Mannlíf

Rannsóknarstofan gæti heillað
Laugardagur 18. janúar 2025 kl. 06:50

Rannsóknarstofan gæti heillað

„Mér finnst gott að geta hafa valið um að ljúka stúdentsprófi fyrr ef maður hefur tök á því,“ segir dúx Fjölbrautaskóla Suðurnesja á nýafstaðinni haustönn, Bergþóra Sól Hálfdánsdóttir. Hún lauk stúdentsprófi á tveimur og hálfu ári og útskrifaðist af raunvísindabraut með meðaleinkunina 8,88. Hún stefnir á háskólanám næsta haust en er ekki ákveðin hvaða námsbraut hún mun þá feta. Þangað til ætlar hún að vinna sér inn pening og setur sig hér með í gluggann og auglýsir eftir skemmtilegri vinnu.

Dúxinn fæddist í Reykjanesbæ og tók fyrstu sporin þar en svo fór fjölskyldan á smá flakk.

„Fyrstu árin bjó ég í Keflavík en svo fluttum við í Reykjavík og ég hóf grunnskólagönguna þar en svo fluttum við á Selfoss og ég tók 8-10. bekk þar. Svo fluttum við aftur til Reykjanesbæjar og ég fór strax í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og hóf nám á raunvísindabraut. Mér finnst gott að geta haft þetta val með að klára stúdentinn fyrr ef maður kýs það. Ég náði alveg að stunda það félagslíf sem ég kaus en ég er kannski ekkert mjög félagslynd manneskja, ég uni mér oft best við að einbeita mér að náminu. Ég á alveg mína vini og sinni þeim, ég var að æfa sund þar til að haustönnin hófst en þar sem ég var líka að vinna með náminu, n.t. á Langbest, varð ég að hætta í sundinu. Ég var ekki með neitt markmið um að vera dúx FS og átti í raun ekki von á því þar sem ég tók námið á þessari hraðferð, þess vegna kom skemmtilega á óvart að hljóta þessar viðurkenningar á útskriftinni. Ég fékk bæði verðlaun fyrir raunvísindagreinar og í spænsku, ég er fín í öðrum tungumálum en líklega er ég sterkust í raunvísindagreinunum.“

Vantar vinnu

Bergþóra ætlar að að gefa sér fram á sumarið að ákveða hvaða námsbraut hún velur í háskóla en ef hún yrði að velja í dag var hún með svar á nokkuð reiðum höndum. Þar til hún tekur endanlega ákvörðun mun hún vinna sér inn pening en hvar það verður á eftir að koma í ljós, hún auglýsir hér með eftir skemmtilegri vinnu.

„Mamma kærastans míns býr í Reykjavík og ég ætla að flytja til þeirra og fara vinna, ég var komin með vinnu en líst ekki á það og er því að leita að skemmtilegri vinnu. Sem betur fer þarf ég ekki að velja námið í háskóla strax en ef ég þyrfti að velja í dag þá finnst mér líklegt að lífeindafræði yrði fyrir valinu. Líffræði og rannsóknarvinna á rannsóknarstofu heillar mig svo það kæmi ekki á óvart ef það yrði fyrir valinu. Það eru góðir atvinnumöguleikar sem bíða manns eftir slíkt nám en ég ætla að spá vel í þessu og hef fínan tíma til þess fram á sumarið. Ég ætla að vera dugleg að mæta í ræktina, það er nauðsynlegt að stunda líkamsrækt. Ég vil klára grunnháskólanám og svo yrði gaman að prófa að flytja eitthvert út í heim og upplifa nýja hluti, kannski að negla spænskuna, það væri gaman að geta talað hana reiprennandi. Það verður fínt að taka sér smá pásu núna frá námi, prófa nýja vinnu og einfaldlega að njóta lífsins og hlaða batteríin. Þegar að því kemur verð ég tilbúin að velja mér næsta nám og það verður líka gaman,“ sagði dúxinn Bergþóra Sól að lokum.