftur á bak, mun ekki skýrast út í þessari grein!

Calmus

Kjartan er á sömu bylgjulengd og Maggi Kjartans, hann hefur ekki áhyggjur af því að gervigreindin muni ryðja lifandi tónlistarfólki úr vegi.

„Minn grunnur í tónlist er þannig að ég lifði og hrærðist í poppheiminum til að byrja með, samdi t.a.m. umrætt lag á þeim tíma en svo var ég svo heppinn að fá inngöngu í Sibelius-tónlistarháskólann í Helsinki í Finnlandi og hóf nám í klassískri tónlist. Þar komst ég tæri við gamla aðferðafræði í tónlistarsköpun, að nota stærðfræði við tónsköpun. Út frá því fór ég að spá í að koma þessu yfir á tölvutækt form og ég lærði líka að forrita og forritaði tónsmíðaaðferðir inn í CALMUS AI kjarnann en hann aðstoðar tónskáld við tónsmíðar. Calmus forritið hefur verið mikið notað og hafa tugþúsundir hlaðið því niður af AppStore, í dag er bara hægt að nota forritið með MacOs og IOs en ekki fyrir Android stýrikerfi og þ.a.l. Samsung t.d. en það mun koma. Mér finnst mjög skemmtilegt að taka þátt í þróun nýrrar tækni í tónsköpun í dag en það sem forritið mitt gerir, ef ég reyni að skýra út á mannamáli, það hlustar á það sem þú lætur inn í það en bæði er hægt að mata forritið með nótum (Midi-file) og spila af Midi-píanói inn í það. Forritið greinir upplýsingarnar niður í smæstu einingar og býður upp á nýjar hugmyndir í framhaldinu. Þú getur í raun átt samtal við forritið, þú færð tillögu að tónlist út úr því og getur síðan matað það upp á nýtt og biður um aðra nálgun sem þú færð á nokkrum sekúndum. Þarna er einfaldlega verið að nýta sér tæknina sem hjálpartæki og það er fullkomlega eðlilegt í mínum huga og ekki nýtt í listsköpun. Tökum sem dæmi lagið um Gamla Nóa, forritið myndi sjá að lagið byggir á þríundum, það er í dúr-hljómi o.s.frv. og út frá þessum upplýsingum býður forritið notandanum upp á ýmsa aðra valkosti við tónsmíðina. Af því að tölvan vinnur úr svo miklu magni upplýsinga á tiltölulega skömmum tíma, fær notandinn strax upp í hendurnar möguleikana en það myndi t.d. taka mig mun lengri tíma að finna út úr því sama. Notandinn býr til sitt eigið efni sjálfur og nýtir CALMUS til að vinna með það undir stjórn höfundar sem tryggir bæði höfundareinkenni og höfundarrétt notandans. Fyrsta útgáfan af CALMUS kom út árið 2014 en það er búið að vera til í nokkrum mismunandi útgáfum síðan 2018. Það er u.þ.b. fjórum árum áður en þessi nýja umrædda Chat-GPT tækni lítur dagsins ljós, þar sem öllum gefst kostur á að mata tölvuna með lýsingum á ákveðinni tónlist sem Chat-GPT nýtir til leitar á netinu. Viðkomandi fær nýtt lag út úr kerfinu, byggt á þeim lýsingum.“ 

Spáði fyrir tæknibyltingu árið 2018

Segja má að Kjartan og kollegar hans hafi verið á undan sinni samtíð.

„Mér er minnisstætt á ráðstefnu árið 2018 í Reykjavík á vegum STEFs þegar norrænu höfundarréttarsamtökin Nordisk Union voru að ráða ráðum sínum. Ég bauð ráðstefnugestum upp á að nota forritið mitt og semja tónlist í rauntíma þannig að út úr því fæddist nýtt tónverk í rauntíma á staðnum. Þegar búið var að semja verkið spurði ég höfundarréttarsérfræðingana hver höfundur lagsins væri, fólkið stóð á gati! Þarna var ég í raun að sýna sérfræðingum í höfundarrétti fram á hugsanlega ögrun við höfundarrétt í framtíðinni, sem nú hefur raungerst þótt enginn hafi séð fyrir Chat-GPT á þessum tímapunkti. Það er mín tilfinning að við verðum í þessum breytingarfasa næstu tvö árin en svo mun komast á jafnvægi. Með Chat-GPT byltingunni kom fram öflugt tól sem gat safnað saman upplýsingum um tónefni á ógnarhraða samkvæmt ósk notandans og síðan samið eftirlíkingu á safnaða efninu sem er á skjön við höfundarlög og jafnframt án höfundareinkenna notandans. Ég held að almenningur og atvinnufólk muni átta sig betur á Chat-GPT notkun í tónsköpun og taki sköpun tónlistarfólks fram yfir þessa nálgun en vissulega steðjar hætta að tónlistarbransanum í dag, það getur ekki verið tilviljun að hagnaður Spotify t.d. sé búinn að aukast á undanförnum árum, á sama tíma og tekjur tónlistarfólks frá Spotify hafa dregist saman. Ég held að þessar tæknibreytingar séu komnar til að vera og við þurfum frekar að læra að vinna með þeim og nýta þar sem það á við, í stað þess að vinna gegn þeim. Í stað þess að líta á þetta sem ógn við sköpun lifandi tónlistarmanns, held ég þvert á móti að þetta muni verða til þess að styrkja stöðu listafólks þar sem kall eftir skýrum listrænum prófíl listamannsins muni aukast. Fólk mun átta sig á að Chat-GPT aðferðir eru meira sem endurspeglun á eldra efni í samanburði við frumsamið tónverk sem er samið með eða án aðstoðar gervigreindar. Það mun hins vegar taka tíma og það kæmi mér ekki á óvart ef við verðum í hvirfilbil breytinga næstu tvö árin en svo mun þetta leita í jafnvægi, það gerist nánast alltaf,“ segir Kjartan. 

Hver er höfundur tónverks Kjartans?

„Ég gaf út plötuna Voyage through the Waves árið 2022. Konan mín stundar hugleiðslu og hvatti mig til að semja hugleiðslutónlist. Ég settist fyrir framan forritið mitt og forritaði það svo það gæti samið tónlist í þessum stíl, sem tók töluverðan tíma en mataði það síðan með aðeins þremur hljómum, þríhljómum, C-dúr, G-moll og B-dúr og þegar verkinu var lokið var 120 mínútna tónsmíð orðin til. Ég þurfti ekki annað að gera en flytja efnið yfir í upptökuforrit, bútaði það niður í fimm verk og gefa út. Það er góð spurning hjá þér hvort Calmus ætti ekki rétt á hluta höfundarréttagreiðslna, en þar sem ég er höfundur efniviðarins og forritið vinnur eftir bæði nýjum og eldri tónsmíðaðaferðum sem forritaðar eru inn í kerfið – aðferðir sem eru aldrei höfundarvarðar, þá er ég höfundurinn eins og ef hefðbundnum aðferðum hefði verið beitt. Það er rétt að taka það fram að ef ég hefði samið þessa tónlist með blaði og fjaðurpenna, hefði það tekið fjóra til fimm mánuði,” sagði Kjartan að lokum.

Í spilaranum hér fyrir neðan er hægt að sjá og heyra þessi lög:

Nýja gervigreinarlagið um Lítinn dreng en á undan er bútur úr upprunanlegu lagi Magga Kjartans

Tónverkið sem Kjartan lét ráðstefnugesti taka þátt í að semja á ráðstefnu Nordik Union í Reykjavík árið 2018.

80´s poppsmellur Kjartans Ólafssonar, LaLíf. 

Hlekkur á texta og hljóma LaLíf, á Guitarparty.is

Hluti hins nýja lags sem gervigreindin „samdi“ við texta Vilhjálms Vilhjálmssonar, Lítill drengur en á undan kemur stuttur bútur úr upprunalega lagi Magga Kjartans. Tónverkið sem Kjartan lét ráðstefnugesti taka þátt í að semja á ráðstefnu Nordik Union í Reykjavík árið 2018. 80´s poppsmellur Kjartans Ólafssonar, LaLíf.